Þegar fólk ákveður að flytjast búferlum til annars lands er alveg sjálfsagt að það reyni að læra tungumál þessa tiltekna lands. Það gerist þó ekki á einni nóttu eða í okkar tilfelli þremur mánuðum.
Ég hef ítrekað lent í því að standa fyrir framan manneskju og hún talar við mig á spænsku (eða katalónsku) og ég skil nokkurn veginn hvað hún segir (eða ekki) en svo þegar ég ætla að svara þá kárnar nú gamanið..uuu uumm ehh..habla usted ingles? Spyr ég þá afsakandi..No er þá svarað blákalt, nánast án undantekninga. Ókei ..þá nota ég bara þau orð sem ég kann og hendurnar hmm vale..si.
Þegar við vorum að reyna að skrá Sölku í skóla hér í borg byrjuðum við í sakleysi okkar að þræða þá skóla sem voru nálægt okkur. Þar hittum við fyrir húsverði, kennara, skólastjóra og fleira
fólk sem töluðu litla ensku og við auðvitað litla spænsku og enga katalónsku. Á endanum skildist okkur (á spænsku)að við þyrftum að fara á skrifstofu menntamála eða eitthvað slíkt og þar gætum við séð hvaða skólar væru lausir. Allt í lagi gerum það. Þar sagði konan okkur með hjálp annarar sem talaði smá ensku að við þyrftum fyrst að skrá okkur í landið og koma með ýmsa pappíra, fæðingavottorð, búsetuvottorð og sitthvað fleira. Allt í lagi við fáum fæðingavottorð send og finnum til alla pappírana..það er of langt mál að útskýra allt ferlið en það gekk ekki alveg eins og við höfðum séð fyrir okkur. Á skrifstofunni þar sem við skráðum okkur í landið afgreiddi okkur maður. Þegar hann uppgötvaði að við töluðum ekki spænsku og hann ekki ensku stressaðist hann allur upp, leit til samstarfskonu sinnar og sagði í gegnum samanbitnar varir.."talar einhver ensku hér" og klæddi sig svo úr jakkanum í fátinu. Þegar við höfðum þurft að koma tvisvar í viðbót á skrifstofuna vegna gagna sem vantaði þá var okkur nóg boðið og hringdum í íslenska konu sem ég kannast við. Hún var boðin og búin að aðstoða okkur og það er ekki hægt að líkja því saman hvernig hlutirnir gengu fyrir sig þegar hún var með í för...allt gekk smurt. Hún var svo almennileg að fara með okkur að hitta skólastjórann í skólanum og túlka fyrir okkur, sem var nú eiginlega eins gott því sú kona talaði mikið, útskýrði allt veeel og vandlega, hló, brosti og talaði með höndunum. Við værum sennilega enþá inni á skrifstofunni með frosið bros á vör og eins og spurningarmerki í framan ef hjálparhellan okkar hefði ekki komið okkur til bjargar.
Út í búð reynir stundum á spænsku(ó)kunnáttuna og hef ég oftar en ekki reynt að spyrja um eitthvað sem ég kann ekki að orða...Um daginn leitaði ég að muffinsformum og hélt einhvernveginn að það hlyti að
skiljast...ekki aldeilis! Muffins er semsagt ekki alþjóðlegt orð? Ég reyndi að mynda muffins með höndunum , hræra í deig, setja í ofninn en allt kom fyrir ekki. Ég endaði með því að fara aftur heim og fletti þessu upp..auðvitað magdalenas, það segir sig sjálft og mót eru ekki formas heldur moldas ahaaa si, vale,vale. í annað skipti reyndi ég að spyrja hvar kókosmjólkina væri að finna..Ég:tienes cocosleche? hún: Que? ég: uuhh coconut leche hún: uh (bendir mér á kaffi). Ég: no no (bendi á dósamat) og reyni að útskýra þetta enfrekar með látbragði . Hún var mjög hjálpleg og reyndi að giska en endaði svo á því að sækja annan starfsmann sem hún spurði. Ég var alveg viss um að mér yrði bent á hillurnar með kókómaltinu en vitið menn þau fundu út úr þessu og hvað við urðum glöð öllsömul þegar ég stóð loks með dósina í höndunum sem á stóð: "jugo de coco"!
Nú nýverið fór ég en eina ferðina út í búð og ætlaði meðal annars að kaupa sýrðan rjóma. Ég vissi hvernig dósin leit út en ég fann hana hvergi. Ég spurði því en og aftur..Ég: tienes crema fresa hún :uuh queso Ég: no crema...Hún giskaði og giskaði en ég hélt áfram að reyna að útskýra með litlum árangri...við hlógum að því hversu fáranlega erfitt þetta væri og hún stakk meðalannars upp á fetaosti, smurosti , ostasósu , rjóma, matarrjóma ogogogog...Ég endaði með því að fara með dós heim sem mér fannst líkleg en kom svo í ljós að innihaldið var eins og stór klumpur af fetaosti?? Síðar komst ég að því að þetta héti queso fresco..það tengdist þá osti eftir allt saman .
Í skólanum hennar Sölku er alveg það sama upp á teningnum og við brosum bara og kinkum kolli. Sem betur fer er banarísk kona með stelpuna sína í sama bekk og Salka og hún hefur getað túlkað fyrir okkur bréf frá skólanum og annað sem skiptir máli. Nýjasta dæmið átti sér stað á heilsugæslunni þegar Funi þurfti að fá bólusetningu. Til að gera langa sögu stutta þá talaði enginn ensku fyrir utan einn barnalækni sem er nú orðin barnalæknirinn okkar ; )
Annað sem getur valdið miskilningi. Þegar íbúar hér í borg hleypa manni fram fyrir sig eða benda manni að fara áfram þá segja þeir "passa passa" og gefa manni til kynna með bendingu að halda áfram. Þegar ég er að fara með Sölku yfir götu og bílarnir koma æðandi segi ég passa passa (til að koma í veg fyrir að hún arki af stað)...ég fékk undarlegt augnarráð frá konu um daginn ; )
Hvaða lærdóm má draga af þessum sögum?
Vera þolinmóður við útlendinga,undirbúa sig betur áður en maður fer út í búð og hreinlega læra spænsku..við látum katalónskuna alveg eiga sig.