laugardagur, 15. mars 2008

Pælingar

Salka er vön að velta lífinu og tilverunni fyrir sér daginn út og inn.

Nýverið hefur hún mikið verið að spá í því hvað maður sé gamall þegar maður fær barn í magann?? Það er reyndar ekki langt síðan að hún var harðákveðin að ætla sko ekki ætla að fá barn í magann en virðist vera komin yfir þá hugsun og gott betur en það.

Þegar Birna og co. voru í heimsókn um daginn spurði Salka þær mæðgur til dæmis : "Hvað verður Funi gamall þegar ég verð með barn í maganum"? Þær sögðu henni víst að spyrja mömmu sína þó mamma hennar Birnu hafi nú sagt einhvern aldur sem ég vona bara að hafi verið nógu fjarlægur til þess að þýða : Það er mjöög langt þangað til ; )

Við vorum svo á röltinu um daginn og Salka fer að fræða mig um aldur okkar Bjarka og í beinu framhaldi segir hún.."má ég þá vera með barn í maganum þegar ég verð 28 ára"? Jú, jú það hélt ég nú og þá er það ákveðið.

Annað sem henni er afar hugleikið þessa dagana er að langa að kaupa sér hest þegar hún verður stór.Fékk þessa flugu í höfuðið fyrir dálitlu síðan..sennilega þegar við fórum í sirkus. Hún veit að hann kostar marga, marga peninga og þess vegna setur hún alla peninga sem hún finnur í bauk. Kvöld eitt var hún að ræða þessi hestamál og datt þá í hug að það gæti kanski verið sniðugt að fá sér hest þegar hún yrði 28 ára en hætti svo við það plan með þeim orðum að það væri kanski svolítið skrítið að eiga hest og vera með barn í maganum um leið! "Hesturinn kemur þá bara á undan" sagði hún afar hugsi.

Salka á það líka til að taka skemmtilega til orða.

Einn laugardag fékk Salka að velja sér eitthvað gotterí..hún var búin að ákveða einhverjar snakkkúlur sem hún hafði séð í búð fyrir löngu. Þegar kom svo að því að borða þær sagði hún..ég ætla sko ekki að klára þær..amma og afi verða auðvitað líka að fá, þau vilja örugglega gjarnan smakka svona snakk.
Gjarnan er orð sem er mikið notað þessa dagana.

Um daginn fann Bjarki Ávaxtakörfuna til að hlusta á í flakkaranum, mér til lítillar gleði þar sem ég hafði reynt eins mikið og ég gat að halda þessum diski í algjöru lágmarki...þetta var reyndar eldri útgáfan og svei mér ef hún er ekki bara skárri. Ég gat allavegana vel hlustað á hana..kanski er ég bara orðin svona ótrúlega umburðarlynd ?;)
Salka : "Mamma veistu hver er besti vinur minn í ávaxtakörfunni" ? Ég :"Nei hver"?
Salka: Immi ananas!
Ég :"Nú, er hann ekki alltaf eitthvað með stæla og að skilja út undan"?
Salka : Nei, sko hann er bara reiður af því að það nennir enginn að taka til í ávaxtakörfunni. Ég myndi gjarnan vilja vera í ávaxtakörfunni og taka til ...því ég er svo góð í því! Sagði þetta svo einlægt með mikilli áherslu á gjarnan.

Amma Ásbjörg sat svo úti á svölum og var að reyna að kenna Sölku fuglafit. Þegar amman reyndi að rifja upp næsta fit án árangurs spurði Salka: "amma sérðu það ekki í huganum þínum"?
Amma: "hmm?" Salka : "já ertu ekki með myndahuga"?
Salka er semsagt með mjög myndrænan huga og sér svo margt fyrir sér. Þegar við fluttum hingað sagði hún einmitt að það væri allt í lagi vegna þess að hún sæi alla í huganum sínum.

Annan dag (kvöld) var amma svo að lesa nýja bók sem hún hafði gefið Sölku. Bókin var frekar löng...svona bók sem maður myndi ef til vill skipta í tvennt en eins og góðri ömmu sæmir þá las hún hana alla. Undir lokin var hún reyndar farin að dotta en las samt áfram án þess að vera mikið að fylgjast með. Salka byrjar þá að spyrja eitthvað út í söguna eins og hún er svo gjörn að gera. "Amma..eru dvergarnir vinir, af því að þeir eru sko báðir vondir eru þeir þá ekki bara vinir ha"? Amman segir henni að hún viti það nú ekki alveg vegna þess að hún hafi aldrei þessa bók áður. Salka kunni nú ráð við því. "Sko, amma ef þú gefur mér bók aftur þá bara ferðu beint með hana heim, opnar hana og lest hana fyrir afa og þá veistu alveg um hvað hún er þegar þú lest hana fyrir mig". Hafðu það þá ;)

Þeir sem eiga von á að hitta Sölku á næstunni ættu því að muna að koma vel undirbúnir.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Hvað er þetta hvíta, kallinn er að... kríta?



Við vorum að borða kvöldmat um daginn þegar við fórum að segja Sölku frá þessum gömlu klassísku (óþolandi;) frösum sem allir ættu að kannast við. Þar sem að hún er ekki í íslenskum leikskóla eins og er veitir henni ekkert af því að fá smá undirbúning af því sem koma skal..hvað er'etta græna kallinn er að spræna, á ég að segja þér eitt..það var ekki neitt..á ég að segja þér annað? Það er alveg bannað, á ég að segja þér brandara?.. keyptu þér standara eða brjóstahaldara (eins og það rími eitthvað ;) Hvað ert að glápa eins og eldgömul sápa farðu inn í skápa og kysstu stráka og fleira gullið féll af vörum okkar þennan matartímann auk nokkurra velvalinna frasa sem Salka bjó til á staðnum til að vera með. Þegar koma að þessu hvíta þá ákváðum við bara að kallinn væri að kríta..ekki það að hún komist ekki að því einhvern daginn en það verður allavega ekki frá okkur ;)

Annan dag rifjaði ég upp gamla leiki eins og frúnna í Hamborg og nærbuxurnar hans afa. Er ég nokkuð ein um það að kannast við leikinn nærbuxurnar hans afa þar sem einn sér um að spyrja en hinn svarar öllum spurningunum með:"nærbuxurnar hans afa" og það er bannað að hlæja. Bjarki kannaðist allavega ekkert við þetta og varð hálf undarlegur þegar ég tók mig til við að kenna Sölku þennan leik. Það er samt ekki annað hægt en að taka fullan þátt þegar grínið er byrjað..."má ég spyrja núna"? Bjarki : "Salka í hverju ætlar þú að fara í skólann á morgun?" Salka grafalvarleg : "nærbuxunum hans afa" Bjarki : Nú já okei en í sund? Salka þurfti að hafa sig alla fram við að brosa ekki: "Nærbuxunum hans afa" Bjarki : "Jahá en hvað finnst þér best að setja út á hafragrautinn"? Salka skellihlæjandi : "nærbuxurnar hans afa"...bahahaha! Ég mæli með þessum. Alveg fullkominn fyrir þá sem eru með piss og kúkahúmorinn í lagi.

Salka bjó svo til leikinn: "Hvað myndir þú gera" eða "hvað á að gera"? T.d. hvað myndir þú gera ef þú hittir eldspúandi dreka? Salka: "Já ,ég myndi taka langt prik og pota því í augað á honum og svo myndi ég hella fullri fötu af vatni upp í hann og þá gæti hann aldrei blásið eldi aftur"! En hvað myndir þú gera ef þú værir að labba úti í skógi og hittir tígrisdýr? Salka: "Ég myndi finna langt prik (hvað er málið með prikin)og pota því í augað á tígrisdýrinu og hlaupa burtu"...jæks! Hún breytti því svo reyndar og sagði að hún myndi finna prik og kasta því langt í burtu, þá hlypi tígrisdýrið á eftir því og hún kæmist undan á meðan. Aðeins mannúðlegra. Salka fór svo út í miklar útskýringar á því hvað hún myndi gera eða hvað ætti að gera við hinar ólíklegustu aðstæður.

Hvað myndir þú gera?

Hér eru annars mættir góðir gestir. Foreldrar hans Bjarka komu í gær við mikinn fögnuð viðstaddra. Það var búin að vera mikill spenningur fyrir komu þeirra en sérstaklega var Salka þó spennt fyrir hönd pabba síns af því þetta eru sko mamma hans og pabbi og hún sagði öllum sem heyra vildu hvað pabbi sinn væri spenntur fyrir komu foreldra sinna. En ert þú ekki spennt? "Júhú, því þetta eru auðvitað amma mín og afi ";)

Það voru bara jól þegar hjónin tóku hvern glaðninginn á fætur öðrum upp úr töskunum. Það voru pulsur og pulsubrauð (ósk frá Sölku), páskaegg, konfekt, íslenskt nammi, bækur, Merrild kaffi (frá mömmu;), pils frá ömmu og afa og kjóll frá ömmu Kolfinnu sem Salka er nú þegar búin að skipta niður á daga (þar sem hún er kjóla og pilsasjúk þessa dagana en hún sættist með semingi á buxur þriðja hvern dag) og fleira skemmtilegt sem vakti mikla lukku. Þegar Salka opnaði pakka frá ömmu sinni og afa hrópaði hún: "Einmitt það sem ég óskaði mér"!..Áður en hún vissi nokkuð um innihaldið ;)

Í næstu viku bætist svo en frekar í hópinn..Partý!!

fimmtudagur, 6. mars 2008

"Don't do it"!

Ég sá þessa konu niðri í bæ um daginn. Hún hélt á máli sem hún otaði framan í hvern þann sem gekk framhjá í von um aur. Fín frú stoppaði og gaf konunni smápening í málið sitt og hélt svo sína leið. Nokkru síðar heyrði ég síma hringja..leit í kringum mig, getur það verið? Ég leit í átt að þeirri gömlu og sá hana taka upp farsíma."Halló" sagði hún þá.
Hún hefur kanski verið að safna sér fyrir inneign?!

Það sem ég ætlaði annars að segja....Það ætti að vera orðið vel þekkt að það er mikið um tösku, myndavéla og vasaþjófa í Barcelona. En það er líka til önnur tegund af þjófum eða svindlurum hér. Þessir eru ótrúlega kræfir, koma sér fyrir neðarlega á Römblunni í mannmergðinni með þrjú mót og hnetu eða eitthvað lítið undir einu mótinu ( þið hafið örugglega séð svona "leik"). Svo bjóða þeir fólki að giska undir hvaða móti hnetuna er að finna og auðvitað leggja pening undir. Þau eru nokkur saman, karlar og konur sem leika þá sem leggja undir og vinna auðvitað fullt af pening..helljarinnar leikrit sett í gang og talað hátt og skýrt á ensku fyrir túristana.."Yes you win my friend!" segja þeir og rétta hinum leikaranum seðla svo allir sjá vel. Allt saman mjög ýkt og manni finnst eiginlega ótrúlegt að einhver falli fyrir þessu. Það eru samt alltaf einhverjir sem sjá ekki í gegnum þetta.
Í eitt skiptið urðum við vitni af því þegar eldri maður var bókstaflega rændur beint fyrir framan nefið á okkur og fleirum. Fólkið (sem var með í svindlinu) gjammaði hvert í kapp við annað og hvatti manninn til að leggja undir. Hann vissi nú ekki alveg hvað var að gerast en tók upp einhverja seðla, ein konan úr hópnum stóð svo ofan á fætinum á honum svona til þess að sýna mótið sem hann hefði valið á meðan annar maður krafðist þess að fá meiri pening..."I dont have any more", sagði aumingjans maðurinn en þau hættu ekki og sögðust hafa séð meiri pening á honum. Þegar þau höfðu tekið nokkra seðla í viðbót, kom fát á þau eins og þau hefðu komið auga á lögguna (þau gera það alltaf til þess að komast auðveldar undan með peningana) og þau tvístruðust sitt í hvora áttina. Eftir stóð maðurinn alveg ringlaður. Ég fann svo til með honum og var svo sjúklega reið að ég hét því að ef ég sæji svonalagað aftur þá myndi ég skipta mér af því...ekki gott plan myndu eflaust einhverjir segja en ég ætlaði bara samt að gera það! Nokkru síðar sá ég svindlarana aftur á kafi í leikrænum tilburðum og ég fylgdist með. Bjarki og krakkarnir fóru að horfa á sirkusatriði rétt hjá á meðan. Þarna komu bresk hjón sem veltu fyrir sér að taka þátt í leiknum.."he wants your money honey " sagði eiginmaðurinn við konu sína ...Þá greip ég inn í , don't do it ...its a skam! "Oh no honey dont do it" sagði maðurinn við konu sína og þau héldu á brott. Jess, mér leið strax betur. Annar maður var í þann mund að verða fyrir barðinu á svikurunum..dont do it sagði ég við hann en komst ekki lengra þar sem einn leikarinn kom mjög ógnandi allt of nálægt mér og bölvaði mér í sand og ösku. Það eina sem ég hugsaði var..hann getur ekkert gert ,við erum hérna á Römblunni með milljón vitni! Ég "bjargaði" allavega tveimur. Hjartað mitt sló aðeins (mjög mikið) örar og ég þorði ekki annað en að hverfa (fela mig) í mannfjöldanum sem horfði á sirkusatriðið, fór alveg fremst, beygði mig niður í Sölku hæð og þóttist vera mjög ákafur áhorfandi.

"Er hann farinn"?..spurði ég Bjarka..."já þau eru farinn" sagði hann hlæjandi "og þú ert rugluð"!

Já, ég geri mitt besta.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Mánudagsskrúðganga?









Mars komin og helgin og gestirnir farnir.
Helgin var frekar viðburðarrík og innihélt ýmislegt...meðal annars þetta:

Þrjár kynslóðir fyrirmyndargesta, frænkur tvær sem voru glaðar að hitta hvora aðra en stundum varð spennan líka svo mikil að allt fór í klessu ;), gott veður, róló (auðvitað), sól, súkkulaðiköku alla leið frá Íslandi, flúorlýst þorrablót sem byrjaði skringilega en endaði vel, rölti um bæinn í dásamlegu veðri, teglösum, ferð á antikmarkað sem innihélt góð kaup að mínu mati (meira um það síðar), spjall, pínulíð ítalskt veitingahús þar sem Funi gekk á milli borða og heilsaði öllum að spænskum sið, maturinn smakkaðist frábærlega og tónlistin setti punktinn yfir i-ið, kertaljós, huggulegheit og fleira og fleira.

Á mánudaginn fékk Salka að vera í fríi í skólanum til að eyða síðasta deginum með Emilíu.

Á meðan Birna og Svanlaug röltu í búðir bökuðum við hinar stelpurnar muffins, hlustuðum á tónlist, dönsuðum og fórum á róló en það sem stóð kanski hæst var skrúðgangan (finnst ykkur þið hafa lesið þetta áður?) já skrúðgangan sem var haldin til heiðurs dýrlingi sem ég kann því miður ekki nafnið á. Í gamla daga fór fólk víst á hestum upp að kirkju og heiðraði þennan dýrling og gaf eða henti einhverjum glaðningi (þetta er örugglega kolrangt farið með en eitthvað var það tengt hestum). Í seinni tíð hefur þetta svo þróast í það að vera hálfgerð nammihátíð... hestar, hestvagnar og lúðrasveit og fullt fullt af nammi hent til áhorfenda. Við vorum uppi á svölum hjá okkur þegar við heyrðum tónlist og trumbuslátt koma og fara. Við héldum að við værum búnar að missa af skrúðgöngunni en ég stakk upp á að við færum út og athuguðum hvort við finndum eitthvað nammi sem hefði verið dreift um göturnar. Emilíu datt í hug að taka með poka fyrir nammið ...ég hélt að það væri óþarfi, minnug konungaskrúðgöngunni þar sem við náðum aðeins þremur molum en tók hann samt með.
Þegar við komum hlaupandi út um dyrnar kom einmitt önnur skrúðganga sem við eltum. Við skulum bara segja að Emilía hafi haft rétt fyrir sér með pokann. Stelpurnar hlupu hlæjandi um og týndu upp nammið sem fólkið í hestvögnunum lét rigna yfir okkur og alla hina sem fyldust með og ef við veifuðum eða náðum augnsambandi þá fengum við stundum heilu pokana af brjóstsykri og gotteríi!!

Það var svo fyndið að fylgjast með þessu, fólk á öllum aldri að beygja sig eftir góðgæti, búðarfólkið sópaði namminu inn til sín og hin ýmsu áhöld til söfnunar sáust hjá fólki, fötur,veski, fægiskóflur,regnhlíf á hvolfi og auðvitað allir pokarnir.
Við hálffylltum innkaupapoka aðallega upp á stemmninguna þar sem við sjáum varla fram á að geta borðað þetta allt saman. Stelpunum var líka farið að finnast þetta alveg nóg nammi en það var bara svo gaman að hlaupa og tína. Á leið okkar til baka mættum við svo örugglega fjórum skrúðgöngum til viðbótar og þar af leiðandi fullt af nammi og enduðum svo á því að skemmta okkur yfir lúðrasveit sem spilaði beint fyrir utan andyrið okkar. Þegar heim var komið sturtuðum við öllu namminu á gólfið og stelpurnar fengu að synda um og smakka smá. Síðan var pokinn lagður til hliðar og við gleymdum meira að segja að skipta innihaldinu á milli þeirra...ég hef samt minnstar áhyggjur af því að það verði ekki nóg til þegar Emilía og fjölskylda kíkja aftur á okkur eftir 2 mánuði ;)

Mér finnst að 'Islendingar mættu fara að grafa upp fæðingardaga frægra skálda og fyrirmenna og halda upp á þá með pompi og prakt, pulsupartýi, nammi, lúðrasveit og látum!...Það er fátt sem lífgar eins upp á mánudag og góð skrúðganga.

Velheppnuð helgi að baki og fleiri gestir væntanlegir á mánudaginn en þá heiðra foreldrar Bjarka okkur með nærveru sinni.