miðvikudagur, 30. janúar 2008

Það var skrýtið


Á mánudaginn sat Bjarki úti á palli og drakk kaffi, þegar hann sá allt í einu eitthvað hreyfast út undan sér. Hvað var þetta? Hann leit til hliðar og sá sér til mikillar furðu, pínulitla eðlu skríða á veggnum neðst við pallinn. Hún trítlaði þarna meðfram , skaust aðeins inn á pallinn og lét sig svo hverfa undir fjalirnar þegar hún varð vör við mannveruna.
Ég lýg því ekki að það fór aðeins um mig þegar Bjarki sagði mér frá skriðdýrinu en við reynum að telja okkur trú um að hún sé logandi hrædd við mannverur og láti ekki sjá sig í bráð. Ég held samt að hún hafi verið frekar krúttleg og ég hefði viljað ná henni á mynd en ég er aðallega að hugsa um að Funi nái ekki í skottið á henni. Mér finnst reyndar mjög undarlegt hvernig hún birtist á pallinum okkar þar sem við búum á 6. hæð! Þetta er kanski eitthvert köngulóarkyn?

Ég sótti Sölku í skólann í gær og spurði hana út í sundtímann sem hún hafði farið í um morguninn. Jú, jú það hafði verið alveg frábærlega gaman að hennar sögn og hún var bara leið í hjartanu sínu þegar hún þurfti að fara upp úr hlýju lauginni . Hún fór semsagt í fyrsta sundtímann sinn í síðustu viku og var alveg svakalega spennt. Hún varð fyrir miklum vonbrigðum..sérstaklega vegna þess að kennarinn hennar hún Vanessa fór ekki ofan í laugina, heldur beið bara inni í fataklefa. Salka kom heim alveg harðákveðin í því að fara ekki í sund aftur..jafnákveðin og hún var að fara í sund þá um morguninn. Allt kom fyrir ekki og þrátt fyrir mikinn sannfæringarkraft og loforð um að hún muni sko aldrei biðja um að fara í sund aftur, sögðum við grimmu foreldrar henni að hún þyrfti "bara "að fara 10 sinnum í viðbót. Það fannst henni ekki svo mikið..bara allir fingurnir og svo búið.
Annar sundtíminn gekk miklu betur. Ég spurði Sölku hvort að sundkennarinn hefði verið maður eða kona. "Uuu, maður" sagði Salka hugsi, "hann var með brjóst" bætti hún við og leit á mig. Ég : "Já bringu meinaru"...Salka : "Nei hann var með brjóst, þannig að þetta var þá örugglega bara kona"?! Ég þurfti að hafa mig alla við til þess að grenja ekki úr hlátri en náði í staðin að láta þetta samtal hljóma mjög eðlilega..það var líka hvernig hún sagði þetta alveg frá hjartanu.

Ég væri nú alveg til í að sjá þennan sundkennara.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Fluga á vegg


Þegar ég er orðin vön því að skilja lítið sem fer fram í kringum mig tungumálalega séð, verð ég svo yfirmáta glöð þegar ég heyri einhvern tala ensku..svo glöð að ég fer að hlera, bara alveg ósjálfrátt.

Stuttu eftir komu okkar í borgina gengum við á eftir tveimur vinum sem spjölluðu saman. Við heyrðum þá tala ensku sín á milli og þögðum því "óvart" dálitla stund til að heyra hvað þeim fór á milli. Þeir virtust vera í mjög djúpum samræðum um ástarmál annars þeirra.
"Hvernig gengur með x"? .."Ekki vel"..."mér finnst þú alltaf segja að það gangi ekki vel."..Þetta á eftir að enda með tárum".."hvað vill hún gera"?.."en hvað villt þú"?
Ég var svo undrandi að heyra karlmenn tala svona opinskátt um tilfinningar sínar við hvorn annan og það um hábjartan dag! Mjög einlægt og fallegt verð ég að segja...kanski gera þeir það bara alltaf en þegar kærusturnar spyrja frétta yppa þeir bara öxlum og þykjast hafa verið að spila fótbolta, tölvuleik eða eitthvað þaðan af verra ; )...enda ekki við hæfi að kjafta frá einkamálum vinar!?

Meðal annara samtala sem mér hafa borist til eyrna er samtal tveggja manna í Metróinu um Guð og hvernig hann hafi bjargað lífi þeirra, stelpur sem ræddu hversu mikils maður yrði vísari á því að dveljast erlendis og ungur maður sem bjó í foreldrahúsum ræddi hversu hvimleitt það væri að sofa í herbergi með glerveg..ekki rúðugleri en samt glervegg.

Já þetta eru sannarlega áhugaverð samtöl og ég get ekki beðið eftir því að læra meiri spænsku til þess að komast að því hvað þeir ræða sín á milli spánverjarnir..að sjálfsögðu alveg óvart og ósjálfrátt.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Ný mamma?

Þegar ég spurði kennarann hennar Sölku hvort það væri í lagi að hún væri bara hálfan daginn leist henni ekkert á það ..sagði að það yrði verra fyrir aðlögunina og rétti mér svo lista yfir bækur sem ég þyrfti að kaupa. Mér þótti það heldur súrt að vera sagt hversu lengi ég mætti hafa barnið mitt í skóla á þessum aldri en tók því nú samt þegjandi og hljóðalaust enda ekki farin að geta tjáð mig nóg til þess að geta mótmælt á sannfærandi hátt.

Dag einn fór Bjarki því í leiðangur að finna bækurnar sem vantaði en það gekk þó ekki betur en svo að þær voru allar uppseldar nema ensku bókin sem hann keypti. Hann fékk þó nafn á annari búð þar sem bækurnar var hugsanlega að finna og kom svo heim með nýju bókina .
Það vildi svo skemmtilega til að með bókinni fylgdi diskur með lögum á ensku. Lögum sem kenna tölurnar litina, líkamsparta og fleira skemmtilegt. Diskurinn sló heldur betur í gegn og eitt vinsælasta lagið þessa dagana er : "Do you like spiders?.. Yes i do "! Lagið heitir það nú reyndar ekkert en brot úr textanum er á þessa leið og þá er sungið hástöfum með.

Þegar Salk
a kom svo úr skólanum í gær var hún heldur betur ánægð (eins og reyndar alltaf þegar hún kemur úr skólanum) en hún sagði mér að það hefði sko verið ótrúlega gaman! Það var annar kennari og það var bara allt í lagi ,hún var að kenna þeim ensku og var svakalega ánægð að sjá að Salka væri með bókina, af því að Salka hafði jú bara verið með ljósrit hingað til. Til þess að sannfæra mig en frekar um ágæti þessarar konu sagði hún : "Já hún var alveg ótrúlega skemmtileg...eiginlega bara skemmtilegasta kona í heiminum"! Eins og það væri ekki nóg þá bætti hún við: "Ég myndi eiginlega bara óska að hún væri mamma mín!"

Ha!..Ég neita að trúa því að dóttir mín myndi vilja skipta mér út bara si svona fyrir spænskan enskukennara...eða hvað???


mánudagur, 21. janúar 2008

"Svona á lífið að vera!"

Helgin var ljúf.
Hvað er betra en að geta verið úti undir berum himni í 18 stiga hita í janúar?




Koma við á markaðnum, gleðja augað og bragðlaukana í leiðinni, fara í garða, sitja undir tré, borða samloku og sötra bjór, leika sér, róla, renna, villast í alvöru völundarhúsi eins og Lísa í undralandi, fylgjast með litlu apaköttunum leika sér, liggja í grasinu og láta sólina hita sér í framan, taka myndir, skoða mannlífið og slaaka á...

Eða eins og Salka sagði þegar við sátum með nesti í grasinu aðeins nokkur skref frá róluvellinum : "Svona á lífið að vera!"... Ég gæti ekki verið meira sammála. ; )

Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér gistingu og skemmtun í leiðinni...komiði bara, það er gaman!
Salka fer í skólasund á morgun..það gæti orðið áhugavert.

sunnudagur, 20. janúar 2008

Baneitrað!!

Ég á oft leið framhjá hinum ýmsu blómabúðum með óteljandi ofurfögrum blómum í öllum regnboganslitum.
Dag einn fyrir jól ákvað ég að láta það eftir mér að kaupa eina plöntu sem ég hafði dáðst svo mikið af..með grænum blöðum og litlum tómötum á hverri grein.
Ég og gekk inn í búðina..

Við mér blasti heldur þreytuleg afgreiðslukona með rettu í munnvikinu.

Ég: "Já ég ætla að fá svona tómatablóm".

Hún: Saug reykinn djúpt að sér.."Þetta er sko ekki tómataplanta.. þú mátt alls ekki borða hana þetta er sko baneitrað"!!.

Ég : "Nei ég veit" og rétti henni seðilinn.

Hún: Blés frá sér þykku reykskýi..."Baneitrað segi ég , þú lofar því að borða hana ekki!".

Ég : "Já ég lofa því" sagði ég um leið og ég gekk út alsæl með baneitraða "tómatplöntuna".

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Snilldarpælari,húmoristi,labbakútur og dillibossi!

Ég fékk smá samviskubit yfir að hafa varla sagt fréttir af smáfólkinu.
Nú verða semsagt sagðar fréttir af börnum...ekki bara einhverjum heldur mínum (jú og Bjarka ;)

Salka:
Er ótrúlegur pælari. Hún tekur eftir öllu í kringum sig og minnir oft á einna helst á rassálf..akkuru,akkuru,akkuru?? Ég held að þetta sé ekki aldurstengt því hún hefur verið svona frá því að hún byrjaði að tala í setningum.

Hún vill fá að vita allt um hlutina sérstaklega ef einhver meiðir sig eða eitthvað álíka "spennandi". Henni finnst endalaust gaman að heyra reynslusögur og sjúkrasögur af okkur Bjarka og fleirum. Hún talar til dæmis enþá um Hinrik sem sagaði í puttann sinn (nemandi í skólanum þar sem ég kenndi). Hvað hana dreymdi um að fá að hitta hann, sjá myndir af honum og heimsækja hann...Og hvernig gerði hann?..og hvað gerðu krakkarnir þá?..og hvað sagðir þú?.. og hvað sagði hann þá?..fór hann að gráta?..var mikið blóð?..stór plástur?Hún þarf að fá allar upplýsingar til þess að geta séð þetta ljóslifandi fyrir sér.

Hefur aldrei verið sérstaklega mikið fyrir mat og borðar aðeins ef brýn nauðsyn krefur.

Sölku finnst ekkert sérstaklega gaman í skólanum á Spáni (sérstaklega eftir langt jólafrí) en lætur sig hafa það og er alltaf rosa glöð þegar við komum að sækja hana og þá kjaftar á henni hver tuska. Hvaða krakki nennir svo sem að sitja við borð lungað úr deginum, gera verkefni, læra skrautskrift og skilja takmarkað það sem fer fram. Henni finnst skemmtilegast í nestistímunum og þegar einhver á afmæli! Við viljum auðvitað að hún hitti jafnaldra sína og læri tungumálið um leið en erum að athuga hvort hún geti ekki verið hálfan daginn.

Fékk þrisvar sinnum kartöflu í skóinn sem er mjög ólíkt henni en við kennum álaginu við allar breytingarnar um. Það er heldur ekkert gaman af of stilltum krökkum ..þá væru líklega engar bækur til eftir Astrid Lindgren.

Sölku dreymir um að eignast hund en mundi alveg sætta sig við kisu. Hún segist hugsa mikið um það áður en hún fer að sofa. Salka: "Allir hundar og kisur brosa til mín og veistu hvað þau eru að meina með því"?.."Þau eru að meina að þau vilji eiga mig og eiga heima hjá mér"!

Sefur ótrúlega fast...eins og ég.

Heyrir sko alveg munin á ensku og spænsku. Salka :"Þessi stelpa er að tala ensku" Ég: "nú, hvernig veistu"? Salka: "ég bara heyri það"...uuu já auðvitað

Var boðin í heimsókn til einnar bekkjasystur sinnar sem er frá Bandaríkjunum..það var gaman og við stefnum á að bjóða henni heim móti.

Elskar að klæðast flísgallanum hans Funa og tók tímabil þar sem hún fór í hann á hverjum degi eftir leikskóla.

Finnst gaman að teikna og föndra.

Er dugleg að skíra bangsana sína og dúkkurnar og stundum steinana og annað sem hún finnur. Mjaltalá, Krolta, Múli, Ingó Pingó, Geltarelli og Faxi Baxi eru nú þegar orðin klassík auk nokkurra hefðbundnari í bland.

Salka er sniðugur krakki (finnst okkur) og kemur með ódauðleg gullkorn og spekúleringar á færibandi. Ég hef engan veginn undan að skrifa það hjá mér sem er synd.

Núna talar hún stundum svolítið hátíðlega og reynir að nota ný orð og orðatiltæki óspart.Ég var til dæmis að gefa Funa að borða um daginn og sagði : "Jæja nú er Funi að verða búinn að borða".
Salka : "þá kárnar nú gamanið"! Hún vissi kanski ekki nákvæmlega hvað það þýddi en það var nokkuð til í því...Funa finnst ekki gaman þegar matartímanum lýkur og verður þá leiður og stundum líka reiður.

Um daginn sat Funi í dótakassanum og hristi hristu. Salka : "Mamma sjáðu hann spilar á eigin spýtur og freistar gæfunnar"!

Dag einn var Salka að leika úti á palli en kom svo inn og sagði "Ekkert að óttast, ég er komin inn" ..svona ef við skildum hafa haft áhyggjur.

Á jóladag gengum við niður götu þar sem fáir voru á ferli. Salka: "Mamma það virðist allt svo hljótt hérna".

Stundum getur maður líka ruglast. Salka : "Mamma verð ég unglingur ef ég held svona á gaflinum"? Var að meina örvhent.

Salka: "Mamma viltu kenna Björmu að skipta um skoðun"? Var að meina skipta um stöð en ég meina það er ekki svo mikill munur.

Salka er snör í snúningum og mér finnst hún hún ótrúlega fljót að hlaupa.

Getur alveg gleymt sér í "fjársjóðsleit"..týna steina skeljar og annað "gull" sem hún finnur í kringum sig

Funi:

Eeelskar að borða..þú skalt ekki reyna að borða fyrir framan þetta barn án þess að bjóða honum með. Matur er grafalvarlegt mál.

Finnst ótrúlega gaman að skoða bækur en er jafnframt mikill bókaböðull. Honum hefur nú þegar tekist að gera nokkrar harðspjaldabækur að einblöðungum. Þegar við lesum fyrir hann fylgist hann með af miklum áhuga og hefur alltaf gert, situr alveg kjurr fyrir utan það að reyna stundum að hjálpa til við að fletta.

Um jólin uppgötvaði hann enn eina af dásemdum lífsins...mandarínur. Þegar við minnunst á eina slíka hrópar hann upp yfir sig... mandaaa!!!

Hann borðar nánast allt...meira að segja sítrónu. Við ætluðum að stríða honum en féllum á eigin bragði þegar hann borðaði sítrónusneiðina með bestu lyst..þó með súrum geiflum okkur til mikillar gleði.

Fyrir utan að borða veit Funi fátt skemmtilegra en að dansa! Hann má ekki heyra bút úr lagi , takt eða eitthvað sem líkist lagi án þess að dilla sér við..be
ygir sig í hnjánum og sveiflar eða "dillar"höndunum ofur krúttlega með. Meðal þess sem Funi hefur dillað sér við síðustu daga er : Pískurinn þegar amma var að þeyta rjóma og hjartalínurit í læknaþætti auk fjölda annara takta, hljóða og laga.
Sefur ótrúlega laust...eins og pabbi sinn.

Þegar Funi er á staðnum þá fer það yfirleitt ekki framhjá nokkrum manni...hann gæti flokkast undir fyrirferðarmikið barn sem finnst gaman að láta í sér heyra. Hann er líka mikill áhugamaður um hljóð og hermir óspart eftir hljóðum í kringum sig.

Þrátt fyrir að vera frekar fyrirferðamikill gaur sem elskar hávaða og læti á hann líka sínar ofurmjúku hliðar. Hann smellir kossum í allar áttir eftir pöntunum og splæsir oft í knús með.

Funi ákvað loks að læra að labba að vel hugsuðu
máli...ekkert að ana út í hlutina. Það er heillangt síðan hann tók fyrstu skrefin en við fengum hann ekki til þess að labba bara af stað. um nokkurt skeið virtist hann ætla að ganga eins og barn sem hefur verið alið upp hjá úlfum...labbaði en studdi sig með höndunum í gólfið.

Það var svo um daginn að ég kom að honum inn í stofu vera að æfa sig í einrúmi...rölti í rólegheitunum stofuna þvera og endilanga með dót í hendinni sem hann lét detta í tíma og ótíma til að æfa sig svo að beygja sig eftir því. Þegar hann varð var við mig skellti hann sér á hnén aftur og æddi til mín á fjórum fótum ..eins og þetta væri algjört leyndarmál!

Nú labbar hann um allt og veit fátt eins skemmtilegt...við erum ekki frá því að hann hafi róast við það að öðlast þetta aukna sjálfstæði .
Er mjög mikið fyrir booolta og leggur mikið á sig til að ná einum slíkum ef hann er í augsýn. Eins eru hin ýmsu farartæki vinsæl..sérstaklega ef það eru læti í þeim og hundar og dúfur sem hann eltir ef hann fær tækifæri til þess.

Funi kann einstaklega vel við sig úti undir berum himni og vill helst alltaf vera úti á palli, róló eða hvar sem úti er að finna...helst vill hann samt fá að vera frjáls og ekki bundin við kerruna. Hann getur til dæmis dundað sér heillengi úti á palli við það að endurraða steinum, hræra með skóflunni í blómapottunum, fylgjast með vinnumönnunum og stóra krananum eða líkja eftir hljóðum sem hann heyrir í umhverfinu.

Honum finnst tússlitir mjög spennandi og einstaklega gaman að teikna á blað ...eina vandamálið er að honum finnst þeir líka svo góðir á bragðið. Daginn sem hann ákvað að læra að labba kom hann röltandi með tússlit í hendinni..."gefa mömmu" mér fannst vissara að taka tússlitinn úr umferð en var samt í miðju kafi að gera eitthvað. Nokkru síðar heyrði ég Funa segja:"Vvvááááávááá" ,greinilega mjög ánægður með sig. Ég leit til að sjá hvað væri svona flott og sá mér til skelfingar að hann var búin tússa þessa fínu mynd á vegginn!!Ég þurfti reyndar að halda í mér til að springa ekki úr hlátri, hann var svo ótrúlega ánægður með þetta.

Hann er vanur að klifra upp á sófaborðið (mjög svo lágt sófaborð) og fá sér sæti þar en nú er það nýjasta að klifra upp á það og standa upp, labba alveg fram að brúninni, aftur til baka og setjast aftur niður..endurtekið eftir þörfum.

Okkur finnst hann duglegur að læra ný orð og finnst hann skilja okkur mjög vel...einnig er hann góður í að sýna með látbragði hvað hann vill hverju sinni....Eins og ég er nú hrædd við látbragðsleikara! ; )


Þar hafiði það!
Svona eru þau þessa dagana og miklu meira til.

laugardagur, 12. janúar 2008

Think pink

Síðan hefur fengið bleikt útlit um óákveðin tíma og í tilefni af því setti ég saman bleika seríu.




P.s. Fuuullt af nýjum myndum inn á apaköttum

fimmtudagur, 10. janúar 2008

"Habla usted ingles "? (talið þér ensku)

Þegar fólk ákveður að flytjast búferlum til annars lands er alveg sjálfsagt að það reyni að læra tungumál þessa tiltekna lands. Það gerist þó ekki á einni nóttu eða í okkar tilfelli þremur mánuðum.

Ég hef ítrekað lent í því að standa fyrir framan manneskju og hún talar við mig á spænsku (eða katalónsku) og ég skil nokkurn veginn hvað hún segir (eða ekki) en svo þegar ég ætla að svara þá kárnar nú gamanið..uuu uumm ehh..habla usted ingles? Spyr ég þá afsakandi..No er þá svarað blákalt, nánast án undantekninga. Ókei ..þá nota ég bara þau orð sem ég kann og hendurnar hmm vale..si.

Þegar við vorum að reyna að skrá Sölku í skóla hér í borg byrjuðum við í sakleysi okkar að þræða þá skóla sem voru nálægt okkur. Þar hittum við fyrir húsverði, kennara, skólastjóra og fleira fólk sem töluðu litla ensku og við auðvitað litla spænsku og enga katalónsku. Á endanum skildist okkur (á spænsku)að við þyrftum að fara á skrifstofu menntamála eða eitthvað slíkt og þar gætum við séð hvaða skólar væru lausir. Allt í lagi gerum það. Þar sagði konan okkur með hjálp annarar sem talaði smá ensku að við þyrftum fyrst að skrá okkur í landið og koma með ýmsa pappíra, fæðingavottorð, búsetuvottorð og sitthvað fleira. Allt í lagi við fáum fæðingavottorð send og finnum til alla pappírana..það er of langt mál að útskýra allt ferlið en það gekk ekki alveg eins og við höfðum séð fyrir okkur. Á skrifstofunni þar sem við skráðum okkur í landið afgreiddi okkur maður. Þegar hann uppgötvaði að við töluðum ekki spænsku og hann ekki ensku stressaðist hann allur upp, leit til samstarfskonu sinnar og sagði í gegnum samanbitnar varir.."talar einhver ensku hér" og klæddi sig svo úr jakkanum í fátinu. Þegar við höfðum þurft að koma tvisvar í viðbót á skrifstofuna vegna gagna sem vantaði þá var okkur nóg boðið og hringdum í íslenska konu sem ég kannast við. Hún var boðin og búin að aðstoða okkur og það er ekki hægt að líkja því saman hvernig hlutirnir gengu fyrir sig þegar hún var með í för...allt gekk smurt. Hún var svo almennileg að fara með okkur að hitta skólastjórann í skólanum og túlka fyrir okkur, sem var nú eiginlega eins gott því sú kona talaði mikið, útskýrði allt veeel og vandlega, hló, brosti og talaði með höndunum. Við værum sennilega enþá inni á skrifstofunni með frosið bros á vör og eins og spurningarmerki í framan ef hjálparhellan okkar hefði ekki komið okkur til bjargar.

Út í búð reynir stundum á spænsku(ó)kunnáttuna og hef ég oftar en ekki reynt að spyrja um eitthvað sem ég kann ekki að orða...Um daginn leitaði ég að muffinsformum og hélt einhvernveginn að það hlyti að skiljast...ekki aldeilis! Muffins er semsagt ekki alþjóðlegt orð? Ég reyndi að mynda muffins með höndunum , hræra í deig, setja í ofninn en allt kom fyrir ekki. Ég endaði með því að fara aftur heim og fletti þessu upp..auðvitað magdalenas, það segir sig sjálft og mót eru ekki formas heldur moldas ahaaa si, vale,vale. í annað skipti reyndi ég að spyrja hvar kókosmjólkina væri að finna..Ég:tienes cocosleche? hún: Que? ég: uuhh coconut leche hún: uh (bendir mér á kaffi). Ég: no no (bendi á dósamat) og reyni að útskýra þetta enfrekar með látbragði . Hún var mjög hjálpleg og reyndi að giska en endaði svo á því að sækja annan starfsmann sem hún spurði. Ég var alveg viss um að mér yrði bent á hillurnar með kókómaltinu en vitið menn þau fundu út úr þessu og hvað við urðum glöð öllsömul þegar ég stóð loks með dósina í höndunum sem á stóð: "jugo de coco"!

Nú nýverið fór ég en eina ferðina út í búð og ætlaði meðal annars að kaupa sýrðan rjóma. Ég vissi hvernig dósin leit út en ég fann hana hvergi. Ég spurði því en og aftur..Ég: tienes crema fresa hún :uuh queso Ég: no crema...Hún giskaði og giskaði en ég hélt áfram að reyna að útskýra með litlum árangri...við hlógum að því hversu fáranlega erfitt þetta væri og hún stakk meðalannars upp á fetaosti, smurosti , ostasósu , rjóma, matarrjóma ogogogog...Ég endaði með því að fara með dós heim sem mér fannst líkleg en kom svo í ljós að innihaldið var eins og stór klumpur af fetaosti?? Síðar komst ég að því að þetta héti queso fresco..það tengdist þá osti eftir allt saman .

Í skólanum hennar Sölku er alveg það sama upp á teningnum og við brosum bara og kinkum kolli. Sem betur fer er banarísk kona með stelpuna sína í sama bekk og Salka og hún hefur getað túlkað fyrir okkur bréf frá skólanum og annað sem skiptir máli. Nýjasta dæmið átti sér stað á heilsugæslunni þegar Funi þurfti að fá bólusetningu. Til að gera langa sögu stutta þá talaði enginn ensku fyrir utan einn barnalækni sem er nú orðin barnalæknirinn okkar ; )
Annað sem getur valdið miskilningi. Þegar íbúar hér í borg hleypa manni fram fyrir sig eða benda manni að fara áfram þá segja þeir "passa passa" og gefa manni til kynna með bendingu að halda áfram. Þegar ég er að fara með Sölku yfir götu og bílarnir koma æðandi segi ég passa passa (til að koma í veg fyrir að hún arki af stað)...ég fékk undarlegt augnarráð frá konu um daginn ; )

Hvaða lærdóm má draga af þessum sögum?

Vera þolinmóður við útlendinga,undirbúa sig betur áður en maður fer út í búð og hreinlega læra spænsku..við látum katalónskuna alveg eiga sig.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Upphaf og endir

2007 var gott ár og 2008 byrjar vel.

Eftir dýrindis máltíð að hætti okkar allra, Bjarki sá um aðalréttinn, mamma um forréttinn og ég eftirréttinn á gamlárskvöld... rækjukokteill, nautasteik með búrgúndísósu (fínna orð yfir rauðvínssósu) og öllu tilheyrandi og súkkulaðisúfflei með ís í eftirrétt, fórum við semsagt yfir til nágrannanna og gleyptum vínber á slaginu 12 og skoluðum því niður með cava. Við heyrðum reyndar ekki alveg þegar klukkan byrjaði að slá svo það var ekki akkúrat eitt vínber á hverju slagi en við náðum að klára þau á slaginu 12..það hlýtur að teljast með og árið verður okkur heilladrjúgt?. Fólk tekur þessa hefð annars mjög alvarlega og það eru alltaf einhverjir sem nánast kafna í öllum hamaganginum. Að loknu vínberjaátinu horfðum við á alla 4 flugeldana bjóða nýja árið velkomið...ég er ekki að ýkja! Ég var búin að spyrja spænskukennarann hvort það væri venjulega mikið um flugelda á gamlárskvöld og hann hélt það nú ; ) Ég reyndi hvað ég gat að finna stjörnuljós í bakaríinu? sem ég keypti þau í um daginn en afgreiðslukonan vildi ekkert kannast við það. Ég fór á nokkra staði í viðbót en enginn seldi stjörnuljós. Þetta voru því flugelda og stjörnuljósalaus áramót en þeim mun meira af vínberjum og cava !

Það var gaman að fagna nýju ári með fleirum en sjálfum okkur og við nutum góðs af einstakri gestrisni Roche hjónanna. Salka fékk að koma með í partý en sofnaði fljótlega og Funi svaf vært í sínu rúmi enda engir flugeldar til að raska ró þeirra. Michael er mikill áhugamaður um vín og þá sérstaklega eftirréttavín og leyfði okkur að smakka hinar ýmsu tegundir og auk þeirra virtist hann eiga allar tegundir af vínum..."hvað drekkur þú venjulega"? "Jamm ,gin og tonik minnsta mál...og þú, já hvítvín". Svo kynnti hann hvers kyns hvítvín þetta væri nú og passaði alltaf að allir væru með nóg í glösunum...hann er einmitt íri ef við ætlum að fara út í staðalímyndir ; ) Við spjölluðum frameftir um hitt og þetta og fólkið var til dæmis mjög hissa á skólanum hennar Sölku og fannst skóladagurinn skelfilega langur (6 klst.) "Af hverju valdiru þennan skóla"? Spurði ein konan. Ég vissi ekki að ég hefði mikið val auk þess sem mér finndist hann nú ekki alslæmur. Hún sagði mér jafnframt að hún vissi um góðan Waldorf leikskóla og ég er mjög spennt fyrir þeim kosti, ætla að athuga það betur. Ég ræddi ekkert hvað leikskóladagur sumra barna á Íslandi væri langur, ég er ekki viss um að þau hefðu skilning á því .Þau búa í sveitasælunni á Írlandi, hann er leirkerasmiður og hún sér um sölu og markaðssetningu. Ég held þau séu bara að gera það gott og selja leirvörur út um allt Írland og víðar. Börnin þeirra hafa kanski bara leikið lausum hala í sveitinni og hjálpað pabba sínum við leirkerasmíðina þess á milli og þar af leiðandi ekki þurft á leikskóla að halda.

Okkur Bjarka fannst ótækt að fara bara heim að sofa eftir heimsóknina og mamma var svo almennileg að passaði börnin á meðan við kíktum á hvað hverfið okkar hefði upp á að bjóða eftir miðnætti á gamlárskvöld. Það var nú heilmikið..allir staðir stappaðir en við fundum bar sem okkur leist vel á og sátum þar í góðu yfirlæti með freyðivín í boði hússins og þar sem ekki var hægt að panta léttvín þá pantaði Bjarki Manhattan handa mér og bjór handa sér? Við skiptum á sléttu. Þegar við höfðum skemmt okkur dágóða stund fórum við heim og borðum restar af eftirrétti og horfðum skaupið.

Mamma fór heim í fyrradag eftir tveggja vikna huggulega dvöl. Við brölluðum ýmislegt en ekkert mjög mikið túristalegt. Fórum í göngutúra og mömmu var meira að segja treystandi að fara ein út í göngutúr þegar á leið ; ) Í hnotskurn: kósí jól, 10 manna hádegisverðarboð, Næturvaktin, jólalög , góður matur, áhugaverð áramót, afslappelsi og sirkus.

Ég minntist á að vitringarnir kæmu með gjafirnar en mér datt ekki í hug hversu mikið væri lagt í það atriði. 5. janúar komu Konungarnir 3 þeir Melchior, Caspar og Balthasar með skipi að höfninni og þar tók fólksfjöldi á móti þeim ásamt borgarstjóra og fríðu föruneyti hans. Borgarstjórinn afhendir konungunum svo lykla af öllum húsum borgarinnar (til þess að þeir komist með gjafirnar á leiðarenda) og jafnframt gefur hann þeim salt og brauð til að sýna vinsemd og þakklæti borgarbúa. Konungarnir halda svo í skrúðgöngu ásamt fylgdarliði hver á sínum vagni um borgina. Þetta er ótrúlega sérstakur viðburður og nú í ár var áætlað að dreifa um 15 tonnum af sælgæti sem konungarnir eða aðallega fylgdarlið þeirra á allskyns litskrúðugum og fagurlega skreyttum vögnum dreifir yfir mannfjöldann. Götuljósin voru dempuð til þess að vagnarnir og öll ljósadýrðin fengi að njóta sín sem best. Með konungunum eru allskyns listamenn ásamt almenningi og sjálfboðaliðum sem hjálpa til við að gera skrúðgönguna ógleymanlega í augum áhorfenda. Rúmlega 1000 manns auk 21 dans og leiklistarskóla í Barcelona taka þátt.

Við létum okkur ekki vanta við höfnina og sáum konungana koma siglandi við mikla viðhöfn. Við röltum svo aðeins um bæinn og stilltum okkur síðan upp ásamt fjölda fólks til að bíða eftir að skrúðgangan liðaðist framhjá...þvílík sýning!!! Allskyns fígúrur, glimmer, bumbusláttur, hestar, álfar, arabar og alvöru kameldýr voru meðal þess sem fyrir augu bar! Það rigndi nammi og þeir sem stóðu fremstir voru sumir hverir með regnhlífar og poka til að safna í en aðrir eins og við létu sér nægja að grípa eitt og eitt eða tína upp úr götunni ; ) Sumir höfðu komið með stiga að heiman til að sjá sem best og mörg börn voru með bréf til konunganna sem innihéldu óskir þeirra...það voru hundruðir "konunglegra" póstburðarmanna sem tóku á móti bréfunum með loforði um að koma þeim í réttar hendur.

Þetta var alveg ótrúlega íburðarmikil og flott sýning og stemmingin alveg frábær..börn og fullorðnir veifuðu, klöppuðu og kölluðu til konunganna og allir reyndu sem mest þeir máttu að grípa þó ekki væri nema eina karamellu.. en helst fleiri. Salka var til dæmis ekkert sérstaklega sátt við að ná bara þremur molum og þegar skrúðgangan fór framhjá okkur aftur á leið okkar heim þá náðum við fleirum . Þá varð Salka glöð og þó að hún hafi ekki einu sinni borðað nema 2 þá gildir það einu...hún náði fleirum en 3! Að skrúðgöngunni lokinni áttu öll börn að fara snemma að sofa til að fá eitthvað fallegt frá konungunum 6. janúar.

Það væri ekki vitlaust að reyna að innleiða þessa hefð á Íslandi.. og sleppa kanski Coca cola lestinni á næsta ári?