sunnudagur, 2. nóvember 2008

Augnablik...


Ég er komin á nýja slóð þar sem ég er ekki lengur stödd í Bax...þú mátt kíkja við hjá mér

föstudagur, 19. september 2008

Hvert vorum við komin?



Alveg rétt við vorum leiðinni heim...
fyrir um það bil mánuði síðan!
Við komumst semsagt á leiðarenda og vorum ekki lengi að komast í íslenska taktinn sem er ívið hraðari en sá spænski ;)

Áður en við lögðum af stað úr löðrandi hitanum var ég (og við bæði) búin að vera svo sjúklega stressuð yfir öllu og engu. Pakka niður,taka til, senda kassa, gera allt sem við ætluðum okkur að gera en höfðum ekki ennþá gert, skrifa lista..svo marga lista, hlaupa í hringi og svitna miiikið.

Hvernig áttum við að koma öllu draslinu okkar heim? Sérstaklega þar sem ég hélt áfram að troða í töskurnar nauðsynjum ásamt bráðnauðsynlegum óþarfa, þar til saumarnir á þeim voru við það að trosna í sundur og ég þurfti að setjast ofan á hverja og eina á meðan ég renndi eins varlega (eða ekki ) og ég gat.
Þegar við komum á flugvöllinn fannst mér við vera með áberandi mestan farangur af öllum í röðinni. Þar voru einna helst spánverjar á leið í bakpokaferðalög og ungar íslenskar stúlkur sem klæddust eins og þær væru á leiðinni til spánar en ekki þaðan..hver kannast ekki við það að vilja sýna aðeins afrakstur alls sólbaðserfiðisins. Þetta var samt um nótt svo fáir sáu þessar berleggja brúnu dömur...eða jú ég sá þær og ég get vottað fyrir að þær voru mjög svo brúnar og sællegar. Salka trúði mér ekki einu sinni þegar ég sagði henni að þær væru íslenskar og mátti til með að sannreyna það með því að spjalla aðeins við þær ;)
Við biðum í röðinni með öndina í hálsinum og reyndum að greina það á útliti "tékkinn" dömunnar hvort hún væri grimm eða góð. Við giskuðum á grimm og ég undirbjó ræðu okkur til varnar í huganum og var tilbúin með tárin í augunum...eeeen þurfti ekki þar sem hún hleypti okkur í gegn með öll okkar 90 kíló (máttum vera með 60)..fyrir utan handfarangurinn sem fór einnig laaangt út fyrir öll velsæmismörk. Góða góða konan var ekkert grimm,bara góð og ég sem hef alltaf talið mig afbragðs góðan mannþekkjara.
Vörðurinn sem sá um að gegnumlýsa töskurnar var hinsvegar pínu grimmur. Hann fussaði og sveiaði þegar ég renndi "handtöskunni" með saumavélinni í gegn, sagðist ekkert sjá og skipaði mér að rífa allt upp úr töskunni. Það var ekkert grín að tetrisa öllu aftur á sinn stað.

Flugferðin var síðan sú allra himneskasta sem ég hef reynt sem tveggja barna móðir..semsagt steinsofandi börn og ég borðaði, las og svaf smá. Spa, ó já!

Foreldrar Bjarka voru svo dásamleg að sækja okkur og það dugðu ekki færri en 2 bílar til að ferja okkur í mömmu hús sem við munum kalla heimili okkar fyrst um sinn, þar sem við erum heimilislaus eins og er ;)
Það var yndislegt að koma heim til mömmu sem hafði verið á haus að gera allt svo fínt og huggulegt eins og henni einni er lagið. Ég þakkaði samt fyrir að við hefðum ekki átt flug heim viku seinna því hún hefði verið vís til þess að eyða hinni vikunni af fríinu sínu í að snurfusa en frekar. Þegar við loks lögðumst á koddann eftir ferðalagið var það eins og að svífa um á dúnmjúku skýi. Mamma hafði viðrað sængurnar í nokkra daga ef ég þekki hana rétt, sett svo ilmandi hreint, nýstraujað og skjannahvítt sængurver á (já þetta er svona lýsingarorðasaga;). Það er varla hægt að lýsa því þvílík sæla það er að leggjast í slíkan munað. Svona kalt og ferskt loft í kring og liggjandi með hlýja dúnsæng upp að eyrum, ólíkt því að liggja löðrandi sveittur með ekkert ofan á sér og velta fyrir sér hvernig best sé að klæða sig sem minnst án þess að vera ósæmilegur..af því að það eru gestir.

Við vorum ekki lengi að komast inn í hinn alíslenska hressleika og öllu sem honum fylgir.

2 dögum eftir heimkomu vorum við bæði komin í vinnu og börnin byrjuð í aðlögun í leikskólanum..Salka þurfti að vísu enga aðlögun enda í gamli leikskólinn hennar sem hún hjálpaði litla bróður að kynnast. Aðlögunin gekk vonum framar og það er augljóst að drengurinn var í miklum spreng að hitta önnur börn. Hann er líka frekar leikskólavænn þar sem hann elskar að borða og vera úti. Það þurfti kannski helst að gera honum grein fyrir því að í sameiginlegu söngstundinni þá voru ekkert endilega allir að horfa á hann og hans atriði. Leikskólastjórinn hafði einmitt á orði hversu ólík þessi systkini eru í háttum. Salka hefði aldrei vakið athygli á sér með gauragangi en Funa er svo slétt sama hverjir eru að horfa og því fleiri því betra. Henni finnst matur ekkert spes en honum finnst matur alveg SPES o.s.frv.

Við tókum svo skyndiákvörðun um að Salka skyldi byrja í Ísaksskóla..bara si svona. Margir vinir hennar voru hættir í leikskólanum og við fréttum að ísaksskóli hefði bætt við bekk, sóttum um og fengum símtal daginn eftir. Vikuna á eftir var hún orðin skólastelpa.

Mér finnst við búin að vera ótrúlega lengi og gert svo margt á þessum mánuði síðan við komum.
Ég hef líka verið ótrúlega meyr á þessum tíma og oft staðið mig að því að geta ekki blikkað augunum því þá mundu tárin byrja að leka niður kinnarnar. Sko gleðitár...eða kannski svona tilfinningatár. Þið munduð áreiðanlega gubba ef ég færi nánar í atvikin sem orsökuðu þessa tilfinningavellu.

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að ég hafi ekkert farið.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Hva?


Ég veit ekki hvað skal segja.

Þá er örugglega best að segja sem minnst..ég held ég sé engan vegin í stuði fyrir tilfinningablogg frá útlöndum núna. Þó það vanti ekki tilfinningarnar.Ég er með köggul í maganum sem má túlka á ýmsa vegu. Kannski seinna, þegar ég er hætt að snúast í hringi yfir engu og öllu og svitna eins og grís.

Næsta mál á dagskrá :Komast heim....sjáumst þar.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Blaah...




















































































Í dag fórum við líklega í síðasta skiptið á ströndina fyrir heimferð.

Mér fannst allt eitthvað extra fínt á ströndinni í dag..kannski af því að ég vissi að ég er ekkert á leiðinni þangað aftur í bráð. Sjórinn rétt svo gáraðist í smá golu og sandurinn sem þyrlaðist upp af botninum þegar við óðum út í var eins og glimmer. Ég ætla ekki að lýsa því frekar en þetta var einn af þessum dögum sem ég veit ég á eftir að muna lengi, þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd að ég náði að liggja aðeins í sólbaði...nei djók!

Á leiðinni heim í lestinni sagði Salka mér að hún væri ofurhetja. "Nú hvernig krafta ertu með?" spurði ég. Ég var búin að segja þér það..auðvitað hlaupa hratt og fara í handarhlaup (já döh,hvernig spyr ég). Hún er líka búin að sýna mér hvernig ofurhetjur eru á svipinn þegar þær bjarga fólki og hvernig þær hreyfa sig. Svo talaði hún mikið um hvernig hún ætlaði að bjarga hinum og þessum í fjölskyldunni og mér fannst ég svo örugg. Þegar við vorum komin á lestarstöðina okkar beið hún þar til við vorum komin út. Ég leit til baka og ætlaði að fara að kalla á hana þegar hún tók tilhlaup,stökk svo út úr lestinni með tilþrifum og lenti auðvitað eins og ofurhetja! Já hún kann að lifa sig inn í hlutverk. Í síðustu viku var hún harðákveðin í því að hana langaði að vera úlfur til að geta spangólað svona eins og alvöru úlfur og bara gert úlfalega hluti. Ætlaði meira að segja að fara á Þingvelli og óska sér að hún breyttist í alvöru úlf. Hún man mjög sterkt eftir því þegar hún fór á Þingvelli og henti pening í gjánna og óskaði sér að hún myndi stækka og notaði hinn peninginn til að óska sér að Funi stækkaði. Báðar óskir hafa núþegar ræst.Eftir á sá hún smá eftir því að hafa ekki óskað sér hund.
Þingvellir eru hinn eini sanni óskastaður.

Í dag hófst vikulöng hátíð í Gracia (hverfið okkar).Kíktum aðeins út í kvöld og urðum ekki fyrir vonbrigðum með það sem fyrir augu bar..lifandi tónlist út um allt, útibarir og göturnar skreyttar eins og í ævintýralandi. Ég held ég geti ekkert verið að lýsa þessu með orðum..bý bara til sér albúm með myndum;) Í fyrra þegar við komum hingað í íbúðarleit og skemmtiferð, var þessi hátíð einmitt í gangi. Við vorum svo yfir okkur hrifin að við pöntuðum flugmiða heim með það í huga að ná nokkrum dögum af hátíðinni.

Góð ákvörðun það.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Hvar er inniröddin?!





























































































































Við áttum alltaf eftir að fara í sædýrasafnið öll saman.

Salka hafði fengið að fljóta með góðhjörtuðu frændfólki sínu fyrir nokkru síðan en aldrei með okkur. Í dag ákváðum við að bæta úr því , sérstaklega þar sem ég sá einhverntíman að slagorð sædýrasafnsins var: "Ef þú hefur ekki komið í sædýrasafnið,þá hefurðu ekki komið til Barcelona"...mér finnst þetta eiginlega hljóma eins og hótun. "Ef þú gerir ekki eins og ég segi þá ertu ekki boðin í afmælið mitt"!
Jæja, þetta virkaði allavegana á mig. Frekar vandræðalegt að koma heim og einhver spyr: Hvaðan varstu að koma? og ég alveg: nú ,Baxelona og hann alveg já okei,fórstu í sædýrasafnið? Ég: "ööö nei" og hann alveg:"núúú, þá hefuru ekkert komið til Barcelona"! Og þá og ekki fyrr en þá, uppgötva ég að slagorðið var sannleikurinn. Ég læt ekkert fara svona með mig.

Það er alltaf gaman að horfa á allskyns litríka,litla ,stóra og fyndna fiska svamla um í skrautlegu umhverfi.
Ég held samt að engum hafi þótt það eins spennandi og Funa. Engum á öllu sædýrasafninu!Ef einhverjum fannst þetta merkilegra en honum þá var sá hinn sami ekki að láta það nógu sterkt í ljós.
Þetta byrjaði fyrir utan safnið þegar Funi kom auga á Nemobangsa,boli og blýanta í sýningarglugga og drengurinn ætlaði hreinlega að missa vitið!Við þurftum að skiptast á að standa í röðinni því það þurfti alltaf einhver að taka að sér að vera teymdur að glugganum og hlusta á drenginn hrópa uppyfir sig af gleði í hvert skiptið sem hann taldi upp fyrir okkur hvað var að sjá í glugganum . Hann var svo ofurspenntur og hátt uppi að röddin var orðin hálfskræk.
Ekki var gleðin minni þegar inn á safnið kom.Þá æpti hann en meira og hljóp að búrunum þar sem hann stillti sér fremst og hrópaði svo á okkur öll til skiptis...mamma,mamma, pabbi,pabbi, Sakka,Sakka!!! (Hann gefst aldrei upp og hættir ekki fyrr en hann fær viðbrögð,helst mjög sterk viðbrögð) Sjáu og svo setti hann kannski puttann að fiskunum og lék með miklum tilþrifum að þeir væru að bíta hann í puttann..Á, á,á bíta og datt svo í gólfið.

Í minningunni finnst mér ekki hafa heyrst í neinum nema honum..hinir hafa tvímælalaust verið að nota inniröddina. Iss piss innirödd,hvað er nú það?
Eitthvað sem þú lærir að nota á leikskólanum...vonandi.

Hann skemmti sér í það minnsta konunglega ;)

P.s. Nýjar myndir

sunnudagur, 10. ágúst 2008

Það er eins og gerst hafi í gær....











































































Fyrir 5 árum síðan fæddist oggulítil stelpa.

Ég man það eins og gerst hafi í gær...nema það var fyrir 5 árum ;)

Í tilefni af því héldum við smá veislu og gerðum svo allt sem 5 ára finnst skemmtilegt.

laugardagur, 9. ágúst 2008

Afturábak








Þegar ég var unglingur las ég Moggann alltaf afturábak af því þá var ég fljótari að komast að fólki í fréttum og teiknimyndasögunum.

Í seinni tíð hef ég komist að því að ég geri þetta ennþá..ekki moggann en greinar eða eitthvað sem ég er ekki alveg viss um að ég nenni að lesa. Þá byrja ég aftast eða stundum í miðri grein og les afturábak og svo enda ég oftast á að byrja á byrjuninni og lesa allann textann aftur. Annað sem ég stend mig að aftur og aftur er að lesa fyrirsagnir vitlaust. Eftir Verslunarmannahelgi var Bjarki að lesa eitthvað á Dv.is og ég leit yfir öxlina á honum og las.."Fékk flösu í höfuðið".. ert ekki að djóka sagði ég hlæjandi "hvurslags frétt er þetta eiginlega" svo ætlaði ég að fara segja eitthvað meira þegar Bjarki greip fram í fyrir mér glottandi..Ööö Kolla og ég fattaði um leið hvað klukkan sló og dó úr hlátri. Mér til varnar þá eru fréttirnar með svo fáranlegum fyrirsögnum upp á síðkastið að ég trúði þessu alveg og átti jafnvel von á að það stæði:-myndir fyrir aftan.
Ég held ég sé með athyglisbrest.

Annað spes:Bjarki var að útbúa hafragraut einn morgun fyrir nokkrum dögum (engar áhyggjur ég kann alveg að gera hafragraut líka). Allt í einu kallar hann á mig og ég skynjaði í röddinni að það gæti hugsanlega eitthvað verið að..af því að ég er með sjálfvirkan raddgreini í heilanum, ég veit ótrúlega næm;). Ég kíkti inn í eldhús og sá hann horfa rannsakandi ofan í pottinn. "Komdu og sjáðu" sagði hann og sýndi mér grautarskeiðina. Ég þurfti ekki að rýna lengi til að sjá PÖDDU á skeiðinni og aðra í grautnum og svo aðra og aðra, já og aðra og aðra. "Uuu, hvað er í gangi"? var það eina sem mér datt í hug að segja. "Þetta er bara svo lífrænt mjöl sagði hann...ég fann eina um daginn líka en er þetta ekki soldið mikið"? "Júúúú þetta er SOLDIÐ mikið" sagði ég um leið og mér var hugsað til pöddugrautsins sem við höfðum borðað morguninn áður,tuff. En ég meina hann var lífrænn svo það hlýtur að koma út á það sama. Engar áhyggjur gestir þetta er ekki sami grauturinn og þið fenguð að borða,við geymdum pöddugrautinn alveg spes;)

Við erum annars í óðaönn að pakka öllu draslinu okkar niður og reyna að koma íbúðinni í sama horf og þegar við tókum við henni..m.a. reyna að muna hvar allar misljótu myndirnar og kertastjakarnir héngu og við földum inn í skápum. Það er einhvernveginn allt í rúst og út um allt og ég nenni ekki að stíga ofan á smádót og föt í öðruhverju skrefi þegar ég arka um íbúðina og pakka óskipulega niður úr hillum og skápum en ég er heldur ekki að nenna að taka þetta drasl upp.... Er eitthvað þema hérna? Mamma yrði ekki ánægð með mig. Það er óneitanlega skemmtilegra að koma sér fyrir og gera fínt heldur en að pakka öllu niður aftur.Við erum samt nokkurnvegin búin að pakka öllu nema því allra nauðsynlegasta og hvað ég verð fegin þegar við verðum búin að alveg öllu .

Í morgun setti Bjarki fullan kassa af dóti sem við ætlum ekki að taka með okkur, út við gám og vá hvað einhver hefur orðið glaður! Ég var búin að vanda mig við að raða öllu fallega svo sá heppni upplifði sig ennþá heppnari þegar hann sæi glitta í jólaskrautið okkar og annað fínt. Á morgun setjum við meira svona til að dreifa glaðningunum á fleiri heppna.

Við Salka höfum meðal annars verið að hlusta og horfa á þetta í dag og líka öll hin lögin með henni.
Gleður mann svo mjög ;)