sunnudagur, 30. desember 2007

Sinn er siðurinn..

Jólin í Baxe hafa verið örlítið frábrugðin hefðbundnu jólahaldi að okkar hálfu. Munurinn er aðallega fólgin í minna stressi, færri jólaljósum og engum jólaboðum með ættingjum eða vinum.

Aðfangadagur var afar notalegur. Við Bjarki kíktum í bæinn og fórum svo á matarmarkaðinn að kaupa jólakalkúninn. Það var að vísu ekki notaleg reynsla og ég færist nær þeirri hugmynd að gerast grænmetisæta í hvert skipti sem ég sé heila grísi, fláðar kanínur, og hana hangandi á hausnum á krókum allt í kringum mig svo ekki sé minnst á hófana, klærnar, kambana og hvað þetta nú allt saman heitir sem borðað er með bestu lyst hér í borg. Það var ekki auðsótt mál að finna kalkún þar sem framboðið af hönum er mun meira?..Þeir hengu þarna á krók eftir krók og á bás eftir bás...Við treystum okkur þó ekki í alltof mikla tilraunamennsku og héldum ótrauð áfram í leit okkar að kalkúninum sem við fundum að lokum hjá vasklegum mæðgum. Ég horfði skelfingu lostin á jólamatinn minn hanga á hausnum og minna mig allt of mikið á mennska veru með lærin sín og "handleggina". Ég varð að líta undan meðan kjötkonan snyrti fuglinn af mikilli röggsemi..."Er þetta búið" ? Spurði ég hikandi á meðan ég horfði á brakandi ferskt grænmetið á næsta bás og sæta og safaríka ávextina þar við hliðina á...allir þessir litir og enginn dó fyrir málstaðinn. (dramatískt ég veit) "Já þetta er búið" sagði Bjarki um leið og hann vippaði pokanum með tilvonandi jólasteik yfir afgreiðsluborðið. Ég leit á pokann og sá smá slettu af innyflum á honum ...ókei þetta er orðið gott! Maturinn smakkaðist semsagt guðdómlega eins og við var að búast og allar hugleiðingar um grænmetisát að eilífu fuku út í veður og vind á meðan ég naut matarins til hins ýtrasta. Humar í forrétt, klakúnn með fyllingu og gómsætu meðlæti í aðalrétt og möndlugrautur með kirsuberjasósu og ferskum kirsuberjuummmm. Kokkarnir mamma og Bjarki stóðu vaktina..Bjarki hafði yfirumsjón með kalkúninum og forréttinum, sósan var samstarfsverkefni en mamma sá alfarið um möndlugrautinn magnaða. Salka fékk möndluna og var að sjálfsögðu himinsæl ; ) Við opnuðum síðan alla fallegu pakkana sem við fengum senda bæði með mömmu og Adam og settum líka nokkra sjálf. Salka hefur aldrei sýnt þeim eins mikinn áhuga og nú og vildi að sjálfsögðu ólm fá að hjálpa Funa og auðvitað leika með dótið hans líka. Hann fær kanski meira um þetta að segja á næsta ári . Allir fengu eitthvað fallegt og ég verð að hrósa öllum gefurum fyrir einstaka smekksemi.
Takk fyrir okkur ; )

Þegar við höfðum ákveðið að eyða jólunum í ókunnri borg er allt eins gott að reyna að kynna sér hefðir og siði heimamanna tengda jólahaldi í leiðinni.

Sá siður sem ég tók einna fyrst eftir er tengdur trjáboli sem málað er andlit á. Trjábolurinn er kallaður "caga tio". Krakkarnir syngja svo sérstakt lag fyrir caga tio og lemja hann með priki um leið en þá "kúkar" hann gjöfum eða góðgæti að launum. Caga þýðir kúkur og tio þýðir frændi og gæti þetta því útlagst sem kúkandi frændinn? Trjádrumburinn fæst í öllum stærðum og margir eru með einn slíkan heima hjá sér. Það er hugsað vel um hann, honum gefin mjólk að drekka og teppi breytt yfir hann, og börnin hvísla svo síðustu óskum sínum í "eyru" hans. Að morgni 25. desember syngja þau lagið góða og slá í hann með priki um leið...Þegar þau kíkja svo undir teppið leynast gjafirnar þar!

Önnur hefð tengd sömu frumþörf er stytta af manni, eins konar hirði sem sit
ur á hækjum sér með buxurnar á hælunum og fyrir neðan hann er hið myndarlegasta fjall af uuu..kúk. Ég hef ekki nógu góða skýringu á þessari styttu aðra en þá að þetta sé eitthvað sem allir gera og sameini því fólk af öllum stéttum ; ) Hefðin er líka að fela einn svona karl við fjárhúsið sem svo margir útbúa heima hjá sér og þá er það gert að leik að reyna að koma auga á kúkakauða. Hann fæst í öllum stærðum og gerðum..fótboltakarlar, leikarar,stjórnmálamenn og meira að segja páfinn sjálfur!... ekkert er heilagt í þessum efnum.

Mér finnst líka vert að minnast á sérstakan náunga sem við hittum fyrir á jólamarkaðnum en hann spýtti út úr sér brjóstsykrum í allar áttir með hjálp góðra manna sem dældu honum aftan í hann...þennan mann má sjá á myndinni efst á síðunni.

Aðalhátíðin hjá heimamönnum er svo 6. janúar en þá koma vitringarnir með gjafirnar..ekki jólasveinninn. Þetta er aðalgjafadagurinn hjá þeim en mér skilst að það séu líka smá gjafir 25. des.

Á gamlárskvöld er siður að borða eitt vínber með sopa af cava við hvert slag á miðnætti (semsagt 12 vínber)...þá ætti komandi ár að verða manni hamingjuríkt og heilladrjúgt. Sem minnir mig á að þakka fyrir einstaklega falleg og skemmtileg jólakort þetta árið..planið svínvirkaði og okkur hefur verið boðið í vínberjaát á miðnætti til nágranna okkar. Ekki þó Taniu Heinz heldur þeirra Johonnu og Michaels sem eru finnsk og írsk ættuð ofurviðkunnaleg hjón sem stefna að því að bjóða yfir til sín nokkrum írskum og spænskum vinum... og okkur! Þetta verður áhugavert. Meira um það síðar.

Gleðilegt nýtt ár!!!!!

föstudagur, 21. desember 2007

Komdu í partý!

Jólakortin lögðu af stað í gær ! Nú er þetta ekki lengur í mínum höndum svo við getum bara krossað fingur og vonað að þau skili sér...einhverntíman.
Eitt sem ég var að spá.
Pósti allra íbúa hússins er staflað í bunka fyrir framan póstkassana þannig að við þurfum alltaf að fletta í gegnum allan bunkann til þess að finna bréf til okkar sem eru yfirleitt engin nema kanski símreikningur og ég verð alltaf jafn spennt! Við komust því ekki hjá því að sjá hverjir fá oft bréf annan en gluggapóst og hverjir ekki. Hún Tania Heinz fær til dæmis frekar áhugaverðan póst, kort og girnileg umslög.Hún býr á hæðinni fyrir ofan okkur og nei það er ekkert klikk að vita það. Það kallast bara að kunna að leggja saman tvo og tvo ; ). Hún hélt einmitt svaka partý um daginn þar sem mér heyrðis fólk dansa flamengo eftir stappinu að dæma og það var hringt á dyrabjölluna okkar (fyrir misskilning ) langt fram eftir nóttu. Um daginn kom hún svo að athuga hvort við værum með lykla af póstkassanum og ég skildi nú ekki alveg hvað hún var að fara svo ég spurði hikandi hvort hún talaði ensku. Jú, jú svona líka glimrandi fína..ég var bara alveg hlessa.
Það væri því vel tilfundið að ef einhverjir (vonandi rosa margir) ætla að senda kort eða bréf að senda nokkur falleg umslög með í leiðinni..þarf ekkert merkilegt að vera í þeim . Bara að nafnið okkar sé á þeim. Svo þegar fólkið í húsinu rennir í gegnum póstinn sinn og annara getur það þá ekki annað en spurt sig hvaða áhugaverða fólk þetta sé nú sem fær allan þennan aragrúa af pósti. Næst þegar það heldur partý þá bjóða þau okkur af því að við erum greinilega svo vinsæl í heimalandi okkar að þau verða forvitin og vilja að sjálfsögðu ekki missa af því að kynnast svona frábæru fólki . Orðið á götunni verður að fólkið sem vert sé að hanga með sé finna á Carrer de Sant Lluis 78 og svona gengur það mann af manni þangað til allir hafa frétt af "bréfafólkinu" og við verðum af goðsögn í lifanda lífi...gott plan!?

Mamma kom í gær sem er algjör draumur og ég er ekki frá því að jólin hafi komið með henni. Hún kom að minnsta kosti með þrefaldan jóladisk sem hefur meðal annars að geyma lögin... "Svona eru jólin", "Ég hlakka svo til", "Þú og ég um jól" og "Þú komst með jólin til mín"...sem segir allt sem segja þarf ; ) Ég kveikti á kertum, borðaði mandarínur og brenndi greni eins og ég ætti lífið að leysa ..iiilmandi jól.

Salka er komin í jólafrí og nú eru bara keraljós,kósíheit, bæjarferðir, jólatrésskreytingar og rómantík framundan..og auðvitað að velja jólamatinn og fullt af allskonar góðgæti ...mmm spennandi.

*Gleði og friður sé með yður og með ykkar anda (ekki ofanda)*

miðvikudagur, 19. desember 2007

"Christmas whithout you"

Ég var að skrifa jólakort um daginn og ákvað að reyna að búa til huggulega stemmningu.
Ég kveikti á allskonar kertum. Kertum með kanellykt, kertum í laginu eins og epli, sprittkertum og líka stórum hlunka kertum. Ég hafði keypt mér grenigrein sem ég klippti bút af og reyndi að hafa sem næst mér til þess að finna ilminn ..ég opnaði líka piparkökudunk og reyndi að láta lyktina og bragðið koma mér í jólaskap. Allt kom fyrir ekki...jú, jú allt saman var þetta mjög huggulegt en það vantaði eitthvað? Tónlist! Ég var að spá í að sækja jóladiskinn með klassísku gömlu jólalögunum með Louis Armstrong og félögum en langaði bara að heyra í Pálma, Svölu og öllum hinum eigtís jólaslögurum. Ég ákvað að eina ráðið væri að finna jólastöðina í tölvunni sem ég ferjaði yfir í stofu og stillti fyrir framan mig. Þá byrjaði það ...endalaust af auglýsingum sem sögðu mér að kaupa,kaupa,kaupa...farðu þangað..hver að verða síðastur..90% afsláttur!..viltu vera smart!?..skipun frá seðlabankastjóra!..kaupið leikföng! Ég fann hvernig jólaandinn helltist yfir mig..það hefur engin sagt mér að kaupa neitt sérstakt hér nema kanski ég sjálf og oftast á ekkert sérstaklega sannfærandi hátt. Þarna kom það! Ég kaupi mér bara jólaandann..eða hvað? Næsta lag á fóninn var "christmas whithout you "með Dolly Parton og viðlagið endurtekið angurvært í sífellu með hækkun eftir hækkun "whithout youuuu" (allir saman nú) og þá rann hann upp fyrir mér blákaldur veruleikinn..fyrstu jólin án Íslands og allra á því. Vissulega er litla fjölskyldan hjá mér sem er yndislegt eeen hinir skipta bara svo miklu máli líka. Ég ætlaði að reyna að vera rosa töff og segja bara iss piss skiptir ekki máli þetta eru nú bara jól , það er ekki eins og séu ekki haldin jól á Spáni (Katalóníu) líka, hver þarf hamborgarhrygg?, Malt og appelsín? Nói og Siríus? pfff!.. Allt í einu var ég ekkert svo brött og hafði bara ekkert á móti því að hitta nokkra vini og ættingja yfir jólaöli og hangikjötsbita. Maður verður meyr um jólin.. ekki töff !

Allt í einu vaknaði ég úr hugrenningum mínum við að kynnirinn var að afkynna síðasta lag nefmæltri og tilgerðarlega djúpri röddu..."Jááá og þetta voru Frostrósir með sitt dásamlega lag blablablaa ooog mér var nú hugsað til þess áðan að ef einhver fengi sér ís með einni af þessum dömum, þaáá væri sá hinn sami að fá sér ís með dýfu" (dívu)..whaat,er mig að dreyma?!!Ég fann hvernig aulahrollurinn hríslaðist um mig alla og ég roðnaði fyrir hans hönd en svo hætti ég við og grenjaði úr hlátri, tárin láku niður kinnarnar á mér..þetta var of mikið..heilinn hlýtur að hafa sagt honum að hætta en munnurinn hélt bara áfram að riðja út úr sér steypu!! Ég veit ekki hvort það var tilfinningasemin eða hvort þú þurftir að vera á staðnum til þess að finnast þetta fyndið...ég hlæ allavegana enþá bara við tilhugsunina!

Takk kæri herra jólastöð þú kættir mig þegar ég var meyr ; )
Mamma kemur á morgun!

sunnudagur, 16. desember 2007

Jólagjöfin mín í ár ekki metin er til fjár..

Nú líður að jólum og hver að verða síðastur að fá snilldarhugmynd að gjöf handa elskunni sinni.
Hér er hugmynd sem auðvelt er að framkvæma og kostar sama sem ekki neitt!
...kíkið á þetta!

http://www.youtube.com/watch?v=ZYcECht-51c

miðvikudagur, 12. desember 2007

Adam átti syni tvo og fullt af súkkulaði?

Um síðustu helgi heiðraði Adam Bjarka bróðir okkur með nærveru sinni.

Hann keypti sér far á mánudegi og var komin í hús á föstudegi þá sömu viku. Vasklega að v
erki staðið! Megi aðrir taka hann sér til fyrirmyndar. Salka var svo spennt fyrir komu hans að hún fékk gubbupest sem rjátlaðist fljótt af henni og var alveg eiturhress á eftir.Hún sýndi Adami öll trix sem hún kunni og sagði honum frá nánast öllu sem á daga hennar hafði drifið síðustu vikurnar..skildi ekkert í því að þessir foreldrar hefðu líka eitthvað til málanna að leggja...en kanntu þetta?...jaáá! ..en þetta? ..hey sjáðu þetta!..Adam Adam veistu hvað?..Adam tók þessu með stóískri ró og akkúrat þeirri athygli sem Salka óskaði eftir.

Við böxuðum ýmislegt á þessum þremur dögum. Röltum í bænum
, sáum appelsínutré,strákarnir borðuðu hráskinku eins og þeir ættu lífið að
leysa, bökuðum brauð, Funi brenndi sig á ofninum (sem betur fer ekki alvarlega og jafnaði sig eftir 3 tíma svefn), drukkum hvítvín, spjölluðum, fórum á jólaball þar sem Sölku stóð ekki á sama um jólasveininn og fólk hafði áhyggjur af því að Funi fengi ekki nammi, strákarnir fóru á fótboltaleik, leigðu hjól og lentu í stormi í 20c hita, borðuðum nammi (ég kláraði þristana).. en ekkert endilega í þessari röð.

Eins og við (ég) hefðum ekki borðað nógu
mikið súkkulaði þá ákváðum við að fara á súkkulaðikaffihús hér í Gracia, þar sem flest á boðstólnum innihélt súkkulaði á einn eða annan hátt. Að eigin sögn eða annara býður þetta kaffihús upp á besta súkkulaði í heimi! Ég þori nú ekki að fullyrða neitt um það en gott var það eins og reyndar flest súkkulað
i í mínum huga. Við ákváðum að vera grand á því og pöntuðum okkur heitt súkkulaði og köku að eigin vali..ég veit soldið klikk en við vorum sko búin að labba svo mikið. Salka lét sér reyndar duga að fá sér súkkulaðiköku og sleppti súkkulaðinu í fljótandi formi. Allt var þetta mjög svo bragðgott og gómsææætt. Súkkulaðið hnausþykkt..svo þykkt að það var næstum hægt að borða það með gaffli og með fullt að þeyttum rjóma með á sér diski.
Kökurnar voru svo ekki síðri en þegar við höfðum gætt okkur á þessu í dágóða stund fórum við að skilja af hverju við sáum fólk leyfa súkkulaðinu í bollanum. Það er nefninlega hægt að fá ooof mikið súkkulaði..í alvöru það er hægt. Við gerðum okkar besta en þegar við vorum farin að svitna súkkulaði og sjá fyrir okkur sellerístöngla, kalda bakstra og vaaaatn þá játuðum við okkur sigruð.
Næst ..já það verður næst þá látum við okkur duga einn súkkulaðibolla saman og jafnvel mintute eða einn af þessum girnilegu fersku ávaxtadrykkjum sem er eitt af því fáa sem hægt var að fá án súkkulaðis á þessum huggulega stað. Xocolateria la Nena er alveg þess virði að kikja á aftur og þá reynum við að ná kósí sætinu úti sem við misstum af í þetta skiptið Sölku til mikillar sorgar.
Mamma og allir hinir sem hafa staðfest komu sína geta farið að hlakka til að fá besta súkkulaði í heimi!

Kæri Adam takk fyrir samveruna og okkur hlakkar til að fá þig aftur í mars með synina..tvo og Hörpuna eina ásamt fríðu fylgdarliði að sjálfsögðu.

sunnudagur, 9. desember 2007

Reyfarakaup

Ég gerði svo góð kaup nú nýverið að eigin mati.
Ég var á rölti niðri í bæ og rekst á litla búð með allskyns notuðu dóti..svolítið eins og góði hirðirinn en bara miklu,miklu minni. Ég skanna búðina í hálfkæringi þangað til allt í einu að augu mín galopnast og staðnæmast við tiltekin hlut..hjartað slær örar og ég hitna öll. Þarna sat hún rauð og feimin og sagðist hafa verið að bíða eftir mér. Ég greip hana þéttingsfast.. hratt og örugglega svona eins og til þess að koma í veg fyrir að nokkur yrði fyrri til (það var enginn inni í búðinni nema öldruð afgreiðslukona og vinkona hennar). Ég spurði afgreiðsludömuna hikandi um verð á gripnum..ég trúði ekki mínum eigin eyrum getur það passað 10 evrur (tæpar 1000 kr.) Ég fálmaði eftir veskinu og rétti henni seðilinn og vonaði svo heitt og innilega að hún gerði sér ekki grein fyrir að henni hefðu orðið á mistök í verðlagningunni. Ég tvísteig á meðan hlýleg afgreiðsludaman bisaði við að finna poka sem hentaði og var ekki í rónni fyrr en ég var komin með gullið í hendurnar..hún er mín !!!

Nú sé ég bara fyrir mér hvað Salka verður himinlifandi á aðfangadag þegar hún tekur upp pakkann sem innheldur konfektið.Þetta er svona sýn í móðu eins og oft er í sápuóperunum til að fegra, sýna draumsýn eða jafnvel aftur í tímann hjá þeim sem missti minnið þann daginn.

Við sitjum hlið við hlið, ég við mína vél hún við sína og brosum til hvorrar annarar. Hún er að sauma dúkkuföt og ég er að sauma ofurfagurt rúmteppi úr slæðum sem ég keypti á markaðnum.Salka hlustar á allar mínar leiðbeiningar af mikilli forvitni og fylgir þeim að sjálfsögðu í einu og öllu með bros á vör en þó án þess að ég skerði listrænt frelsi hennar.
Við færum dúkkurnar í nýsaumuð fötin og ég breiði úr fullkomlega heppnuðu teppinu yfir rúmið..við föllumst í faðma í einskærri gleðivímu og undir hljómar að sjálfsögðu eitthvað ótrúlega viðeigandi lag sem hæfir tilefninu.

Þangað til annað kemur í ljós þá lifi ég í draumi og þó svo að vélin eigi svo eftir að standa ónotuð uppi í hillu um aldur og ævi þá er ég glöð í hjarta mínu því ég veit að ég gerði...reyfarakaup!

mánudagur, 3. desember 2007

"Catalonia is not Spain"

Dagarnir koma og fara og líða bara svo hratt .
Mamma er komin og farin...kom með fullar töskur af allskyns dóti fyrir okkur, fötum, saumadóti, gjöfum frá sér og öðrum fjölskyldumeðlimum (sem slóu alveg í gegn) og skinkuhornum! Mamma hefur nefninlega þann sið að baka skinkuhorn í afmæli og veislur og Funi átti einmitt afmæli um daginn. Fyrst eftir að við komum hingað var Salka alltaf að spyrja ömmu sína um skinkuhorn í símann .Það þarf nú varla að taka fram hvað fjölskyldumeðlimir voru kátir með sendinguna. Mamma fór svo aftur heim á föstudaginn með fullar töskur af jólapökkum...farin að hafa það á tilfinningunni að hún sé eingöngu burðardýr.

Við áttum annars mjög góða daga hér í borginni þrátt fyrir að ég hafi á stundum bókstaflega gengið fram
af henni eða fram úr henni með löngum og ströngum göngum en óvenjulitlum ógöngum. Ef þið sjáið kappklædda konu á kraftgöngu í Fossvoginum þá eru miklar líkur á að það sé móðir mín að æfa sig fyrir næstu ferð til Baxe sem er eftir ekki nema rúmlega 2 vikur. Funi var himinlifandi að fá ömmu sína sem kom með leiktjald, nennti að vera með honum úti á palli að leika daginn út og inn og passaði að hann borðaði ekki of mikið af laufblöðum, steinum og trjágreinum. Salka var bara glöð að endurheimta ömmu sína sem hún hafði saknað svo mikið. Hún fékk að vera í fríi einn dag í skólanum til að vera með ömmu og þá fórum við í tveggja hæða strætóinn sem henni hafði verið lofað svo lengi (bus turistic). Funa var líka boðið með en honum var skilað heim eftir nokkrar stoppustöðvar sökum dólgsláta.
4 dagar er ekki langur tími en við skoðuðum þónokkuð, löbbuðum heimikið og slökuðum smá og við huggum okkur svo við að amma Kolfinna kemur aftur um jólin í 2 vikur og þá er nú hægt að gera ýmislegt en líka tjilla fullt!

Salka er nú búin að vera í skóla í 2 vikur og hún er alveg ótrúlega dugleg . Alla síð
ustu viku kvaddi hún okkur án tára og var glöð og kát þegar við sóttum hana. Hún er dugleg að segja okkur frá því sem fer fram í skólanum sem er svo ótrúlega ólíkur Sælukoti á Íslandi. Börnin sitja fjögur og fjögur saman á hringborði og það er ekkert dót í stofunni. Þau gera verkefnablöð, lita, mála stundum og leira. Þau syngja líka og Salka er farin að reyna að herma eftir hreyfingunum og textanum. Einu sinni söng Salka allt lagið um Klóa kattarskrækir á "spænsku" fyrir okkur Siggu..það hefði ég vilja eiga á video.Einhverntíman komu eldri krakkar og spiluðu á hljóðfæri og þau yngri fengu líka að prófa. Samkvæmt skólastjóranum er farið í vettvangsferðir og börnin fara líka í tölvutíma. Útisvæðið er steinsteypt plan þar sem börnin hlaupa og leika sér í engum leiktækjum.Þeir sem ekki eru í mat í skólanum koma heim í 2 klukkutíma yfir daginn og fara svo aftur í 2 klukkutíma. Allir koma með með nesti ..tvisvar á dag. Þetta eru miklar breytingar en Salka tekur þessu ótrúlega vel enda alltaf verið gædd ríkri aðlögunarhæfni.

Helgin var ljúf og einkenndist af rölti og bæjarferðum.Salka gaf dúfunum korn að borða og kom okkur á óvart með því að gefa þeim beint úr lófanum sínum og svo leyfði hún þeim líka að setjast á hendina sína og borða kornið úr lófanum...við vorum alveg hissa á þessum æfingum. Við settumst á útikaffihús og það vildi svo vel til að þar var róló sem krakkarnir gátu leikið á meðan við fengum okkur hressingu. Á leiðinni á matarmarkaðinn gaf maður nokkur Sölku tvær mandarínur. Á matarmarkaðnum iðaði allt af lífi og litum og við gæddum okkur á ananas, sveskjum,apríkósum og ávaxtahristingum. Við röltum Römbluna og virtum fyrir okkur allar fígúrurnar sem skemmta fólki þar. Salka var alveg búin að ákveða að gefa boltakalli smá pening..(sumir búningarnir eru nefninlega svolítið hræðilegir og henni fannst boltakallinn líta sakleysislega út) en hann var farinn svo að kisa nokkur naut góðs af góðmennsku Sölku og gaf henni lítinn brjóstsykur að launum. Kisan var voða almennileg og gaf sig á tal við okkur, sagði okkur að hún (hann) kæmi frá Brasilíu og hefði mikinn áhuga að koma til Íslands. Salka vildi vita hvort hún kæmi í búningnum..það er góð spurning.
Niðri í bæ var kröfuganga þar sem þess var krafist að Katalónía yrði sjálfstætt ríki í Evrópu.."Catalonia is not Spain"...Það var múgur og margmenni allir rosa glaðir hrópandi slagorð, klæddust katalónska fánanum og veifuðu spjöldum og undirskriftarlistum. Sum slagorðin voru á ensku. Kanski til þess að hræða ekki útlendinga og túrista sem gætu haldið að það hefðu brotist út óeirðir.

Á sunnudaginn héldum við á ströndina..ekki á sundfötunum þó að hitamælirinn sýndi 18c. Á leiðinni benti Bjarki mér á að þarna væri par sem sat við hliðina á okkur á kaffihúsinu daginn áður. Við komumst að því að þetta væru lesbíutvífarar okkar..önnur var með alveg eins hár og Bjarki en hin var með alveg eins og ég og þær virðast gera svipaða hluti á daginn líka. Skemmtileg hljómsveit spilaði við ströndina og við keyptum meira að segja diskinn...það á eftir að koma í ljós hvort að harmonika,blásturshljóðfæri,gítar og trommur hljóma eins vel innan veggja heimilisins eða hvort það var bara staður og stund sem heillaði okkur.
Allt sem tengist jólunum á hug okkar allan og þá sérstaklega Sölku...henni finnst til dæmis ótrúlega merkilegt að spænsku krakkarnir fái ekki í skóinn og vel gert af jólasveinunum að koma alla leið frá Íslandi með glaðning. Emilía frænka hennar var svo góð að senda henni súkkulaðidagatal sem hún bíður spennt eftir að fá að opna eftir skóla.
Næsta mál á dagskrá eru svo jólakortin þar sem mamma fór með jólagjafirnar til Íslands í töskunni sinni góðu! Ég bendi þeim sem vilja gleðja okkar hjörtu að senda okkur kort á heimilsfangið neðst á síðunni.

Nú þurfum við að huga að þvottavélinni sem við komum ekki í gang með nokkrum ráðum og liggur einn fjölskyldumeðlimur undir sterkum grun. Ef allt bregst og við finnum ekki út úr þessu þá gætum við brugðið á það ráð að þvo fötin í hinu nýuppgötvaða undri...uppþvottavélinni!

Deo í bili