mánudagur, 30. júní 2008

Podemos!








































Helgin rann ljúflega.

Ströndin bjargaði okkur frá mesta hitamókinu á laugardeginum. Hitastigið þar var fullkomið, smá gola frá sjónum og sjórinn var alveg mátulegur. Salka skiptist á að fara með okkur heillangt út í (með kúta) og sýndi hvað hún gat. Við höfum annars aldrei þurft að hafa eins lítið fyrir krökkunum og þennan dag á ströndinni. Funi var alveg salírólegur og horfði heillengi á sjóinn eins og í hugleiðslu á milli þess sem hann sat hjá okkur, sofnaði fanginu á mér undir handklæði og hvíldi sig í kerrunni. Hann fékkst svo til að busla aðeins í sjónum sem hann var ekki alveg viss um hvað honum átti að finnast um. Allt í einu var hann orðinn að börnunum sem við sjáum stundum, börnum sem sitja sátt við hlið foreldra eða annara í meira en nokkrar sekúndur, jafnvel heila lautarferð og verðum alltaf jafn hissa. Í þetta skipti var komið að okkur að vekja undrun nærstaddra.
Salka lék sér heilmikið við stelpur sem hún hitti, auk þess sem hún dundaði sér sjálf. Ég gæti vanist svona strandarferðum og megi þær verða fleiri.

Við fengum þá afbragðshugmynd að skella okkur í garð á sunnudeginum. Þurftum að vísu að skipta tvisvar um Metro og ganga dágóðan spöl en við ákváðum að það væri vel þess virði af því að þar átti að vera í boði að fara á hestbak og hægt að skella sér í lestarferð um garðinn. Hljómaði vel og við vorum alveg tilbúin að leggja á okkur smá ferðalag fyrir slíka skemmtun. Þegar við komumst loks á áfangastað í steikjandi hita og eftir að hafa stoppað til að borða nesti og dáðst að allskyns fíneríi á leiðinni...komumst við að því að ég hafði misskilið opnunartíma bæði lestarferðarinnar og hestadæmisins ekki 14-17 heldur 11-14 sem er auðvitað mun líklegara..hef ég ekkert lært,hola siesta koma svo vera með á nótunum. Við fundum okkur samt ýmislegt til dundurs á svæðinu sem var líkara skógi...svona eins og við mundum kalla skóg eða svona kannski eins og Öskjuhlíðin, nema bara öðruvísi?

Um kvöldið voru Bjarki og Salka svo límd yfir úrslitaleiknum og Salka lét spurningunum rigna yfir pabba sinn..."af hverju er hann með blóð, hvernig datt hann,var þessi ekki glaður, af hverju er hann svona á svipinn" ???og fleira í þessum dúr. Þegar pabbinn var uppgefinn af öllu spurningaflóðinu og sagðist ekki vita hvers vegna eitthvað atvik hefði átt sér stað, sagði hún í stríðnistón : "Af hverju veistu það ekki?.."þá fæ ég mér bara góðan og stakan pabba sem hagar sér vel og kann sína lexíu..kannski þýskan pabba". Ég gat ekki stillt mig um að spyrja: "Nú af hverju þýskan pabba"? Hún: "því þá get ég talað við hann þýsku og sagt dojong sem þýðir nei og dojjaja sem þýðir já"! Hvað getur maður sagt..hún hélt samt með Spáni ég lofa!

Eftir leikinn brutust svo út brjáluð fagnaðarlæti þegar spánverjar urðu fótboltachampiones..flugeldum var skotið á loft allt í kring, bílflautur ómuðu, fólk hljóp út á svalir eða út í glugga ,klappaði, hrópaði og eða söng af gleði. Skemmtilegast fannst mér samt að fylgjast með fagnaðarlátum fótboltakappanna sjálfra í sjónvarpinu, þar sem þeir knúskysstu íþróttafréttamanninn sem tók viðtal við þá eftir leikinn og komu svo allir hlaupandi úr búningsklefanum á brókinni og létu freyðivíninu rigna yfir hann og hvorn annan. Það var ekki hægt annað en að hrífast með.

Slagorð spánverjanna í keppninni var "podemos" (við getum það) og það virkaði.

laugardagur, 28. júní 2008

Hjartsláttartruflanir

Innst inni hefur mig alltaf langað geta drukkið kaffi.
Ilmurinn af nýlöguðu kaffi er eitt það notalegasta sem til er og það er eitthvað svo hugguleg tilhugsun að sötra kaffibolla sem þú veist að gerir eitthvað stórkostlegt fyrir þig, svo ekki sé minnst á unaðslegar lýsingarnar frá kaffidrykkjufólkinu sjálfu. "Ohh það jafnast ekkert á við fyrsta kaffibollann á morgnanna" eða "ég kemst bara ekki í gang fyrr en ég fæ kaffið mitt" (ókei þetta eru krappí lýsingar en ég man bara engar rosalegar núna, þó þær geti alveg verið það) Þær minna svolítið á lýsinguna á fyrstu sígarettunni á morgnanna, sem minnir mig á það að stundum hefur mig bæði langað að reykja og drekka kaffi. Sérstaklega þegar ég var í menntaskóla, á nýjum vinnustað eða er að kynnast nýju fólki þá er nú gott að geta skellt sér út í sígó og blaðra frá sér allt vit og áður en þú veist af áttu nýjan besta vin eða vini. "Hey ég þarf að segja þér ýkt spennó... koddu út í sígó."

Ég hef oft reynt að drekka kaffi og aldrei gengið sérstaklega vel, ég er það mikill smákrakki að ég set bragðið fyrir mig í stað þess að horfa á áhrifin. Einu sinni þegar ég var lítil og sofandi í mömmu og pabba rúmi man ég eftir að hafa vaknað mjög þyrst. Í myrkrinu sá ég móta fyrir glasi á náttborðinu, glasi sem ég tók og þambaði þangað til ég uppgötvaði að þetta var ekki glas heldur ljósblár emaleraður bolli með herbergisheitu mjólkurkaffi....Bðaakk. Brennt barn forðast eldinn (drama) og allar götur síðan hef ég látið mér nægja að drekka allskyns te og reynt að finna mitt kaffi í því. Allar tegundir af grænu tei , hvítt te, rautt te, ávaxta te, róandi, losandi ,fegrandi, nefndu það ég hef smakkað það.

Með árunum (mjög nýlega) hef ég æ oftar staðið mig að því að því að þiggja smá kaffisopa, oftast með eftirmatnum eða kaffinu eins og það er kallað. Það gerir ekkert svakalegt fyrir mig nema kannski finnast ég vera hluti af hópnum. Þegar mamma kom hingað síðast fóru hlutirnir að gerast og ég stóð mig æ oftar að því að þiggja kaffi eins og fullorðin manneskja..af því mamma var svo dugleg að laga það. Þá komst ég líka að því að ég fæ m.a. hjartsláttartruflanir af því að drekka kaffi...sjii mig langar ekki einu sinni að vita hvað gerðist ef ég reykti.

Svo var það einn dag í febrúar þegar vinnufélagi hans Bjarka og fjölskylda hans voru í heimsókn að við dömurnar skelltum okkur í bæinn. Þegar við höfðum skoðað og skrafað dágóða stund, stakk hún Fjóla upp á því að við fengjum okkur frappuchino á Starbucks...hmm hvað er það? spurði ég aðeins hafandi keypt mér nema hvað grænt te af þeirri kaffikeðju. Fjóla :"Hvað er það"?.." uuu það er bara geðveikur kaffidrykkur!" .'Eg : "en ég drekk eiginlega ekki kaffi" Fjóla : treystu mér þú drekkur þetta kaffi" (sorrí Fjóla ef ég fer rangt með mál eða ýki en ég bara ræð ekki við mig + ég man þetta bara svona) svo pantaði hún frappucino de cafe con caramel og svei mér þá alla mína daga.... þetta var himneskt! Ískalt með muldum klökum, milt kaffibragð og rjómi með smá karamellusósu ofan á. Ókei ég geri mér grein fyrir að þetta getur varla talist kaffi,..meira svona sjeik með smá kaffikeim en muuuu hvað hann var góður. Ég mun muna þennan fyrsta frappuchino að eilífu svo góður var hann, svo góður að ég hef miðað alla þá sem komu á eftir við hann. Síðan þetta atvik átti sér stað hef nokkrum sinnum...alltof oft reynt að upplifa þessa sömu sælu aftur. Stundum hef ég komist nálægt því en oft hefur þetta verið eitthvað mis...svona eins og þeir hafi ekki lagt ást og alúð í bollann (plastmálið), drykkurinn þunnur, alltof mikið , alltof lítið kaffibragð eða bara vitlaus pöntun. Stundum er hann svo velheppnaður (þó aldrei eins og sá fyrsti) og þá sest ég í garð með Sölku eða Funa eða báðum og gef þeim smakk af rjómanum á meðan Slaka reynir að sannfæra mig um að hún drekki alveg kaffi og það er gaman.
Ég fæ samt alltaf nettan móral þegar ég versla inn á þessum stað, bæði vegna þess að það er dýrt og mér finnst synd að vera kaupa drykk af amerískri kaffikeðju.... á Spáni. Svipaður mórall og ég fæ þegar ég fer á Mc donalds,borða og ohhh mórall... af því bara það er svoleiðis.

Þess vegna var ég löngu búin að ákveða að það væri ekkert mál að búa til þennan kaffidrykk .Það var samt ekki fyrr en í gær að ég gerði alvöru úr því. Gerði mér sérferð út í búð til að kaupa karamellusósu og rjóma. Lagaði kaffi hellti mjólk , karamellusósu og kaffinu saman ásamt klaka og mixaði saman. Það var reyndar smá kakó líka af því ég bjó til barna "kaffidrykk" í eftirmat fyrir krakkana (kókómalt með fullt af klökum).
Eftirlýkingin gekk vonum framar fyrir utan að karamellusósan hefði mátt vera meira eins og íssósa en ekki eins og flansósa..beibí ,ég veit.Ég vakti bara til 4 í gær.

Hér eftir verður heimalagaður kaffidrykkur á boðstólnum þegar þurfa þykir þó ég verði að láta mér duga að drekka hann bara úti á palli en ekki í garði...tja nema ég finni ráð við því líka.

Erfitt.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Spes!

Fyrir nokkru áttum við Salka leið í bakaríið.

Hér eru bakarí á hverju horni en við ákváðum að fara í bakarí sem var aðeins úr leið fyrir okkur og selur svo sérstaklega góð brauð og kökur. Brauð með allskyns fræum og fíneríi og kökur og sætabrauð sem maður sér ekki annarsstaðar. Ég sá meira að segja spirulinasmáköku..hún var að vísu þanggræn á litin og ekkert rosalega girnileg en örugglega þeim mun hollari og kannski góð? Flest bakarí hér eiga það nefninlega sameiginlegt að selja nær eingöngu hvít brauð og smjördeigssætindi af ýmsu tagi.

Bakaríið er pínulitið en þar er alltaf nóg að gera og starfsstúlkurnar einstaklega indælar (sem er alls ekki sjálfgefið). Þær brosa svo vingjarnlega og gefa óþreyjufullum börnum nær alltaf smá góðgæti eins og til dæmis litla kexköku eða brauðstöng á meðan þau bíða..en aldrei án þess að spyrja foreldrana fyrst.

Þegar ég hafði borgað og við vorum á leiðinni út missti ég smápening og sá hann rúlla eftir gólfinu. Ég bað Sölku um að rétta mér hann en sá um leið að maður sem stóð í bakaríisröðinni steig ofan á peninginn og dró svo fótinn að sér. Hann hélt að hann væri að gera þetta voða laumulega en ég horfði á hann allan tímann. Hann horfði svo stíft fram fyrir sig á meðan ég velti fyrir mér þessari undarlegu hegðun hjá þessum mjög svo venjulega útlítandi manni (aldrei að dæma fólk af útlitinu). Nokkrum sinnum skáskaut hann augunum til mín eins og til að tékka hvort ég væri ekki að fara en hann hreyfði ekki höfuðið með, bara augun. Það er alltaf svolítið krípí þegar einhver fylgist með bara með augunum, án þess að hreyfa höfuðið og heldur að enginn taki eftir þessu "trixi".

Salka vandræðaðist eitthvað í kringum hann en sagði mér svo að hann stæði ofan á peningnum okkar. Þessi gjörningur mannsins varð ennþá vandræðalegri þegar Salka reyndi að beygja sig eftir peningnum en hann gaf sig ekki. Var ég búin að minnast á hvað þetta var pínkulítið bakarí og það var fullt af öðru fólki?

Ég var svo rasandi hissa að ég sagði Sölku bara að koma..."já en peningurinn"? Skiptir engu...við vonum bara að hann geti keypt sér eins og hálfa möffins, hún hrökkvi ofan í hann og rétt áður en einhver slær í bakið á honum (ég er enginn viðbjóður sem óskar fólki dauða) þá verði honum hugsað til litlu stelpunnar sem hann stal peningnum af og skammist sín!...tja ég sagði það kannski ekki fyrir framan barnið en ég hugsaði það, eða hugsaði ég það ekki? Kannski hugsaði ég bara ekkert af því að ég var svo upptekin við að vera hissa, svo hissa að mér datt ekki í hug að biðja manninn um peninginn.

Karma ég treysti á þig.

laugardagur, 21. júní 2008

Fyrsti í sumarfríi

























































Salka kláraði síðasta skóladaginn á fimmtudaginn.

Hún var löngu búin að velja sér föt til að fara í og glimmerskó af því að þeir glitra svo fínt í sólinni.

Ég (við) er svo stolt af bráðum 5 ára stelpunni okkar sem byrjaði í nýjum skóla á nýju tungumáli og kynntist nýjum krökkum sem voru líka á nýju tungumáli. Fyrst fannst henni það svolítið erfitt eða eiginlega bara mjög erfitt. Það kom tími þar sem hún neitaði að fara í skólann og sagðist ætla að fela sig og í eitt skipti þurfti ég að halda á henni æpandi út í lyftu á meðan ég reyndi að sannfæra hana um hvað væri ótrúlega gaman í skóla.... þó að mig langaði mest til að segja henni að hún þyrfti þess ekkert.

Skólinn var mjög ólíkur því sem hún átti að venjast frá Íslandi. Þau sátu við 4 manna borð og lærðu mikið í vinnubókum, fóru í ensku, tölvutíma og sund en gerðu auðvitað heilmikið annað líka eins og að fara í leikhús, heimsóknir og dýragarðinn. Þetta var svolítið mikið til að byrja með. Ég efaðist oft um að við værum að gera rétt og reyndi meira að segja að hafa hana bara hálfan daginn, sem ég fékk ekki. Fór oft heim með hnút í maganum af því ég hafði skilið hana eftir grátandi. Svo var það einn daginn að hún hætti að gráta þegar við fórum og varð kátari í skólanum með hverjum deginum sem leið. Hún eignaðist bestu vinkonur sem var svo gott fyrir sjálftraustið og varð glaðari.

Nú þegar allt er yfirstaðið sjáum við ekki eftir neinu og trúum því að þetta hafi haft góð áhrif á hana og okkur öll. Skólanum var skipt í 3 annir og eftir hverja önn kom Salka með hnausþykkar bækur fullar af verkefnum annarinnar og teikningum og föndri líka. Þau eru ekkert að grínast þarna í 4 ára bekk ;) Auðvitað er eitt og annað sem við vorum ekki fullkomlega sátt við en það er að mestu eða öllu leyti tengt tungumálaörðugleikum (e.t.v. meira um það síðar ;).

Á föstudaginn áttum við því fyrsta frídaginn saman (fyrir utan Bjarka sem er ekki komin í frí).
Ljúfur dagur sem innihélt auðvitað róló, ís á meðan Funi svaf (sorrí Funi), sandkastalagerð í skugganum í garðinum og heilmikið rölt þar sem Funi strauk öllum vespum og mótorhjólum á leiðinni.

í dag var meiri róló, hádegismatur með Bjarka,við Salka í sandkastala og fígúrugerð meðan Funi svaf og svo leikið ótrúlega skemmtilegri dótabúð í allavega klukkutíma þegar Funi vaknaði...spennandi ég veit, en það var gaman í alvöru!

Í kvöld er svo hátíð Sant Joan þar sem svakaleg flugeldasýning og partý frameftir nóttu eru meðal þess sem í boði er. 'Í búðum og bakaríum er allt fullt af sérstökum Sant Joan kökum sem eru frekar undarlega útlítandi og ekki sérlega girnilegar...líta út eins og sætt brauð með fullt af gervi ávöxtum í ýktum litum, svona grænum , gulum og rauðum. Ég sá síðan auglýst cava (freyðivín) 6 flöskur á verði 4.
Þegar ég tala um flugeldasýningu þá er ég ekki að meina eins og um áramótin hér þar sem ég sá tvær rakettur eða ég sá raunar bara eina en heyrði í annari. Þetta er sko alvöru og nú selja þeir flugelda út um allt og ég fékk meira að segja stjörnuljós sem ég fann hvergi fyrir gamlárs.

Nú er bara að gera stjörnuljósin og cavað klárt og njóta dýrðarinnar!

fimmtudagur, 19. júní 2008

2 dagar



































17. og 18. júní voru viðburðarríkir dagar.

Að morgni 17. júní flaug Bjarki til Mílanó á Radioheadtónleika sem ég hefði svo gjarnan viljað fara á, ó já. Ég sé það núna að ég hefði ekki geta sleppt síðustu tveimur dögum í lífi tveggja krakkalakka, það var einfaldlega of mikið á seyði.

17. júní fórum við Funi að horfa á Sölku í síðasta sundtímanum hennar. Það var svo gaman að sjá hvað hún var glöð og örugg. Fyrr um morgunin hafði sagt við mig að ef að Funi yrði eitthvað hræddur(man ekki af hverju) þá myndi hún bara segja honum frá því þegar hún byrjaði í sundi. Fyrst var það erfitt og hún grét stundum en núna var það bara gaman. Henni fannst alls ekki auðvelt að fara í sund fyrst og vildi helst hætta og stundum hugsaði ég með mér að kannski væri það réttast. Þess vegna fannst mér sérstaklega gaman að sjá hvað hún naut sín vel í síðasta tímanum og hvað hún var stolt. Hún ljómaði þegar hún sá okkur. Hoppaði óhrædd út í, svamlaði um og dýfði höfðinu nokkrum sinnum í kaf til að sýna okkur hvað hún kynni (henni hefur alltaf verið mjög illa við að fá vatn í andlitið).
Funi vildi helst af öllu taka þátt í fjörinu og hoppa út í til hennar. Ég mátti hafa mig alla við að halda honum á mottunni meðan ég tók myndir og dáðist að hvað Sölku hafði farið fram. Í eitt skiptið náði hann meira að segja að komast að bakkanum án þess að ég tæki eftir því og það mátti engu muna að honum tækist ætlunarverk sitt og stykki ofan í. Eftir það varð hann að láta sér nægja að hrópa til hennar af bekknum hátt og snjallt: "Sakkaaa, Sakkaaa"!!

Eftir skóla löbbuðum við í mat til vina og lékum langt fram á kvöld í góðum félagsskap.

18. júní sýndu börnin í skólanum hennar Sölku söng og dansatriði sem var svo fínt að ég táraðist (svo meyr, ég táraðist líka þegar yngri krakkarnir voru með atriði og ég á ekkert þeirra ). Ég náði ekki alveg nógu góðum myndum, þurfti aðeins að passa upp á apaköttinn sem vildi auðvitað taka þátt í þessu atriði eins og sundinu ;) Ég náði samt fínu videó sem er ennþá betra.

Öll börnin voru í hvítu að ofan og gallabuxum að neðan. Fyrst sungu þau lag um allskyns hjóðfæri með mjög leikrænum tilburðum sem allir tóku fullan þátt í. Svo dönsuðu þau svo fallega, dans sem Salka hafði sýnt mér að þau væru að æfa, já og líka kennt mér hann.
Þetta var svooo fínt.

Eftir sýninguna léku krakkarnir sér aðeins í skólanum, þá fékk Funi að vera með og það var eitthvað sem hann kunni vel að meta. Hann leyfði stelpunum að dröslast með sig um allt, fór í eltingaleik, skoðaði dótið og fann fullt af flottum bílum sem reyndist erfitt að slíta hann frá. Ég held hann sé tilbúin að fara á leikskóla.

Til að toppa gleðina skelltum við okkur á bílaróló (eins og Salka kallar hann) og hittum þar fullt af krökkum úr skólanum. Salka hljóp og ærslaðist nánast allan tímann, fór í eltingaleik, klifraði upp á borðtennisborð, hoppaði niður og klifraði svo hærra en nokkru sinni fyrr í klifurtrénu, þar sem hún róaðist og sat dágóða stund. Funi skemmti sér líka konunglega, mokaði með krökkunum og kynntist svo 6 ára stelpu sem hét Anna og lék svo fallega við hann. Það var frábært að fylgjast með þeim og heyra hann kalla á hana og kynna hana svo fyrir Sölku sinni: De Sakka, me blomm (þetta er Salka) og svo benti hann á blómin í hárinu hennar eins og til að sýna vinkonunni hvað systir hans væri fín.
Grjónagrautur í matinn og allir glaðir.
Mikið var ég samt glöð þegar Bjarki kom heim um kvöldið eftir frábæra ferð. Það er eitthvað öðruvísi að vera einn heima í öðru landi og helstu áhyggjur mínar meðan hann var í burtu voru að læsa mig úti. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að ég hafi tékkað á lyklunum svona... 205 sinnum á dag og það getur verið ansi stressandi.

Nú eru áhyggjur mínar mun dreifðari ;)

miðvikudagur, 11. júní 2008

Fuglaflensa

Ég er búin að vera með fugla á heilanum í þónokkurn tíma.
Glansmyndir,styttur,seglar,myndir,bækur, póstkort... ef það er fugl á því vil ég helst taka það með mér heim. Það er samt ekki alveg sama hvernig þeir eru eða hvaða tegund. Ég hef líka komist að því að ég er eiginlega meira fyrir þá á myndum en í raunveruleikanum.

Einu sinni var ég að taka mynd af fullt af dúfum uppi í tré og fann þá eitthvað volgt renna niður beran handlegginn...það var ekkert spes. Öðru sinni stóð ég undir rafmagnslínu og fékk einn volgann á ermina. Það var eiginlega skárra. Salka og Funi voru að gefa dúfunum fræ um daginn og ég ætlaði að rétta þeim meiri fræ þegar dúfa kemur fljúgandi og ætlar að fá sér beint úr lófanum mínum. Ég fann fyrir klónum og goggnum. Mér fannst það eitthvað óþægilegt.. eða ég skrækti reyndar, kippti að mér hendinni og hló svona taugaveiklunarhlátri (eða meira svona vá hvað mér brá og vá hvað ég ætla aldrei að gefa þeim beint úr lófanum). Salka þorir því samt.

Bjarki lenti svo í afar einkennilegu fuglsatviki. Hann var að labba í rólegheitunum þegar það datt egg beint fyrir framan hann. Leit upp og sá þar hvar dúfa sat á þakskeggi og hristi á sér stélið. Hún hafði þá verpt eggi....hefur kannski þótt hann föðurlegur.
Um daginn stóð ég og horfði út um eldhúsgluggann þegar ég sá Máv uppi á þakinu á húsinu á móti. Mér sýndist hann vera að brasa í einverri tusku en við nánari skoðun sá ég að "tuskan" var dúfa. Hann hristi hana til og frá og tætti í allar áttir. Viiiðbjóður. Svo komu vinir hans alveg "hey hva ert að brasa, gemm mér líka" og þá flaug hann með hræið í kjaftinum og allir hinir á eftir honum "minn,minn,minn".

Við vorum svo í garði einhvern daginn þar sem við gáfum m.a. öndunum brauð og dáðumst af krúttlegu andarungunum sem syntu eins og litlir hnoðrar á eftir mömmum sínum. Krakkarnir voru að missa sig af gleðinni og Funi hefði skellt sér út í til þeirra ef pabbinn hefði ekki komið í veg fyrir það. Allt í einu segir Bjarki "Æii"...þá hafði hann séð Mávskratta taka einn lítinn unga. Ég var fegin að krakkarnir sáu það ekki en ég var líka fegin að sjá það ekki sjálf. Ég verð alltaf svo brjáluð ef ég verð vitni af svonalöguðu. Ég hefði örugglega reynt að grýta hann með einhverju sem hendi væri næst , sem væri líklega Funi en ég myndi nú ekki nota hann, bara stein eða eitthvað..sem hefði auðvitað gert mig svo miklu betri en mávinn. Ég sagði að ég hefði verið fegin að sjá ekki ósköpin, annars er aldrei að vita hvað hefði gerst.

Aldrei verið hrifin af þessum mávum sem hlæja eitthvað aðeins of kvikindislega fyrir minn smekk.

Einu sinni (já alltaf einu sinni..) var ég með Sölku niður við tjörn þegar ég sá marga, marga steggi ráðast að einni önd. Þeir voru ótrúlega grimmir, hópuðust að henni bitu og króuðu hana af til skiptis..vægast sagt mjög óþægilegt að horfa á. Ég var alveg rasandi og spurði einhvern mann sem stóð þarna hvort hann vissi af hverju þeir hegðuðu sér svona (ókei kannski fáránlegt að spyrja hann en ég meina kannski var hann fuglafræðingur eða alvitringur). Það stóð ekki á svari, hann sagði að hún hlyti að vera eitthvað veik og þeir væru bara að atast í henni vegna þess að þannig væri nú bara gangur náttúrunnar og eitthvað svona bla,bla.
Ég gaf nú ekki mikið fyrir þessa skýringu ,þrátt fyrir að hafa kinkað kolli kurteisislega. Mér sýndist frekar um hópnauðgun að ræða svo þegar "leikar" bárust upp á bakkann ákvað ég að stugga við þessum dónum. Danglaði í þá með fætinum, sagði nokkur vel valin orð og henti í þá bananabitum, já ég gerði það. Það skrýtna var að þeir ætluðu aldrei að láta sér segjast en gáfust upp á endanum.

Salka er ekkert skemmd eftir þetta...ég hef aldrei séð hana sparka í önd (henni myndi auðvitað aldreiii detta það í hug) eða henda í þær bananana, enda var hún örugglega svo upptekin að gefa góðu öndunum brauð á meðan mamma hennar framkvæmdi bráðnauðsynlegt inngrip í "gang náttúrunnar".

laugardagur, 7. júní 2008

Séð og heyrt

Um daginn sá ég Funa á fjórum fótum að reyna að bíta í parketið. Heyrði sjálfan mig segja: "jæja nú hlustum við á Mozart for beibís og leikum í little Petshop"...sem við gerðum.
Ég sá Funa horfa á Dýrin í Hálsaskógi og leggjast á kodda þegar "dvel ég í draumahöll" kom..það er einmitt alltaf síðasta lagið fyrir svefninn.
Sá Funa sofna í fanginu mínu á leiðinni úr matarboði.
Sá hann standa upp á stól og heyrði hann kalla hátt og snjallt á pabba sinn" Bjakkiii, Bjakkii..é uppi"!(alltaf fyndið að heyra börna kalla foreldra sína með nafni). Heyrði hann svo apa upp nöfn á öllum sem ég bað hann um að nefna.
Ég sá hann líka halla undir flatt, kíkja á mig og heyrði hann segja : Hææjjjj

Í gærmorgun sá ég Sölku liggja sofandi upp í rúminu sínu með eina eðlu í fanginu og aðra sem lá við hliðina á henni, aðeins of raunverulega útlítandi. Ég heyrði hana svo segja mér að önnur héti Kolla María og hin héti Rósa María (spánarnöfnin farin að hafa áhrif á nafnaval).
Ég sá bananabita sem var alvarlegur á svipinn.
Ég sá mann teyma mótorhjól með smergli aftan á til að brýna hnífa og heyrði hann blása fast í panflautu til að vekja athygli eigenda bitlausra hnífa.
Ég sá svo fínar blúndugardínur í glugga.
Ég sá bók sem mig langaði að eignast.
Ég sá mann og heyrði hann segja "Hola guappa" þegar ég labbaði framhjá.
Ég sá konu og heyrði hana segja mér að við værum í eins leggings og þær væru "la bomba"
Ég sá fjölmenna kröfugöngu í götunni minni þegar ég var á leið út í búð. Ég heyrði mann hrópa slagorð í gjallarhorn og fólkið taka heilshugar undir.
Ég sá Sölku alveg upp við andlitið á mér þegar ég opnaði augun í morgun og heyrði hana segja: "það er stóri dagurinn í dag"! (Afmælisveisla bestu vinkonu hennar í skólanum)
Ég sá trúð í barnaafmæli í garðinum og heyrði Sölku spyrja áhyggjufullri röddu: "Af hverju vill fólk hafa trúða í afmælunum sínum"? Heyrði sjálfa mig svara: "Sumum finnst trúðar bara svo skemmtilegir" en langaði mest til að segja : '"Ég hef ekki hugmynd um það...sumum finnst bara rosa gaman að horfa á eitthvað virkilega óþægilegt og finnst góð hugmynd að pína aðra til þess sama í afmælinu sínu"!

Séð og heyrt ...gerir lífið skemmtilegra.

miðvikudagur, 4. júní 2008

"Já nei,nei"

Ég var að muna hvað Oasis er viðbjóðslega leiðinleg hljómsveit.
Það er tónlistarstöð í sjónvarpinu hér sem heitir Fly music og spilar alla jafna mjög góða tónlist...svona svipað og var spilað á Alternative Nations á Mtv fyrir löngu..veit ekki hvort sá þáttur sé en í gangi.

Jæja Fly music er prýðisstöð og um það bil það eina sem ég nenni að horfa á í spænsku sjónvarpi..ég veit mamma,æfa mig í spænskunni og allt það en stundum get ég bara ekki þessa dramatík, rifrildi, handapat, niðurhnepptar skyrtur, gljáandi bringur og risabrjóst í öllum sápuóperunum. Fyrir utan kunnuglegu þættina sem eru nánast án undantekninga döbbaðir með grátklökkum kvennmannsröddum (þó það sé ekkert sorglegt að gerast..bara alltaf grátklökkar og dramatískar) og speedi Gonzales eða mjög svo djúpri og seiðandi karlmannsröddu.
Þá er gott að geta horft á myndbönd sem innihalda ekki gull, glansandi bíla sem hoppa, glansandi píur sem...já hoppa stundum líka, freyðivín og fuuullt af peningum sem rignir yfir aðalgaurinn sem slær takktfast á dillandi bossa sem eru í óðaönn að þrífa bílinn hans með löðrandi sápu.

En já ég var að tala um Oasis vibbann..ég hafði semsagt nýlokið við að horfa á gömul grunge myndbönd, þar á meðal Nirvana myndband og sagði upphátt:"ha,ha vá bara alveg eins og fyrir 10 árum"!.. Hætti að hlæja þegar ég fattaði að það voru meira en 10 ár síðan..nær 15. Mundi hvað ég dýrkaði Nirvana á tímabili, tók upp allt sem kom um þá á Mtv og safnaði á spólu. Meðal annars órafmögnuðu tónleikunum sem ég og við vinkonurnar horfðum á þar til spólann var við það að bráðna í tækinu.Mig langaði að vera eins og Kurt Kobain og keypti mér meira að segja peysu á Kolaportinu á 50 kall, sem ég taldi mér trú um að væri ótrúlega lík þeirri sem hann var í á unplugged tónleikunum ...jú hún var græn og reyndar v-hálsmáls en ekki mikið meir. Notaði hana ýkt mikið..bæði á réttunni og röngunni (mar var bara svo flippaður).

Þegar ég horfði á myndbandið rifjaðist upp hvað þetta grunge tímabil var mikið hjartans mál.Ég bjó til aðra eins safnspólu með Pearl Jam, horfði á þetta endalaust á milli þess sem við hlustuðum á Soundgarden, Stone temple pilots, Smashing Pumkins og annað eins...já það er erfitt að vera úlli með prinsipp. Það mátti sko ekkert hlusta á eitthvað píkupopp og rapp það var= dauði. Ég hélt mig við þessa reglu óvenju lengi en er blessunarlega laus við svona tónlistarþröngsýni í dag, þó það örli nú á henni endrum og eins.

Þetta byrjaði allt þegar ég var 11 eða 12 ára og skrifaði á græna naf naf pennaveskið sem amma gaf mér með svörtum tússpenna...Guns'n Roses BEST. Ég átti svo í stöðugri baráttu við sjálfa mig og krabbaði marg oft ofan í b ið og breytti því í v og öfugt...man hreinlega ekki hvort varð ofan á, giska á BEST. Hlustaði á plöturnar hans Frissa og vangaði við "Don't Cry" í bekkjarpartýum íklædd risastórum Levis stuttermabol af Frissa, rúllukragapeysu undir og splunkunýjum Levis 501 sem ég hafði klippt upp í skálmarnar. Jebb ég var heppin að það þótti töff að vera í stórum fötum..peysu af pabba sínum eða bróður, jakkafatavesti yfir, rúllukrakapeysu undir og auðvitað Levis klippt upp í. Verst að ég gat ekki komist upp með að vera í vinnufatajakkanum (með appelsínugula fóðrinu) hans Frissa...mig langaði líka alltaf í grænan en ekki svartan.

Það sem átti að verða níður um Oasis er nú orðið samhengislaust þreytubull og ég er ekki en farin að koma mér að efninu. Allavega það kom syrpa með Oasis lögum á eftir Nirvana og þá rifjaðist líka upp fyrir mér hvað ég þoldi ekki þessa hljómsveit.."hata" er kanski aðeins of sterkt orð en "þoldi ekki" er líka aðeins of veikt. Ég hafði mjög sterkar skoðanir á þessari hjómsveit og ég var svo ánægð hvað ég var samkvæm sjálfri mér þegar ég fékk velgjuna upp í kok við það eitt að horfa á þessi montprik (sem héldu án gríns að þeir væru arftakar Bítlanna) jarma viðbjóð í alltof hátt stilltann míkrófónstand svo "Lingam" gæti haldið áfram að láta rigna upp í nefið á sér með hendur fyrir aftan bak.

Hvaðan kemur þessi óvinsemd?...ég sem er alltaf svo vinsamleg, tek myndir af blómum og dásama "ó já" hluti. Innbirgð unglingareiði?

Kannski ég ætti að skipta græna teinu út fyrir róandi heytuggu eða bara gras..iii djók.

sunnudagur, 1. júní 2008

"Ó já"!

Að sitja í almenningsgarði í sólskini og drekka ískaffi með rjóma og borða bláberjamuffins á meðan Funi leikur sér...þegar hann er búinn að hjálpa mér að borða, halda uppi samræðum við eldri konu og getað svarað með fleiru en jái, neii og ég skil ekki brosi, lesa bók úti á svölum meðan Funi fær sér extra langan blund, sjá loksins eðluna sem á heima í holu undir handriðinu á pallinum og skíra hana Emilio Rosa (Salka var himinlifandi og sagðist hafa séð "hendurnar" hennar), andlit í umhverfinu, boccha, hvernig Funi segir áííí og kallar tómatsósu "tom tom", cocoloco ís, gamalt krúttlegt fólk í svo fallegum fötum en ég þori ekki að spyrja hvort ég megi taka mynd, myndakassar (helst með 4 mismunandi myndum), litrík blóm á svölum, litrík blóm allstaðar, avókadó á brauð, bókamarkaður þar sem enginn var að afgreiða..borgar bara í peningakassa eftir stærð bókarinnar, allskonar markaðir, hvít rúmföt,vintage tölur (fatatölur), silkiborðar, litlar búðir með skrýtnu og skemmtilegu dóti, hvernig Funi segir "smjör", mynstraðar flísar, hringekjur, kjólar í barnastærð sem ég vildi að væru til í fullorðinsstærð, glansmyndir, kirsuber,stutt ferðalög, blómstrandi tré, bullutextar Sölku, sushi, hlæja þangað til tárin leka, veggjalist,hnattlíkön og landakort (en betri ef þau eru gömul), taka myndir,naglalakk, uppblásin sundlaug á svölunum, grjónagrautur í hádeginu og pönnukökur bakaðar úr restinni af grjónagrautnum...á bíkiníi (við búum samt ekki í hjólhýsi;), freyðandi súkkulaði,Salka óskar mér til hamingju..með hvað? Með að vera besti kokkurinn! Ókei, ég trúi henni ekkert endilega en ég tek því að vera besti kokkurinn þann daginn í augum matvands barns, hvað Salka elskar hunda og reynir alltaf að klappa þeim laumulega þegar hún labbar framhjá .

Þessa dagana fær allt þetta og fleira til, mig til að brosa, hugsa og stundum segja hátt og snjallt .."ó, já"!

Eða bara "jesss"!
Fyrir utan að sakna vina og ættingja extra mikið einmitt núna þá er annað sem ég hef tekið eftir að vanti í líf mitt. Það er gras. Það er ekkert rosalega mikið gras í Baxe..jú, jú almenningsgarðar og grasbalar hér og þar,sem má yfirleitt ekki ganga á en ekki heilu túnin. Ég veit svolítið fáranlegt en mig langar bara að finna lyktina af grasi.
Ég ætla að vera rosa fyndin og segja að ég finni reyndar oft lyktina af grasi en ekki alveg því sem ég hafði í huga...þannig að ef einhver gæti verið svo væn/vænn að senda mér eins og eina tuggu þá yrði ég svo glöð og segði örugglega alveg : "Jesss"!!