föstudagur, 29. febrúar 2008

Spennt!


Þessi mynd af þeim frænkum er í dálítlu uppáhaldi hjá mér.
Þegar Salka vaknar í fyrramálið verður þessi uppáhalds líka mætt á svæðið og Salka er ekki að trúa því. Áðan valdi hún fílatannbursta í stíl handa þeim. Emilía, Birna og mamma hennar Birnu ætla semsagt að kíkja við um helgina. Það verður eflaust mikið gaman.
Í tilefni af því og sólinni skellti ég inn myndum sem þið megið skoða...þetta er dálítið mikið af myndum þar sem ég kann mér illa hóf en samt er þetta bara brot af þeim ;)

Síðasti dagur febrúarmánaðar í dag...sjáumst í mars!

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Byssa á bakka
















Þið hafið kanski séð þetta áður.
Þetta er tekið af spjallþræðinum á barnalandi.is. Þetta byrjar þannig að kona af barnalandi biður um hjálp við að skrifa orðið "virðingarfyllst" á ensku, en hún er semsagt að skrifa bréf.
Konan sem er hjálparþurfi skrifar:
"Hvernig segir maður "kær kveðja" ...... á ensku sorrý er ekki klár í henni og er að senda út til uk vegna gallaða dótsins
"Hún fær svör,þakkar fyrir sig og skrifar:
'" Ókei takk æðislega ég er geggjað slöpp í ensku sérstaklega að skrifa hana getiði sagt mér án þess að drulla yfir mig hvort að það sé hægt að skilja eitthvað af þessu bréfi hehe
Svo lætur hún bréfið fylgja með:

Hello i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray
I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorerand this toy are maid in China 2002-2007.
One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and thebig one I think in Iceland but I am not sure made 2003.
Are something wrong this toy or?????What can I do??Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????
I hope you can anther stand what I am writing And thank you
Respectfully .XXXXX
Einum notenda á barnalandi.is finnst þetta greinilega ótrúlega fyndið og ákveður að þýða bréfið hennar beint yfir á íslensku !

'Halló,
Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka.
Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóralandkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.
Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.
Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????
Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa.

Ég rakst á þetta á netinu í gærkvöldið og ég hló svo mikið að tárin láku og ég pissaði næstum í mig! Las þetta nokkrum sinnum og hló bara meira í hvert skiptið. Ég veit ekki hvort það er útlegðin,svefngalsi, svefnleysi eða hvað en ég hlæ í hvert skipti sem ég hugsa um þetta. Svona til að vera alveg viss um að þetta væri fyndið las ég þetta einu sinni en áður en ég fór að sofa og vitið menn..pissaði í mig...eða svona næstum því og grenjaði aftur af gleði. Ég vakti Bjarka svo þegar ég kom hlæjandi inn í rúm, röflandi um byssu á bakka og þjónustustúlku í Kína.

En þú, komu tár?

mánudagur, 25. febrúar 2008

Meeeeeee

















Á mánudagsmorguninn sat ég á rúminu hennar Sölku og var að hjálpa henni að finna til föt og greiða henni fyrir skólann.

Henni varð litið á mig og sagði svo einlæg og hissa: "Mamma ég hef aldrei séð þig svona í framan...þú ert eins og kind!"

Spurning um að fara aðeins fyrr að sofa.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Luftballon

Ég sótti Sölku í skólann á föstudaginn, ekki í skólann hennar heldur unglingaskólann eins og hún
kallar hann. Það var nefninlega hátíð í skólanum (en ekki hvað?) og yngri krakkarnir fengu að heimsækja þá eldri og fagna með þeim..hverju veit ég ekki en það er alltaf gaman að fagna.
Þegar ég gekk niður götuna að skólanum var það fyrsta sem ég hugsaði... "af hverju er ég ekki með myndavél"? Það var svo flott að sjá fullt af krökkum og fullorðnum standa fyrir utan skólann með hvítar gasblöðrur. Krakkarnir komu svo eitt af öðru út um skólahliðið máluð í framan með bros á vör og með hvíta blöðru bundna utan um hendina. Auk þess var Salka með stjörnubangsa bekkjarins sem heitir Stells og krakkarnir í bekknum skiptast á að passa um helgar. Nú var komið að henni að passa og hún var auðvitað yfir sig ánægð með það.

Á leiðinni heim vildi Salka losa blöðruna af hendinni og stakk svo upp á því að sleppa henni upp í himininn. Mér leist nú ekkert á þá hugmynd og reyndi að telja hana ofan af henni. Salka var hinsvegar alveg ákveðin að prófa þetta og taldi einn,tveir og þrír og sleppti svo bara blöðrunni. Ég rétt náði að grípa í bandið og "bjargaði" blöðrunni við lítinn fögnuð Sölku sem var ekki sátt við þessa afskiptasemi. Hún ákvað að prófa aftur og ég sagði henni að nú mundi ég ekki bjarga blöðrunni og til að leggja en frekari áherslu á orð mín setti ég hendur í vasa. Salka taldi aftur einn, tveir og þrííír og sleppti blöðrunni. Í þetta skiptið sveif hún upp í bláan himininn og við fyldumst með henni minka og minnka eftir því sem hún sveif hærra og hærra og aftur óskaði ég að ég væri með myndavélina...það var bara svo fínt að sjá hvíta blöðruna fljúga í rólegheitunum og himininn svona fáránlega fallega bláan í bakgrunn. Salka sagði með spenningi í röddinni:" svo kanski kemur fugl og tekur í bandið á blöðrunni í munninn sinn og flýgur með hana aftur til mín! "Já ,kanski sagði ég en mér finnst samt líklegra að við sjáum blöðruna aldrei aftur". Salka breytti um svip, varð þungt hugsi og við héldum áfram að ganga heim. Ég var dálítið leið yfir að hafa skemmt drauminn hennar og benti henni á hvað blaðran væri komin hátt. Hún var ekkert ánægð með það og sagði bara með fýlusvip að þetta væri hundleiðinlegt. Ég stakk þá upp á að kanski væri blaðran á leiðinni til Íslands. Það leist henni betur á og bætti við að þá myndi Emilía kanski finna hana og koma með hana til hennar þegar hún kæmi í heimsókn. Við lýsum því eftir hvítri gasblöðru sem á stendur Patufeit og Pau.. ef þið sjáið hana á sveimi þá endilega kippið henni með ykkur. Við fórum svo á leikvöllinn þar sem Salka hitti nokkra bekkjarfélaga. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með henni leika við spænska krakka...þau spegla hegðun hvors annars, fara í eltingaleik og hlæja mikið. Um daginn fórum við á bílaróló eins og Salka kallar hann og hún hitti tvo skólafélaga sína. Þeir kepptust við að skemmta henni og vera fyndnir, létu sig detta, hoppuðu og klifruðu fyrir hana. Kölluðu hvor í kapp við annann Salka mira, mira (sjáðu) og gerðu svo eitthvað ótrúlega flott. Salka skemmti sér konunglega, tók fullan þátt í gríninu og sneri þeim svo í hring í gormadekkinu.En og aftur var mér hugsað til myndavélarinnar sem gleymdist heima..stundum vildi ég óska að ég gæti tekið mynd með því að blikka augunum... þá myndi ég ekki þurfa að dröslast með myndavélahlunkinn með mér hvert sem ég færi auk þess sem ég mundi ná öllum skemmtilegu augnablikunum, því ég er jú svo fljót að blikka.

Á laugardaginn létum við svo verða af því að skella okkur til Tarragona. Ferðin tók tæpan klukkutíma með lest og við vorum betur undirbúin en oft áður, tókum mat drykk og bækur til að stytta systkinunum stundir. Þegar til Tarragona kom röltum við um og skoðuðum það sem fyrir augu bar. Við höfðum reyndar gleymt að fletta upp merkum stöðum til að sjá og vorum ekki með neinskonar kort af staðnum en skoðuðum þá bara það sem varð á vegi okkar og enduðum svo á ströndinni. Þá var reyndar komin smá þoka en það kom ekki að sök og Salka reif sig stax úr sokkabuxunum og boraði tánum á sér í sandinn. Funi gekk um, veltist og skreið eins og ormur allt í bland og hafði sjaldan komist í aðra eins skemmtun. Systkinin blönduðu svo geði við systur á ströndinni sem voru svo góðar að lána þeim skóflur, fötu og allskyns form. Bjarki hafði lagst á teppi sem við höfðum verið svo sniðug að taka með og ég ákvað að gera það sama. Ótrúlega ljúft að liggja og hlusta á öldurnar, mávana og skipsflautu einhverstaðar í fjarska... eða alveg þangað til ég fékk væna gusu af sandi yfir hausinn, inn í eyrað, augað, hársvörðinn og bara allstaðar. Þetta fannst Funa svakalega fyndið og mér reyndar líka þannig að honum fannst óhætt að fara strax að sækja meiri sand. Sandurinn var eins fínn og hveiti og ég varð að gera mér að góðu að vera með hann pikkfastann í hársverðinum....mér var nær að ætla að slaka á. Þegar við höfðum leikið okkur nóg tókum við lestina til Baxe og fórum beint í matarboð til kunningja. 7 fullorðnir, 6 börn, þjóðarréttur Venezúela sem tók sólarhring að malla, mikið spjallað og mikið fjör. Þegar við héldum heim á leið rétt eftir miðnætti voru öll börn sofnuð ,nema okkar sem voru en í fullu fjöri og 13 ára unglingurinn sem furðaði sig á hverskyns börn þetta væru nú eiginlega.

Bjarki og Salka komu mér svo á óvart í dag með því að færa mér túlípana og kökusneiðar sem þau höfðu valið í tilefni af konudeginum. Ég elska túlípana og mér finnst kökur góðar.

Ljúf helgi.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Alveg ókeypis


Fyrir jól ákváðum við að reyna að ná skemmtilegri mynd af systkinunum til að setja í jólakortin.

Ég sótti myndavélina, stillti krökkunum upp og bað Bjarka að skemmta. Bjarki sótti blöðru sem er yfirleitt mjög vinsæl skemmtun. Einn tveir og þrír..Bjarki byrjaði að blása og börnin horfðu spennt á. Hann blés og blés og blés og... pang!! Blaðran sprakk með miklum hvelli. Systkinin hrukku í kút, ráku upp skaðræðisvein og grétu svo hátt í kór og ég.. já ég tók mynd ;)

Annars, í beinu framhaldi af hlátur umræðu fékk ég óvænt senda námskeiðislýsingu frá Manni lifandi. Þar segir:

Hláturjóga er aðferð sem þróuð er af indverska lækninum Dr. Madan Kataria. Í hláturjóga er oftast hlegið í hópi, alltaf án tilefnis, án þess að brandarar séu sagðir eða fyndnar sögur.
Hláturinn er vakinn með skemmtilegum leikrænum æfingum og með því að horfast í augu verður hláturinn fljótt eðlilegur. Enginn vandi er að stunda hláturjóga án þess að vera í hópi.
Hláturjóga er sambland æfinga og jógaöndunar. Það byggist á þeirri vísindalegu staðreynd að hvort sem hlegið er vegna ytra áreitis eða af innri hvötum þá bregst líkaminn eins við og jákvæð áhrif á hann verða þau sömu. Að stunda hláturjóga er því hollt fyrir líkama og sál og hin besta skemmtun um leið.

Það kostar auðvitað eitthvað á þetta námskeið og einmitt þess vegna ætla ég að láta þessi myndbönd fylgja..alveg ókeypis.






sunnudagur, 17. febrúar 2008

Endorfín?

Suma daga er maður uppfullur af orku, framkvæmdargleði og bjartsýni en aðra daga er maður ekki eins uppveðraður...eiginlega bara andlaus. Svoleiðis er ég einmitt núna.

Á laugardaginn höfðum við ætlað okkur að fara til Tarragona en þar sem Funi var uppfullur af hori og slappleika ákváðum við að fresta ferðinni fram á næstu helgi. Við fórum því út sitt í hvoru lagi. Fyrst fór Bjarki í bæinn í buxnaleit en svo fór ég að versla inn fyrir súpuboð sem við ætluðum að hafa á sunnudeginum. Ég var nú ekkert sérstaklega vel upplögð í það að versla í matinn..mér er nú ekkert vel við það yfir höfuð, mér finnst ég bara ekkert sérstaklega góð í því. Kaupi bara alltaf það sama og yfirleitt það sem er til nóg af heima og geng svo utan við mig í hringi í búðinni,yfirleitt að hugsa um eitthvað allt annað en innkaupin. Bjarki er hins vegar mjög góður í þessu og kaupir akkurat það sem vantar hverju sinni og meira sniðugt til. Segjum bara að ég sé góð í því að gera góð kaup á öðrum vettvangi en matarmarkaðnum.

Ég labbaði sumsé ein af stað í leiðangur. Fyrst gekk ég framjá litlu veitingahúsi og heyrði þaðan skellihlátur...innilegan frá hjartanu og ég varð strax léttari í spori. Ég hafði tekið með mér myndavélina og var í óðaönn að mynda handrið,gluggasillu eða eitthvað álíka þegar ég heyrði aftur skellihlátur frá öðru fólki í góðum félagsskap. Ég hélt för minni áfram á markaðinn en þegar ég gekk litla götu á leið minni þangað heyrði ég skellihlátur í þriðja sinn,í þetta skiptið kom hann úr einu íbúðarhúsinu. Þá hugsaði ég með mér að þetta hlyti að vera góðs viti að heyra gleðihlátur allt í kring um sig...ég var þá komin á markaðinn og nema hvað, hópur af fólki stóð ofar í götunni og hló svona líka hátt og innilega. Fjórum sinnum..það er bara eins og fjögurra blaða smári hlýtur að vera, þvílík endemis lukka! Mér gekk líka einstaklega vel að kaupa inn, allt gekk smurt. Keypti svo sushi í matinn og þegar draumalandið kallaði á krakka, kallaði sushi og ískalt hvítvín á foreldrana..hvað er betra?

Á sunnudeginum buðum við íslensku pari og tveimur dætrum í súpu og möffins. Það gekk vel og við sátum á spjalli fram eftir degi. Þegar boðinu lauk var ég samt eitthvað svo andlaus..skildi bara ekkert í því og Bjarki var með sömu tilfinningu. Hugsaði með mér að parið hefði kanski stolið allri orkunni okkar og hefði svo komið endurnært heim..svona er ég klikk..en samt aldrei að vita.
Ég settist í sófann og ákvað að reyna að hressa mig við með því að prjóna eitthvað sem ég veit ekki enþá hvað verður. Á meðan ég sat þarna var mér hugsað til hláturmeðferða sem fólk fer í og á að losa um streitu, stress og vanlíðan af öllu tagi og endorfínið flæðir um líkamann. Ég man líka eftir að hafa séð þátt um fólk í Indlandi sem hittist á hverjum morgni og hló saman, fyrst gervihlátri sem þróaðist svo í alvöru skellihlátur. Þar var reyndar líka verið að tala um að gervihlátur geri sama gagn og alvöru hlátur, styrki hjartað komi í veg fyrir sjúkdóma og ég veit ekki hvað og hvað. Það sakar ekki að prófa hugsaði ég.
Ég byrjaði að hlæja lágum gervihlátri..hahahaaa.
"Hmmm hvað segiru "?Heyrðist í Bjarka inni í eldhúsi..."varstu að hlæja"? Ég: (hikandi) Uuuu, já (vissi ekkert af honum)...svo gat ég ekki annað en hlegið alvöru skellihlátri.

Svei mér þá ef ég er ekki bara allt önnur!

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

"Þú ert bara lítill!"


Þegar Salka er að rökræða við pabba sinn meira í gríni en alvöru og hún er orðin uppiskroppa með tilsvör þá endar hún oft á því að segja "þú ert bara lítill"! Það finnst henni eitthvað það mest móðgandi sem hún getur fundið upp á án þess að vera mjög dónaleg. Það að vera álitin lítill er glatað í hennar augum og ef maður vill skjalla hana leyfir maður henni óspart að heyra hvað hún er þung og hvað hún sé búin að stæækka roosalega..allar buxur séu bara að verða allt of stuttar (alveg satt en þær eru reyndar sumar fyrir 2-3 ára). Þá verður hún svaka glöð.

Við höfum f
arið á óteljandi rólóa í borginni og þar af leiðandi séð ótal spænsk og stundum ekki spænsk börn að leik. Það sem þessi börn eiga mörg hver sameiginlegt er að minna frekar á dúkkur eða álfa en mannabörn. Ótrúlega smágerð með fullt af hári, risastór brún augu og oft klædd eins og litlir fullorðnir á leið í kaffiboð. Við Funi fórum til dæmis á róló um daginn þegar tveggja ára ofurspræk stelpa kom þar með mömmu sinni ...Funi og álfabarnið voru um það bil jafnstór..gott ef hann var ekki bara stærri! Mamma "álfsins" var bara alveg hlessa.

Ég hef líka tekið eftir því að ég gæti auðveldlega talist hávaxin hér miðað við marga, þá sérstaklega eldri kynslóðina. Það hefur oft komið fyrir að krúttleg eldri, kona, maður,vinkonur, vinir eða hjón ganga framhjá mér og ég þarf að halda að mér höndum til að klappa þeim ekki á kollinn í leiðinni...þau hefðu kanski ekki húmor fyrir því?

Konurnar í skólanum hennar Sölku áttu ekki orð til yfir stærð drengsins þegar ég kom með hann með mér í fyrsta skiptið.."er það virkilega... bara eins árs"? Ég reyndi að útskýra að íslensk börn væru frekar stór og ætlaði svo að fara að bæta við að Salka væri nú kanski undantekning, áður en þær sögðu "já ,Salka er nú einmitt frekar stór"! Það eitt segir allt sem segja þarf.

Næst þegar einhver ætlar að gefa til kynna að barnið mitt sé risi þá vitna ég bara í Sölku og segi :

"Hann er ekkert stór... þú ert bara lítill"!!

mánudagur, 11. febrúar 2008

Þjónn!?


Um síðustu helgi vorum við á rölti niðri í bæ og komum við á einhverju torginu þar sem fólk sat á veitingastöðum og kaffihúsum allt í kring og hafði það huggulegt.
Á torginu var líka maður sem gaf dúfunum að borða og tók það mjög alvarlega, hélt á brauðbita, gerði dúfuhljóð til að lokka þær til sín og skammaði börn og fullorðna fyrir að hræða dúfurnar "sínar" frá..þess má geta að maðurinn var vel við skál (róni). Þegar hann hafði lokið við að gefa dúfunum settist hann á bekk og hvíldi sig.
Þá kom ungur maður aðvífandi með bjór í hendinni. Mér sýndist þetta vera þjónn af einu kaffihúsinu eða veitingastaðnum þar sem hann var með svarta svuntu og í ljósum bol. Hélt að hann væri að gefa ógæfumanninum bjórleifar..þangað til ég sá að "þjónninn" var berfættur, svuntan var í raun buxur sem höfðu verið rifnar í tvennt og hengu einhvernvegin utan um hann og þegar hann sneri baki í okkur var hann á nærbuxunum. Hann gekk að ruslatunnunni fann sér brauðsneið og fékk sér bita, því næst tók hann annan bjór upp úr ruslinu hellti yfir í hinn sem hann hélt á og veifaði svo til Sölku sem horfði forviða á þetta allt saman.
"Hvað er í gangi?" sagði hún, "hann tók bara bjór upp úr ruslinu og hellti yfir í bjórinn sinn." "Hvað er eiginlega að gerast í huganum á honum"!!

Já, það er spurning?! Ég var aðallega að hugsa hvernig hún var svona viss um að þetta væri bjór en ekki til dæmis bara..kók?

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

"Kötturinn sem fór sínar eigin leiðir"

Það var þemavika í skólanum hennar Sölku í síðustu viku.

Á mánudeginum áttu allir að koma með kórónu, á þriðjudeginum komu börnin með geviblóm, á miðvikudeginum komu strákarnir með bindi og stelpurnar með hálsmen..það þarf varla að taka það fram að Salka átti ekki í vandræðum með það. Á fimmtudeginum áttu allir að koma með eina doppu á nefinu og eina á kinninni? Á föstudeginum máttu nemendur koma í grímubúningi að eigin vali og farið var í skrúðgöngu um hverfið ásamt eldri nemendum, kennurum, foreldrum og forvitnum vegfarendum.

Ég spurði Sölku hvernig búningi hún vildi vera í og hún var alveg ákveðin í því að vera kisa. Ég ætlaði að reyna að sauma búning og spurði hvort hún væri alveg viss..ég átti nefninlega þunnt blómaefni og bauð henni að vera blómálfur.Kom ekki til greina, kisa skildi það vera. Svört og hvít kisa. Ég byrjaði að sauma og á tímabili leit þetta ekki vel út, þar sem ég braut einu saumavélarnálina mína þegar ég saumaði í gegnum palíettu. Ég hófst handa við að sauma restina í höndunum, þegar ég mundi allt í einu eftir litlu saumavélinni sem ég keypti á 1500 kr. í skranbúð (til þess að reyna að sleppa mömmu við að dröslast með saumavélina mína með sér). Sú saumavél var algjört drasl og ég gat ekkert notað hana en mér datt semsagt í hug að nota nálina úr henni og vitið menn...það virkaði! Ég fylltist auknu sjálfstrausti og ákvað að skella ermum á búningin líka. Salka fór svo alsæl sem svört og gyllt kisa í skólann á föstudeginum. Það flottasta við búninginn fannst henni gat fyrir þumalinn á sitthvorri erminni. Sagðist einmitt hafa óskað sér svoleiðis! Já, já skítt með palíettur, glimmer, tjull og slaufur..göt fyrir þumla eru alveg málið;)

Skrúðgangan var frábær skemmtun og órtúlega gaman að sjá litríkan hópinn hlikkjast áfram undir taktföstum trommuslætti. Skemmtilegast fannst mér að sjá fjölbreytnina í búningum barnanna og greinilegt að margir höfðu lagt mikið á sig til þess að skapa draumabúninginn...Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá fannst mér auðvitað langskemmtilegast að fylgjast með Sölku í skrúðgöngunni en búningarnir voru tvímælalaust næstskemmtilegastir.
Funi "ákvað" að fara sem sjóræningi en þar sem hann neitaði að vera með klútinn minnti hann frekar á Salvador Dalí..sem er auðvitað mun betri búningur.

Annars hefur Bjarki verið með vinnufélaga sér við hlið síðan á mánudaginn. Maggi úr vinnunni hans flaug hingað á föstudaginn ásamt fjölskyldu ( Fjólu, Mikael og Evu).
Börnin þeirra eru á sama aldri og okkar þannig að við vorum eiginlega með tvenna tvíbura en líka tvenn pör af foreldrum.
Við böxuðum ýmislegt og það var líf og fjör á heimilinu.
Funi var svo glaður að sjá Evu að hann tók tímabundið upp nýtt göngulag, setti hendurnar aftur fyrir sig og kjagaði glaður um eins og steggur. Salka byrjaði á því að segja Mikael að einu sinni þegar hún hafi verið lítil þá hafi hún verið að dansa allsber og hún hafi hlegið svo mikið að hún bara pissaði á gólfið! Þar með var ísinn brotinn.
Það eina sem skyggði á ferðina var að myndavélinni þeirra var stolið síðasta daginn :( 'Otrúlegt hvernig fólk getur fengið af sér að gera svonalagað..vonum bara að karmað komi af feitum krafti í bakið á þeim einn daginn og helst sem fyrst.

Nú erum við hinsvegar aftur ein á Sant Lluis og teljum bara niður að næstu gestum.

laugardagur, 2. febrúar 2008

Allir saman nú


Þið verðið að skoða þetta! Líf ykkar mun verða svo miklu betra fyrir vikið..ég lofa.
Ég gæti hugsað mér að dansa alla nóttina við þetta lag og auðvitað mæma með allan tímann!