mánudagur, 18. ágúst 2008

Hva?


Ég veit ekki hvað skal segja.

Þá er örugglega best að segja sem minnst..ég held ég sé engan vegin í stuði fyrir tilfinningablogg frá útlöndum núna. Þó það vanti ekki tilfinningarnar.Ég er með köggul í maganum sem má túlka á ýmsa vegu. Kannski seinna, þegar ég er hætt að snúast í hringi yfir engu og öllu og svitna eins og grís.

Næsta mál á dagskrá :Komast heim....sjáumst þar.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Blaah...




















































































Í dag fórum við líklega í síðasta skiptið á ströndina fyrir heimferð.

Mér fannst allt eitthvað extra fínt á ströndinni í dag..kannski af því að ég vissi að ég er ekkert á leiðinni þangað aftur í bráð. Sjórinn rétt svo gáraðist í smá golu og sandurinn sem þyrlaðist upp af botninum þegar við óðum út í var eins og glimmer. Ég ætla ekki að lýsa því frekar en þetta var einn af þessum dögum sem ég veit ég á eftir að muna lengi, þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd að ég náði að liggja aðeins í sólbaði...nei djók!

Á leiðinni heim í lestinni sagði Salka mér að hún væri ofurhetja. "Nú hvernig krafta ertu með?" spurði ég. Ég var búin að segja þér það..auðvitað hlaupa hratt og fara í handarhlaup (já döh,hvernig spyr ég). Hún er líka búin að sýna mér hvernig ofurhetjur eru á svipinn þegar þær bjarga fólki og hvernig þær hreyfa sig. Svo talaði hún mikið um hvernig hún ætlaði að bjarga hinum og þessum í fjölskyldunni og mér fannst ég svo örugg. Þegar við vorum komin á lestarstöðina okkar beið hún þar til við vorum komin út. Ég leit til baka og ætlaði að fara að kalla á hana þegar hún tók tilhlaup,stökk svo út úr lestinni með tilþrifum og lenti auðvitað eins og ofurhetja! Já hún kann að lifa sig inn í hlutverk. Í síðustu viku var hún harðákveðin í því að hana langaði að vera úlfur til að geta spangólað svona eins og alvöru úlfur og bara gert úlfalega hluti. Ætlaði meira að segja að fara á Þingvelli og óska sér að hún breyttist í alvöru úlf. Hún man mjög sterkt eftir því þegar hún fór á Þingvelli og henti pening í gjánna og óskaði sér að hún myndi stækka og notaði hinn peninginn til að óska sér að Funi stækkaði. Báðar óskir hafa núþegar ræst.Eftir á sá hún smá eftir því að hafa ekki óskað sér hund.
Þingvellir eru hinn eini sanni óskastaður.

Í dag hófst vikulöng hátíð í Gracia (hverfið okkar).Kíktum aðeins út í kvöld og urðum ekki fyrir vonbrigðum með það sem fyrir augu bar..lifandi tónlist út um allt, útibarir og göturnar skreyttar eins og í ævintýralandi. Ég held ég geti ekkert verið að lýsa þessu með orðum..bý bara til sér albúm með myndum;) Í fyrra þegar við komum hingað í íbúðarleit og skemmtiferð, var þessi hátíð einmitt í gangi. Við vorum svo yfir okkur hrifin að við pöntuðum flugmiða heim með það í huga að ná nokkrum dögum af hátíðinni.

Góð ákvörðun það.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Hvar er inniröddin?!





























































































































Við áttum alltaf eftir að fara í sædýrasafnið öll saman.

Salka hafði fengið að fljóta með góðhjörtuðu frændfólki sínu fyrir nokkru síðan en aldrei með okkur. Í dag ákváðum við að bæta úr því , sérstaklega þar sem ég sá einhverntíman að slagorð sædýrasafnsins var: "Ef þú hefur ekki komið í sædýrasafnið,þá hefurðu ekki komið til Barcelona"...mér finnst þetta eiginlega hljóma eins og hótun. "Ef þú gerir ekki eins og ég segi þá ertu ekki boðin í afmælið mitt"!
Jæja, þetta virkaði allavegana á mig. Frekar vandræðalegt að koma heim og einhver spyr: Hvaðan varstu að koma? og ég alveg: nú ,Baxelona og hann alveg já okei,fórstu í sædýrasafnið? Ég: "ööö nei" og hann alveg:"núúú, þá hefuru ekkert komið til Barcelona"! Og þá og ekki fyrr en þá, uppgötva ég að slagorðið var sannleikurinn. Ég læt ekkert fara svona með mig.

Það er alltaf gaman að horfa á allskyns litríka,litla ,stóra og fyndna fiska svamla um í skrautlegu umhverfi.
Ég held samt að engum hafi þótt það eins spennandi og Funa. Engum á öllu sædýrasafninu!Ef einhverjum fannst þetta merkilegra en honum þá var sá hinn sami ekki að láta það nógu sterkt í ljós.
Þetta byrjaði fyrir utan safnið þegar Funi kom auga á Nemobangsa,boli og blýanta í sýningarglugga og drengurinn ætlaði hreinlega að missa vitið!Við þurftum að skiptast á að standa í röðinni því það þurfti alltaf einhver að taka að sér að vera teymdur að glugganum og hlusta á drenginn hrópa uppyfir sig af gleði í hvert skiptið sem hann taldi upp fyrir okkur hvað var að sjá í glugganum . Hann var svo ofurspenntur og hátt uppi að röddin var orðin hálfskræk.
Ekki var gleðin minni þegar inn á safnið kom.Þá æpti hann en meira og hljóp að búrunum þar sem hann stillti sér fremst og hrópaði svo á okkur öll til skiptis...mamma,mamma, pabbi,pabbi, Sakka,Sakka!!! (Hann gefst aldrei upp og hættir ekki fyrr en hann fær viðbrögð,helst mjög sterk viðbrögð) Sjáu og svo setti hann kannski puttann að fiskunum og lék með miklum tilþrifum að þeir væru að bíta hann í puttann..Á, á,á bíta og datt svo í gólfið.

Í minningunni finnst mér ekki hafa heyrst í neinum nema honum..hinir hafa tvímælalaust verið að nota inniröddina. Iss piss innirödd,hvað er nú það?
Eitthvað sem þú lærir að nota á leikskólanum...vonandi.

Hann skemmti sér í það minnsta konunglega ;)

P.s. Nýjar myndir

sunnudagur, 10. ágúst 2008

Það er eins og gerst hafi í gær....











































































Fyrir 5 árum síðan fæddist oggulítil stelpa.

Ég man það eins og gerst hafi í gær...nema það var fyrir 5 árum ;)

Í tilefni af því héldum við smá veislu og gerðum svo allt sem 5 ára finnst skemmtilegt.

laugardagur, 9. ágúst 2008

Afturábak








Þegar ég var unglingur las ég Moggann alltaf afturábak af því þá var ég fljótari að komast að fólki í fréttum og teiknimyndasögunum.

Í seinni tíð hef ég komist að því að ég geri þetta ennþá..ekki moggann en greinar eða eitthvað sem ég er ekki alveg viss um að ég nenni að lesa. Þá byrja ég aftast eða stundum í miðri grein og les afturábak og svo enda ég oftast á að byrja á byrjuninni og lesa allann textann aftur. Annað sem ég stend mig að aftur og aftur er að lesa fyrirsagnir vitlaust. Eftir Verslunarmannahelgi var Bjarki að lesa eitthvað á Dv.is og ég leit yfir öxlina á honum og las.."Fékk flösu í höfuðið".. ert ekki að djóka sagði ég hlæjandi "hvurslags frétt er þetta eiginlega" svo ætlaði ég að fara segja eitthvað meira þegar Bjarki greip fram í fyrir mér glottandi..Ööö Kolla og ég fattaði um leið hvað klukkan sló og dó úr hlátri. Mér til varnar þá eru fréttirnar með svo fáranlegum fyrirsögnum upp á síðkastið að ég trúði þessu alveg og átti jafnvel von á að það stæði:-myndir fyrir aftan.
Ég held ég sé með athyglisbrest.

Annað spes:Bjarki var að útbúa hafragraut einn morgun fyrir nokkrum dögum (engar áhyggjur ég kann alveg að gera hafragraut líka). Allt í einu kallar hann á mig og ég skynjaði í röddinni að það gæti hugsanlega eitthvað verið að..af því að ég er með sjálfvirkan raddgreini í heilanum, ég veit ótrúlega næm;). Ég kíkti inn í eldhús og sá hann horfa rannsakandi ofan í pottinn. "Komdu og sjáðu" sagði hann og sýndi mér grautarskeiðina. Ég þurfti ekki að rýna lengi til að sjá PÖDDU á skeiðinni og aðra í grautnum og svo aðra og aðra, já og aðra og aðra. "Uuu, hvað er í gangi"? var það eina sem mér datt í hug að segja. "Þetta er bara svo lífrænt mjöl sagði hann...ég fann eina um daginn líka en er þetta ekki soldið mikið"? "Júúúú þetta er SOLDIÐ mikið" sagði ég um leið og mér var hugsað til pöddugrautsins sem við höfðum borðað morguninn áður,tuff. En ég meina hann var lífrænn svo það hlýtur að koma út á það sama. Engar áhyggjur gestir þetta er ekki sami grauturinn og þið fenguð að borða,við geymdum pöddugrautinn alveg spes;)

Við erum annars í óðaönn að pakka öllu draslinu okkar niður og reyna að koma íbúðinni í sama horf og þegar við tókum við henni..m.a. reyna að muna hvar allar misljótu myndirnar og kertastjakarnir héngu og við földum inn í skápum. Það er einhvernveginn allt í rúst og út um allt og ég nenni ekki að stíga ofan á smádót og föt í öðruhverju skrefi þegar ég arka um íbúðina og pakka óskipulega niður úr hillum og skápum en ég er heldur ekki að nenna að taka þetta drasl upp.... Er eitthvað þema hérna? Mamma yrði ekki ánægð með mig. Það er óneitanlega skemmtilegra að koma sér fyrir og gera fínt heldur en að pakka öllu niður aftur.Við erum samt nokkurnvegin búin að pakka öllu nema því allra nauðsynlegasta og hvað ég verð fegin þegar við verðum búin að alveg öllu .

Í morgun setti Bjarki fullan kassa af dóti sem við ætlum ekki að taka með okkur, út við gám og vá hvað einhver hefur orðið glaður! Ég var búin að vanda mig við að raða öllu fallega svo sá heppni upplifði sig ennþá heppnari þegar hann sæi glitta í jólaskrautið okkar og annað fínt. Á morgun setjum við meira svona til að dreifa glaðningunum á fleiri heppna.

Við Salka höfum meðal annars verið að hlusta og horfa á þetta í dag og líka öll hin lögin með henni.
Gleður mann svo mjög ;)

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Góð ráð en ekki dýr





































Ég keypti mér tvær bækur um daginn.

"60's og 70's fashion-vintage fashion and beauty ads" sem innihalda auglýsingar frá því tímabili. Svona á að gera auglýsingar segi ég. Það er alveg hægt að gleyma sér í litadýrðinni og fegurðinni, svo ekki sé minnst á textana sem gera vöruna enþá söluvænlegri..namm allt svo mikið augnakonfekt. Ég meina slagorð Jesus jeans eins og nafnið sé ekki nóg "thou shalt not have any other jeans but me"... hafa örrugglega mokselst í suðurríkjunum og víðar.

Ég rakst svo á eitt ofsa fínt ráð í 70's bókinni. Þetta var sítrónuauglýsing og er hér lauslega þýdd: "Þegar amma þín var ung voru þurrir og grófir olnbogar miður falleg sjón á fallegri stúlku. Það eru þeir en. En það sem amma vissi ekki er að sama fegrunarráðið sem hún notaði til að fá hár sitt til að glansa, virkar líka á olnbogana. Það er hressilega ilmandi sítrónan sjálf. Frískandi. Árangursrík. Og full af góðum efnum sem koma frá jörðinni, ekki tilraunastofu. Prófið ferska sítrónuskrúbbið okkar og þið vitið um hvað við erum að tala. Skerið bara ferska Sunkist sítrónu í tvennt og stingið sitthvorum olnboganum ofan í helmingana í nokkrar mínútur á meðan þú lest eða horfir á sjónvarpið. Náttúrulegur safinn mun hjálpa til við að mýkja þurra og grófa húðina..gerir það auðveldara að skrúbba hana burt. Olnbogarnir verða silkimjúkir.
Hið eina sanna sítrónuskrúbb í næstu matvöruverslun. Sunkist.

Ég gat ekki annað en prófað og olnbogarnir hafa sjaldan verið mýkri svei mér þá!

Annað húðráð sem ég las líka í bók (er ég ekki gáfuð hef allan minn fróðleik úr bókum).
Það er semsagt að blanda saman 1 msk. af salti, 2 msk. af ólífuolíu og 1 msk. af hunangi (helst seigfljótandi og ekki of þunnt) olían og hunangið gefur húðinni raka. Blanda þessu öllu saman í litla skál og hræra í mauk. Það var líka stungið upp á því að blanda 1-2 dropum af ilmolíu (sem ég átti ekki), til dæmis virkar fenníku eða piparmyntuolía örvandi til hreinsunar og bæta meltinguna (þessi fróðleikur er fengin úr bókinni en ekki mér persónulega ;). Ég uppgötvaði reyndar að klukkan var orðin 3 eftir miðnætti þegar hér var komið en ég var byrjuð og þá var ekki aftur snúið. Ahh nóttin notarlega. Síðan átti maður að láta renna í þægilega heitt bað og liggja þar í 10 mínútur til að leyfa húðinni að mýkjast. Svo berðu blönduna á útlimi með þéttum , mjúkum hreyfingum. Gefðu sérstakan gaum að fótum, hnjám og olnbogum því þar er helst að finna harða húð..iii eins og ég sé ekki búin að setja sítrónu á það allt saman. Síðan læturu blönduna skolast burt í baðvatninu og þar með dauðar húðflögur. Loks þurrkarðu þér vandlega og berð venjulegt rakakrem á allan líkamann. Ég tímdi reyndar ekkert að bera rakakrem yfir fíneríið því þegar ég steig upp úr baðinu var ég eins og úr Destinys child, húðin var svo glansandi fín og ég svo endurnærð!

Ég mæli með því að allir prófi þetta því nú eru góð ráð ekki dýr!

miðvikudagur, 6. ágúst 2008

Best í heimi

Íslendingar borða ss pulsur (já ég segi pulsur), eru hamingjusamastir í heimi og alltaf jafn hissa ef einhver veit ekki hvar landið er eða hvort það er til á annað borð.

Tökum andköf ,teljum upp hreina vatnið ,Björk, náttúruna og ef fólk hristir ennþá hausinn gefum við skít í það og bölvum þeim í hljóði fyrir að hafa ekki hundsvit á landafræði já og lífinu sjálfu. Ef fólk hefur hinsvegar eitthvað fallegt um land og þjóð að segja er það umsvifalaust orðið að félaga sem við kunnum eitthvað svo ógeðslega vel við.

Ég var einmitt að tala við mann um daginn og var að reyna að útskýra fyrir honum (á lélegri spænsku) að sjónvarpið á Íslandi væri ekki talsett heldur textað og þess vegna lærði fólk frekar að tala ensku heldur en ef allt væri "döbbað". "Jaaá bara allt á ensku" segir hann. Ég: "já nema myndir séu á öðru tungumáli og fréttirnar eru náttúrulega á íslensku. Ha, íslensku ...eru þið með sér tungumál ...já auðvitað sagði ég hlæjandi af vitleysunni en fattaði svo að auðvitað væri það ekkert ólíklegt að við værum ekki með sér tungumál og töluðum bara ensku eins og hann hélt fram. Hann bað mig svo um að taka dæmi og ætlaði ekki að trúa þessu máli..spurði hvort það væri ekki bara fullt tungl og ég að tala afturábak.

Um daginn fórum við svo á markaðinn þar sem við rákumst fyrir tilviljun á bekkjarsystur hennar Sölku ásamt foreldrum sínum. Þau stóðu við fiskibás sem seldi meðal annars íslenskan saltfisk og voru að spjalla við afgreiðsludömuna. Mamman ,Carol sem er frá Philadelpiu, skellihló þegar hún sá okkur því hún sagði að afgreiðslukonan hafi einmitt verið að segja henni frá Íslandi. Var meira að segja með mynd af sér á á afgreiðsluborðinu þar sem hún var að veiða fisk á Íslandi. Carol sagði okkur að konan hefði sagt henni að það væru mjög fáar konur á Íslandi vegna þess að þær færu allar eitthvað annað og þar væri mikið af konum frá Indónesiu og að á Íslandi væri mjöög kalt. Konan sagði okkur svo sjálf að hún hafi verið í nágrenni við Akureyri ,ég náði ekki nákvæmlega hvar og það hafi verið 2 stiga hiti..í júlí! Getur passað, við Bjarki sváfum einu sinni í tjaldi í Vaglaskógi í 5 stiga hita..gott ef það var ekki júlí . Svo talaði hún um hvað fólkinu finndist erfitt að búa þarna , meðal annars ein kona sem vendist bara ekki kuldanum og sæi heitari lönd í hillingum (satt). Hún minntist ekkert á Björk og Sigurrós, fallega fólkið eða náttúruna? Skrítið.

Erlendur leikari (ókei George Cloney) var eitt sinn í viðtali þar sem íslenskur spyrillinn biður hann glottandi um að segja sér hver höfuðborg Íslands sé. Hann samþykkir það með einu skilyrði...ef hún geti sagt sér hver höfuðborg Kentuky sé, sem er fæðingarbær hans..uuu glott hverfur.
Ég stóð mig svo að því um daginn að gefa kennaranum hennar Sölku litla bók um Ísland (á spænsku) í kveðjugjöf...bara svona til að sýna henni að við værum ekki núll og nix heldur stórmerkilegur pappír.

Talandi um pappír þá rakst ég fyrir nokkru á grein sem hafði birtst í The Observer um hvers vegna það væri best í heimi að búa á Íslandi, þar hafiði það.

Ekki misskilja mér finnst Ísland mjög svo gott, jafnvel best en það þarf ekkert að þýða að öllum í heiminum þurfi að finnast það sama..þó það væri auðvitað voða gott fyrir sjálfstraustið því Ísland er jú land mitt og fjarlægðin gerir fjöllin svo fallega blá.

sunnudagur, 3. ágúst 2008

Óskalag?

Það er svo gaman að hlusta á Rás 2 um Verslunarmannahelgi og reyndar alltaf (oftast). Þá er verið að segja frá öllu sem er að gerast á landinu og þú færð að vera með án þessa að vera með.

Ég var að hlusta í gær og fékk krakkana til að dansa brjálað með mér við ýmsa slagara. Ég missti mig reyndar aðeins í Gaggó vest, þegar ég tók öll múv sem ég kunni á einu bretti og börnin göptu bara hálfvandræðaleg en samt nokkuð agndofa yfir kunáttu minni og án þess að vera komin á þann aldur að biðja mig vinsamlegast um að hætta. Ég nýtti mér það og reyndi að kenna þeim allt sem ég kann áður en þau fatta hvað ég er ekki kúl. Held samt að þau hafi fattað það alveg sjálf þegar ég í einu stökksporinu dúndraði hendinni á mér í hornið á sófaborðinu...lét auðvitað ekkert á mig fá og kláraði dansrútínuna en handleggurinn ber hennar augljós merki.

Ég tímdi svo ekki að fara að sofa í gær þegar Óli Palli (já hann er besti vinur minn svo ég kalla hann bara Óla Palla;) var með næturvaktina. Fólk var að hringja inn misgóð óskalög og það er svo gaman og íslenskt eitthvað. Vel típsí og hress á því allstaðar af landinu að biðja um eitthvað frábært óskalag í tilefni af hinu og þessu og hvort það megi ekki fá tvö af því bara eitthvað. Eldri dama hringdi inn og sagðist vera heima að fá sér drykk af því að hún hafi verið á Dillon og aðeins ákveðið að kíkja heim en ætli samt aftur út, ungur maður hringdi og sagðist vera að brenna birkigreinar með kærustunni sinni og langi að hlusta á Simon og Garfunkel (hvernig sem það er skrifað), önnur kona hringdi þá inn og sagðist ekkert lítast á það...hún vilji meira rokkk! Svona gengur þetta svo langt fram á kvöld og eiginlega nótt því ég er aðeins á undan í tíma.
Fastagestir(hlustendur) hringja svo alltaf inn og ég sé hvert Jón Gnarr leitar í persónusköpun. Hver öðrum fyndnari og skemmtilegri...það er ekkert hægt að lýsa þeim frekar, bara hlusta. Birgir Guðmundsson Þorlákshöfn hringir svo alltaf traustur inn með kveðju til vina og ættingja og eitthvert vel valið óskalag við. Klassískt.

Nú er ég reyndar ekki alveg eins glöð með það sem ég hef heyrt í kvöld en það er nú kannski vegna þess að ég meika ekki að hlusta á útvarpsfólk sem rennir sér inn í allt sem það segir og setur upp sérstaka útvarpsrödd og lætur einhvern leiðinlegan fróðleik fylgja..."ooog næsta lag er með íslandsvini uuu hann er breskur oooog spilaði í Laugardalshöll í sumar oog þetta er enginn annar en James Blunt" gubb,ég er ekki að búa þetta til og allskonar fleiri vibbi. Talaðu bara venjulega! Iiii nei djók ýkt skemmtilegt.

Nú er bara að bíða eftir næturvaktinni og vona það besta.

laugardagur, 2. ágúst 2008

Upprifjun



































Myndir frá fimmtudegi í Sitges er gestirnir voru hér.
Það var sannarlega góður dagur. Reyndar löðrandi heitt en það er ekkert sem ströndin, ölduhopp, skúlptúrgerð, og kettlingar laga ekki ,svo ekki sé minnst á sjúklega sushi-ið að því loknu.