mánudagur, 28. apríl 2008

Barcamen, la playa og Sant Cugat

Þeir Bjarka vinir,Finni og Jón Ásgeir kvöddu okkur á föstudaginn var og héldu heim á leið eftir afar velheppnaða ferð. Ég held að þeir hafi náð að gera og sjá meira af borginni á 2 og hálfum degi en margur hver á 2 og hálfri viku. Þar af fara á stærsta leik tímabilsins Barce -Man U, keyra um borgina eins og hún leggur sig og sjá það markverðasta á einu bretti, borða tapas, drekka bjór, chilla í Park Guell, borða meira tapas, drekka meiri bjór, fá sér Cava, fara út að borða á klikkaðan sushistað, fara á barinn og síðast en ekki síst láta
veðrið leika við sig allan tímann. Geri aðrir betur!

Það eina sem vantaði kannski upp á var að fara á ströndina en þangað fórum við hin einmitt á laugardaginn. Þar iðaði allt af lífi og það kom mér eiginlega á óvart hversu margir voru á sröndinni og flestir bara á sundfötunum...ég áttaði mig ekki á því þvað væri orðið hlýtt mmm. Ströndin hafði verið skyndiákvörðun hjá okkur þannig að við vorum eiginlega kappklædd svona miðað við flesta en það kom ekki að sök. Krakkarnir misstu sig af gleði. Salka var ekki lengi að fara úr nánast hverri spjör og hoppa dágóða stund í flæðarmálinu. Þegar Funi áttaði sig á hvernig maður labbaði í sandi varð hann himinlifandi og klifraði upp hvern sandhólinn á fætur öðrum á milli þess sem hann tíndi steina og grýtti sandi í allar áttir. Honum fannst líka rosa gaman að fylgjast með systur sinni í flæðarmálinu en leist ekki alveg nógu vel á að vaða út í sjálfur (sem betur fer) Lét sér nægja að hvetja hana og kalla: "Sakka hlaupa, hoppa,hoppa,hoppa"!!.Þegar Salka fékk svo nóg af hoppinu tók hún smá fimleikasýningu en endaði svo í hörkuboltaleik þar sem hún sýndi snilldartakta og kastaði sér í sandinn hvað eftir annað þegar hún fórnaði sér á eftir boltanum. Þau voru því vel sand og sjómarineruð þegar þau fóru í bað um kvöldið.

Sunnudagurinn var svo ekki síðri en þá skelltum við okkur í lestarferð til San Cugat sem er snyrtilegur bær u.þ.b. 25 mínútur frá Baxe. Það var mjög skemmtileg ferð en ég nenni eiginlega ekki að skrifa "kæra dagbók" færslu um það. Ég tók hinsvegar grilljón myndir þar svo ég bíð ykkur að skoða albúmið þaðan þegar það kemur inn ásamt gommu af öðrum myndum.

Hasta luego amigos!

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Fundinn fjársjóður

Eins manns dauði annars brauð..eða kanski ekki alveg svo dramatískt, meira svona eins manns rusl annars fjársjóður.

Þegar ég rölti um markaði, skran eða antikbúðir tekur hjartað kipp við það eitt að sjá góss sem mér líkar og finnst einmitt vanta þann daginn. Þegar ég finn eitthvað sem mér finnst extra fínt, trúi ég vart heppni minni og stend mig stundum að því að líta snöggt í kringum mig áður en ég gríp hlutinn traustataki. Ég hef það nefnilega alltaf á tilfinningunni að allir hljóti að vera að leyta að þessum tiltekna hlut. Raunin er líklega allt önnur og flestum finnst þetta einskisnýtt drasl...ég get bara ekki verið sammála.Verð að vísu að takmarka mig við litla hluti ef ég ætla að koma þeim með mér til Íslands en ég líta bara á það sem áskorun.


Á myndunum er sýnishorn af fundnum fjársjóði.
mynd 1:hjólakarl fundinn á markaði. Ég sá svo endurgerð af honum í búð.
mynd 2. brúðhjónin fögru sem ég hafði hugsað mér að gefa hverjum þeim sem væri fyrstur að gifta sig..efast um að ég tími því og nota
þau líklega á mína eigin brúðartertu.
mynd 3. ég keypti 5 tískublöð frá árunum 1934 1959 og reyndi að setja mynd af fallegu forsíðunum en tókst það ekki...ein opna verður að duga í bili


mynd 4. bollar á 30 kr. stk.
mynd 6 og 7. upprekkt skartgripaskrín sem mamma keypti handa Sölku á markaði.


Auk þessa má ekki gleyma saumvélinni fögru og tinboxinu sem má sjá hér í horninu til hliðar á síðunni. Um daginn fann ég svo 3 hnausþykkar alfræðiorðabækur með frábærlega old school myndum..alveg frítt því ég fann þær við gám. Flokkast kanski ekki endilega undir smáhlut en ef einhver bíður sig fram við að koma í heimsókn og ferja þær heim þá er það velkomið. Ég er svo enþá að hugsa um myndina síðustu kvöldmáltíðina sem ég sá við gám á leið okkar á markað. Ég ætlaði að taka hana á leiðinni heim en vissi ekki af fyrr en við vorum komin heim aftur aðra leið...hmmm

Hér eru annars góðir gestir. Mamma kom síðasta föstudag og verður hjá okkur í 3 vikur. Í gær komu svo Finni
og Jón Ásgeir og strákarnir skelltu sér á Barce Man U. Þeir fara svo heim á morgun.

















Gleðilegan Sumardaginn fyrsta!

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Rímar við pass

Dag einn þegar við Funi vorum á leiðinni heim úr göngutúr og áttum leið fram hjá einu af þeim fjölmörgu kaffihúsum í hverfinu, sá ég eitthvað hvítt út undan mér.
Ég leit til hliðar og það var ekki um að villast, á einum stólnum á kaffihúsinu sá ég beran rass í öllu sínu veldi. Hann var ekki einn á ferð heldur fastur við unga konu sem sat og spjallaði við vinkonu sína. Ekki misskilja mig ég hef oft séð glitta í bera rassaskoru og nærbuxur eða þveng..eiginlega mun oftar en ég kært mig um en þetta var öðruvísi. Það var ekki rassaskora eða þvengur það var allur rassinn og hann sneri út á götu. Það var eins og konan sæti alsber að neðan að fá sér kaffi. Nú hef ég aldrei skilið hvernig það virkar..fann hún ekki sólina verma sér eða goluna leika um berann botninn?

Ég á alveg lágar og þröngar buxur og ég finn alveg ef eitthvað er við það að gægjast upp úr og ég passa einstaklega vel upp á það að það gerist ekki t.d. með því að vera ekki í stuttum bol við...ég hljóma eins og versta tepra sem segi hneyksluð á innsoginu "þetta unga fólk í dag!" í hvert skipti sem sést í bert en mér finnst bara orðið doldið þreytt að sjá allar þessar rassaskorur og nærbuxur, allt í lagi að sýna hold en þetta hold er eitthvað sem ég dreg mörkin við.
Þar sem ég stóð þarna eins og heilagur siðapostuli og hugsaði þessa ræðu mína datt mér í hug að þetta væri algjört Kodakmóment! Eins og það sé siðlegt að taka mynd af rassinum á bláókunnugri konu en svona er ég bara..iðulega í bullandi mótsögn við sjálfa mig. Ég stillti mér upp hinu megin við mjóa götuna og ákvað að þykjast vera að taka mynd af Funa mínum, teygði mig eftir myndavélinni í töskunni..en hvað!? Ég hafði akkurat verið með myndavélina með mér kvöldið áður í annari tösku! Hvenær ætla ég að læra að skilja myndavélina aldrei við mig?

Það eina sem ég hugsaði var: Bjarki á aldrei eftir að trúa mér ,hvað þá aðrir sem ég segi þessa sögu. Þau stimpla mig sem hallæristepru sem hefur ekkert betra að gera en að hneykslast á töff fólki sem veit hvað klukkan slær á meðan hún hefur ekki hundsvit á tísku sjálf.

Jæja skítt með það ég veit hvað ég sá og ég er farinn að kaupa mér buxur sem ég get girt upp í krika..það er töff svo mikið veit ég.

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Gott að meta

Skólaferð á sunnudegi kl. 9... virkar það? Þótt ótrúlegt megi virðast, já!

Salka fékk miða heim á katalónsku þar sem tilkynnt var um þessa ferð og eftir að hafa fengið lauslega þýðingu ákváðum við að sjálfsögðu að fara með. Það var að vísu tekið fram að ef það yrði rigning yrði ferðinni aflýst!? Hvern hefði grunað að spænsk börn væru ekki vatnsheld? Ef það rignir er ekki farið út í skólanum þann daginn og ég hef aldrei séð spænskt barn í regngalla. Íslensk kona sem bjó hérna sagðist eitt sinn hafa farið með dóttur sína út að hoppa í pollunum og drullumalla á róló í regngalla og stígvélum og aðrar mæður (sem áttu leið hjá með börnin sín , því það er ekkert hægt að leika sér í rigningu) horfðu á hana eins og hún hefði girt niður um sig fyrir framan nefið á þeim. Menningarmunur.

Við lögðum af stað í rútuna á sunnudagsmorgninum óvenjuvel undirbúin með fullt af nesti. Smurðar samlokur, ávaxtasafi, kex og núðlur með grænmeti og kjúklingi var meðal þess sem rataði í töskuna. Mér hafði verið sagt af einni mömmunni (hollenskri og þar af leiðandi enskumælandi) að þau legðu mikið upp úr nestinu sínu, kæmu með fullt af mat og auk þess vín til að skola honum niður. Við ákváðum því að leggja svolítið upp úr nestinu okkar en slepptum reyndar víninu..vorum ekki alveg viss svona í skólaferð? Eins og okkur grunaði þó hefðum við alveg geta sleppt því að spá í því þar sem sumir foreldrarnir sötruðu bjór kl. rétt rúmlega 10 úti í skóginum. Með matnum var ekkert eðlilegra en að fá sér hvítvín eða bjór en auðvitað sást ekki vín á nokkrum manni..aftur menningarmunur.

Ferðin var í alla staði vel heppnuð, góð mæting og það var gaman að fara aðeins út fyrir borgina og hitta krakkana í bekknum og foreldra þeirra. Salka fór í þrautabraut í skóginum á meðan Funi brasaði í moldinni, klifraði upp á steina, týndi sprek og fann ýmislegt sem þurfti að kanna nánar. Að þrautabrautinni lokinni breiddum við út teppi (ég sagði að við hefðum verið vel undirbúin) á grasinu og gæddum okkur á fína nestinu...vantaði bara hvítvín. Við vorum hæstánægð með veðrið, sól, örlítinn vind og 17 stiga hita, semsagt fínasta íslenskt sumarveður. Salka endaði á nærbolnum að leika, við flatmöguðum á teppi, nörtuðum í nesti, fylgdumst með krökkunum og blönduðum geði við fólkið. Þegar leið á daginn kom ein af foreldrunum og tilkynnti okkur að þau ætluðu að leggja örlítið fyrr af stað heim vegna þess að sumum væri orðið svo kalt!? Við kinkuðum kolli og brostum þótt við skildum auðvitað ekkert um hvað hún væri að tala...kalt já satt segiru ,17 stig eru náttúrulega ekki manni bjóðandi. Hvorki vatns né vindheldir?

Þeir kunna kanski gott að eta en spurning hvort þeir kunni gott að meta?

föstudagur, 11. apríl 2008

Tilraun dagsins

Um daginn var ég að fá mér avókadó ofan á brauð (smurostur,avókadó,smá salt,smá pipar ..fullkomið). Þegar ég hélt á fína avókadósteininum í lófanum þá datt mér í hug að það gæti verið gaman aðgera tilraun.

Tilraunin fellst í því að planta steinum úr öllum þeim ávöxtum og jafnvel grænmeti sem við borðum. Ég bar þessa hugmynd undir Sölku og hún tók vel í hana. Nokkru síðar minnti ég hana á hugmyndina og bað hana að lýsa henni fyrir pabba sínum. "Já sko við ætlum að setja steinana úr appelsínum,eplum og sítrónum í mold og vökva vel og þá kemur kanski tré með sítrónum...já eða nammitré! Ég hef sko séð nammitré." Við vorum nú ekki alveg á því að trúa henni en spurðum samt nánar út í þetta, hvort það væri þá kanski bara nóg að setja brjóstsykur í mold og þá kæmi brjóstsykurstré og bland í poka o.s.frv.. Það fannst henni mjög góð hugmynd og stakk þá upp á súkkulaðitré.."það er til súkkulaðitré" sagði hún mjög sannfærandi röddu. Við ætluðum að mótmæla þegar við uppgötvuðum að hún væri hugsanlega að vísa í Dóruþátt.
"Já það eru að vísu til súkkulaðitré en það eru reyndar kakóbaunir..súkkulaði er nefninlega búið til úr kakóbaunum" bla,bla,bla..ég vissi að Salka var löngu hætt að hlusta svo ég stakk bara upp á að við gróðursettum smá súkkulaði og sæjum til hvað gerðist. Það leist henni heldur betur vel á!

Ég er eiginlega mjög spennt að sjá afraksturinn.

þriðjudagur, 8. apríl 2008

Fyrst brauð...















Þegar ég var lítil þá óskaði ég mér stundum að eftirréttir og nammi væri matur en matur væri nammi..þá væri miklu betra að borða og ég gæti alveg sleppt að fá mér eftirrétt. Ég vildi ekki skipta í dag, nema stundum þegar ég nenni ekki að fá mér mat að borða en langar kanski alveg í köku. Mér var alltaf kennt að borða brauð fyrst og svo að fá sér köku, geyma það besta þar til síðast. Eins og margt annað hefur þessi "speki" fylgt mér alla tíð síðan ,þó svo að ég hafi alltaf verið ákveðin í því að þegar ég yrði fullorðin þá myndi ég sko gera það sem mér sýndist matarlega séð (ég var nefninlega gikkur í gamla daga). Það er samt ótrúlegt hvað maður er lítið flippaður að þessu leyti og fer samviskusamlega eftir þessu..nema stundum þegar ég held því staðfastlega fram að súkkulaði sé matur. .

Á föstudaginn sóttum við Sölku sem hafði verið í dýragarðinum allan daginn með skólanum. Okkur fannst tilvalinn hugmynd að fá okkur gönguferð og skella okkur svo aðeins á kaffihús svona rétt fyrir kvöldmatarleytið (á íslenskum mælikvarða ekki spænskum). Ekki nóg með það heldur pöntuðum við okkur kakó og crepes með rjóma og súkkulaði..brauð?Neibb ekkert brauð. Að kaffihúsaferðinni lokinni fórum við á markaðinn og keyptum okkur sushi í eftirmat.Þegar heim var komið fengu börnin restina af pulsunum sem við höfðum fryst svo samviskusamlega frá Íslandi. Við Bjarki borðuðum svo sushi og sötruðum hvítvín á spænskum matartíma.
Ég vona að ég hafi ekki spillt börnunum fyrir lífstíð og komið í veg fyrir að þau temdu sér góðar matarvenjur. Salka er einmitt orðin svo samviskusöm að þessu leyti...hún á eflaust eftir að heyra rödd móður sinnar óma í hausnum á sér það sem eftir er: "Salka fyrst brauð svo köku" en vonandi ekki "fyrst köku og svo pulsu". Þá er kanski bara betra að fá sér köku fyrst.

Þegar Salka var lasinn um daginn sannfærðum við hana um að það væri best að vera heima og jafna sig (á meðan gestirnir fóru í dýragarð,sædýrasafn og fleira stuð) með þeim orðum að við værum öll á leið í tívolígarðinn...þegar henni batnaði. Flensuferlið tók lengri tíma en við ætluðum okkur og gestirnir voru farnir þegar við vorum öll kominn í góðann gír. Við ætluðum samt ekki að svíkja loforðið og ákváðum því að láta verða af því að fara í tívolíið á laugardaginn síðasta. Við Salka keyptum okkur miða sem gilti í í öll tækinn á meðan feðgar gerðu sér að góðu að horfa á okkur í salíbununum. Það er skemmst frá því að segja að við skemmtum okkur ótrúlega vel og það kom mér mest á óvart hvað Salka var til í að fara í parísarhjólið með mér. Ég var svolítið kvíðin að hún yrði hrædd svona hátt uppi, minnug þess þegar ég pissaði næstum á mig úr hræðslu og hló tryllingslega í geðshræringu fyrstu nokkra hringina í risaparísarhjóli í París. Salka kom mér algjörlega á óvart og hló allan tímann en bara af einskærri gleði en ekki geðshræringu. Ég var svo glöð að ég gleymdi alveg að vera lofthrædd. Við fórum svo saman í fjölmörg tæki auk þess sem Salka fór ein í lest og klessubílana. Funi horfði öfundaraugum á systur sína þegar hann kom auga á okkur í einni hringekjunni en var samt til fyrirmyndar í alla staði. Hann heillaði dömu upp úr skónum í strætó á leiðinni heim þegar hann heilsaði henni margoft upp á spænskan máta, náði augnsambandi, brosti blítt og leit svo stríðnislega undan. Hann er nú þegar búin að græða kanelsnúð í bakaríinu þegar hann heilsaði afgreiðsludömunni hátt og skýrt með bros á vör. Auk þess er hann er duglegur við það út á götu að heilsa fólkinu í tíma og ótíma og fær þá breitt bros að launum og þó það sé ekki eftirmatur þá er það skemmtilegt alveg eins og Funi.

Ég er í óðaönn að flokka myndir sem ég set vonandi inn fljótlega, hvað sem það nú þýðir..fáið ykkur kanski bara köku á meðan.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Hvað gerðist?

Hvað gerðist?
Það er kominn apríl, gestirnir eru farnir og við erum hér..þó svo að á tímabili höfum við líka verið á allt öðrum og ekki eins skemmtilegum stað.
Foreldrar Bjarka komu hér fyrstir gesta fyrir páskana og voru hér í viku áður en systkini Bjarka, makar og börn þeirra komu í 10 daga. Amma Bjarka, móðursystir og maki gerðu einnig stutt stopp til að vera með í stórafmæli. Mikið gaman og fjör.
Stiklum á stóru: Við borðuðum mikið góðan mat og eftirmat fyrstu vikuna þegar Bjarki og foreldrar hans skiptust á að sýna snilldartakta í eldhúsinu, höfðum það huggulegt saman, fórum í gönguferðir, auk þess sem hjónin voru mjög dugleg að vera sjálfstæðir heimsborgarar sem örkuðu borgina þvera og endilanga alla daga. Við Bjarki áttum líka stefnumót án barna sem var gaman.

Við fórum einnig í eina lestarferð til Figueres sem er fæðingarbær Salvador Dalí. Það var mjög skemmtilegt ef frá er talinn lestarferðin sjálf sem var lengri en við reiknuðum með (2 klst) og Funi var komin vel yfir þreytumörk og öll velsæmismörk ef út í það er farið. Þegar við stigum inn í lestina og Funi var eitthvað að rella (ekkert í líkingu við það sem koma skildi) sagði ung kona um leið og hún sá okkur "you got to be fucking kidding me" í alvöru talað hrópar maður bara eitthvað miður fallegt upp yfir sig á ensku upp í opið geðið á fólki. Við hljótum að vera orðin svaka "spænskuleg". Ég lét hana alveg sjá að ég skildi hana og hún varð mjög álkuleg og þóttist vera mjög upptekin við að troða I podinum í eyrun á sér og horfa djúpt í augun á kærastanum. Ef þú ætlar að ferðast með lest verðuru að vera viðbúin að ferðast með fólki..alls konar fólki ,líka æpandi smábörnum þó það sé viðbjóðslega leiðinlegt þá er það tvímælalaust alltaf leiðinlegast fyrir foreldra þeirra barna, muniði það.
Eftir miður skemmtilega lestarferð þar sem allir fjölskyldumeðlimir höfðu gert sitt besta til að halda dregnum góðum og ég hafði íhugað að hoppa bara út í Girona, komum við til Figueras. Krúttlegur bær þar sem við fundum meðal annars leikfanga safn http://www.mjc-figueres.net/w.mjc-figueres.net/ var akkúrat að loka en ég kom rétt í tæka tíð til að kíkja í safnbúðina og smá á safnið þar sem mig langaði í allt en keypti bara smá. Endalaust falleg gömul leikföng sem gleðja stóra sem smáa, ég er alltof veik í svonalagað. Næst var ferðinni að sjálfsögðu heitið í Salvador Dalí safnið sjálft http://www.salvador-dali.org/li.org/ sem er mest sótta safn Spánar á eftir Prado í Madrid. Það var ekki hægt að fara með kerru inn á safnið svo ég fór í göngutúr um bæinn með Funa sofandi og Sölku röltandi meðan Bjarki og foreldrar hans kíktu á safnið. Þegar þau höfðu skoðað nægju sína kíkti ég á herlegheitin ein og hafði mikið gaman af. Eftir að hafa rölt um safnið var ég algjörlega heilluð af listamanninum. Þvílík fjölbreytni, ímyndunarafl og hæfileikar. Mig langaði að klifra inn í heilann hans og litast um (girnilegt ég veit) eða vera hann í smá tíma,sjá hvernig þetta varð allt til, vita hvernig er að vera hann. Hann lifði líka einstaklega lengi svona miðað við 27 ára regluna eða 1904 - 1989 þannig að hann áorkaði miklu á sinni löngu ævi...mjög miklu.

Leiðin heim var betri við skiptumst aftur á að skemmta herra funheitum með betri árangri í þetta skiptið. Það var sungið, lesið , klappað saman lófunum og fótunum, skoðaðar myndir og hlustað á tónlist í símanum þar til svitinn var farinn að boga af mér og ég klæddi Funa úr sokkabuxunum þó svo að mig hafi mest langað að klæða sjálfa mig úr sokkabuxunum á þeirri stundu.

Daginn eftir kom restin af gestunum. Krakkarnir voru himinlifandi að fá frændsystkini sín og það var sérstaklega gaman að fylgjast með viðbrögðum Funa sem fannst hann hafa himinn höndum tekið að hafa fengið sendan til sín leikskóla ;) Afmælisundirbúningur hófst og við héldum velheppnaða afmælis veislu fyrir Bjarka mömmu. Við eldri dömurnar fórum svo á ótrúlega skemmtilega Bollywood sýningu á laugardeginum. Söngur, leikur en umfram allt dans...þetta var eins og að horfa á karate kid í fyrsta skiptið, mann langaði að kunna að dansa eins og þau, eiga búninga eins og þau og helst að til að flytja til Indlans í leiðinni (hljóma ég áhrifagjörn? Langaði mig ekki að vera Dalí rétt í þessu?)..þau tóku nú reyndar ekki Benny Lava eða Girly man en ég hef aldrei vitað aðra eins stemmningu, salurinn iðaði, áhorfendur dansandi í lokin og hvílíkt uppklapp! Leikararnir/dansararnir virtust hafa svo gaman af því sem þau voru að gera og ætluðu aldrei að geta hætt að dansa..hvort það var af því að þetta var næst síðasta sýningin eða hvort gleðin hafi bara tekið öll völd, veit ég ekki en ég veit að mér fannst gaman!

Síðar um kvöldið áttum við yngri kynslóðin notalega stund á veitingastað meðan amman og afinn pössuðu 7 börn.

Á páskadag fundu börnin falin páskaegg og gæddu sér svo á kræsingunum alla leið frá Íslandi. Þegar hér var komið við sögu var Salka búin að vera veik í 2 daga og við restin af fjölskyldunni lögðumst svo flöt með viðbjóðslegustu flensu sem við höfum á ævi okkar lent í . Sem dæmi er Funi búin að vera svo eftir sig að hann sefur til 11 á morgnanna...ég heyrði svo eitthvað krafs um daginn en þá var það bara Funi að reyna að klifra upp í rúmið sitt til að fara að sofa. "Viltu fara að lúlla"? Jamm segir hann bara í hvert skipti og fer að sofa með glöðu geði, þó svo að hann sé nánast nývaknaður. Ég ætla ekki að lýsa flensunni nánar, bæði vegna þess að það er leiðinlegt að skrifa um hana og enþá leiðinlegra að lesa um hana en hún var í einu orði sagt viðurstyggð. Við vorum því frekar glataðir gestgjafar og ýmis fyrirfram ákveðin plön fuku út í veður og vind. Annars vorum við afar heppin með gesti sem voru sjálfsæðir og skemmtilegir og sáu algjörlega um að skemmta sér sjálfir auk þess að skemmta okkur inn á milli og gefa okkur að borða ;)

Veðrið lék heldur ekkert sérstaklega við gestina okkar og það var kaldara en við eigum að venjast en þau voru sannir víkingar sem létu ekkert á sig fá og klæddu sig bara eftir veðri. Ég talaði annars við konu sem sagði mér að það væri yfirleitt kalt um páskana en strax 1. apríl kæmi sumarið..vitið menn í gær og dag hefur verið einstaklega gott veður, við sjáum til hvort hún hafi rétt fyrir sér með framhaldið.

Þessi færsla var næstum því eins leiðinleg og flensan en ég varð samt einhvernvegin að skrifa hana...þangað til næst adios amigos.