fimmtudagur, 31. júlí 2008

Manstu?

Ég var að hugsa um Póló um daginn.

Ekki bílinn og ekki kexið (en namm hvað kexið er samt gott), heldur drykkinn sem var til fyrir svo löngu, í bláu dósunum. Ég fór stundum í Gulusjoppuna (hverfissjoppan)og fékk að kaupa þennan furðulega drykk sem ég man ekki nákvæmlega hvernig var á bragðið en man samt svo vel hvað mér fannst góður. Drykkurinn hvarf síðan af markaðnum og ég fékk mér Sinalco í staðinn án þess þó nokkurntíman að gleyma Póló. Gulasjoppan var síðar skírð Póló...örugglega til heiðurs drykknum góða.

Þegar ég hugsaði um þennan drykk datt mér í hug annar sem mér fannst góður..Jógi bæði til með epla og jarðaberjabragði og umbúðirnar voru líka svo fínar. Ég renndi svo yfir hitt og þetta nammi og drykkjartengt sem mér fannst gott og líka ekki svo gott í "gamla daga". Skyndilega staldraði ég við eina minningu...tyggjósígarettur! Vá hvað ég man vel eftir þeim og hvað mér fannst spennandi að þykjast púa sígarettu með ilmandi tyggjólykt og bragði í alvörupakka og allt. Ég sá mig fyrir mér í teppalagða herberginu mínu í Snælandinu, sitjandi ofan á dótakassa með útsýni út um gluggann, teljandi bíla í sama lit og reyna að giska í hvaða átt þeir beygðu á meðan ég þóttist reykja tyggjósígarettu.

Hvað varð um þær? Hugsaði ég um leið og ég sá fyrir mér hvers börnin mín færu á mis við í lífinu.
Það er að segja þangað til ég gekk inn í búð hér í borg og rakst á þær! Ilmandi í ýmsum bragðtegundum og mismunandi pakkningum. Við Margrét réðum okkur ekki fyrir kæti og hrifsuðum nokkra pakka eins og þeir hlytu að vera þeir síðustu á jörðinni. Þetta eru reyndar ekki sömu pakkningarnar og ég man eftir en ekki eru þær síðri nema síður sé.

Ég sé það líka núna að ég tími ekkert að gefa krökkunum. Þau verða bara að búa til sína eigin nammiminningar og nostalgíu ;)

Allt eða ekkert er svarið

Gestirnir okkar fóru í fyrradag og ég trúi því varla hvað tíminn leið hratt.

Þegar ég hugsa til baka finnst mér samt eins og þau hafi verið lengur en dagarnir segja til um bara af því við gerðum svo margt. Viljiði stikkorð..ekki, jæja þið fáið þau samt!

Yndislegt veður, Gaudigarður, dýragarður, strandferðir, heimagerðir Mohijtoar, Knapi (ég þarf að kenna þeim sem ekki kunna;), bílferð á milli landa, Andorra, hestar,fjórhjól, fjallahjól, sólbað, sundlaug, spa,boltaland, náttúrufegurð, listasýning, afmæli, kokteilar, setið úti á palli fram á nótt, ávaxtadrykkir,heimsins besta samloka,garðatjill, ping pong og góóóður matur. Já, maturinn var svo alveg kafli út af fyrir sig, mikill metnaður í gangi. Ég ætla þó að láta mér nægja að rifja hann upp í huganummm.

Takk kæru vinir fyrir frábærar samverustundir, þið voruð fyrirmyndargestir í alla staði!

Nú ætla ég hinsvegar að fara að flokka myndir og rifja upp skemmtilegheitin,sem minnir mig á að við fengum okkur eina litla mynavél sem passar svo ótrúlega vel í vasa eða veski,sem ég er svo ánægð með, sem þýðir margfallt fleiri myndir, sem þýðir að tölvan er stúttfull af myndum, sem þýðir að ég get ekki tæmt myndavélina sem þýðir að ég get ekki tekið fleiri myndir sem þýðir að annaðhvort þarf ég að taka færri myndir eða eyða út gommu.
Krap, báðir kostir slæmir en ég er að reyna eyða út...ég tek í það minnsta ekki færri myndir ,fleiri ef eitthvað er!

Uuu já...19 dagar í heimferð svo nú skrifa ég eins og vindurinn um allt sem fyrir augu ber frá og með ekki alveg deginum í dag, heldur kannski bara á morgun ..já,já allt eða ekkert er svarið ;)

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Smá svona eitthvað





































Eins og ég minntist á fyrir... uuu um það bil tveimur vikum erum við með mjög svo góða gesti. Gesti sem gera það að verkum að ég hef ekkert skrifað...sko bara af því að við erum svo upptekin við að skemmta okkur og hafa það gaman saman. Nú eru gestirnir í tívolí sem við fórum nýlega í svo við erum heima á meðan. Er þá ekki tilvalið að setja inn eitthvað smá?

Ég ætla ekki að lýsa öllu sem hefur á daga okkar drifið (enda gæti það orðið svona miður skemmtileg"had to be there" lesning) heldur láta myndirnar um það þegar ég set þær inn.

Mig langar samt að deila nokkrum myndum, já og lýsingum úr 4 daga ferð okkar til Andorra sem var eins og að hoppa inn á póstkort. Við leigðum okkur 9 manna bíl og héldum af stað í ferðalag til annars lands.

Gistum á skíðahóteli í bænum Soldeu, enda er eitt af 5 stærstu skíðasvæðum Evrópu staðsett beint fyrir utan hótelgluggann. Það var auðvitað enginn snjór svo við þurftum að finna okkur annað til dundurs og það var nú ýmislegt. Fyrir utan að flatmaga við frábæra sundlaug með ótrúlegu útsýni,skiptum við liði í allskyns skemmtun sem var of hættuleg fyrir litlu pollana. Strákarnir fóru í magnaða göngu upp í fjöllin ásamt leiðsögumanni, við stelpurnar fórum á hestbak upp önnur fjöll og firnindi þar sem fegurðin er svo stórbrotin að maður gæti aldrei vanist henni. Strákarnir fóru í extreme fjallahjóla ferð niður þverhnýptar brekkur (meira svona fjöll en ég er bara búin að segja fjöll svo oft í þessari umfjöllun;) og þrönga grýtta stígi. Það var víst rosalegt og líkaminn leyfði þeim að finna allsvakalega fyrir þeirri ferð í nokkra daga á eftir. Allir nema Funi fengu svo að prófa fjórhjól en við fórum svo í lengri ferð upp í nema hvað , fjöllin án barna sem Bjarki gaf ís á meðan. Ó já ,svo var 4 hæða spa sem við fengum að nýta okkur eftir allt húlumhæið, tja strákarnir voru reyndar aðeins of fljótir á sér og fóru daginn áður en hjólaferðin átti sér stað (aðallega af því við þurftum að ná að nýta okkur allt sem var í boði á þessum stutta tíma) en við stelpurnar geymdum huggulegheitin þar til síðast. Krakkarnir voru alsælir í mátulega stóru sunlauginni, að ógleymdu boltalandi þar sem allir gátu skemmt sér konunglega.

Fínasta hótel sem ég hef farið á, á einum fallegasta stað sem ég hef farið á...ó já!

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Hárfinnur hárfíni...




Klipping getur verið stórmál.

Þegar ég var yngri kom ég oft grenjandi heim úr klippingu af því að mér fannst hárið sem ég fékk svo ljótt en þorði ekki að segja það við klipparann. Í seinni tíð hef ég lært að segja hvað ég vil eða bara treysta því að klipparinn viti hvað hann er að gera og vitið menn mun færri hártár hafa fallið .
Þegar ég ákvað að láta klippa hárið mitt stutt einhverntíman í fyrra, lá mér svo mikið á að ég gat ekki einu sinni beðið eftir að fá tíma hjá þeim sem ég fer oftast til. Þannig að ég hringdi bara eitthvað annað og fékk bara einhvern?? Þegar ég mætti á stofuna stressaðist ég aðeins þegar ég sá dömuna sem átti að klippa mig. Sítt aflitað hár með hárlengingum (hún sagði mér það), þröng föt,mikil málning ,tyggjó og já hún var eiginlega unglingur...ekki það að það sé það versta en ég hafði bara ekkert sérstaka tilfinningu fyrir þessu. Ég ákvað samt að vera bara opin og huguð og láta slag standa, þetta er nú bara hár. Fékk hárþvott og gluggaði svo í blað á meðan hún byrjar að klippa...ekki glugga í blað á meðan einhver sem þú treystir ekki er að klippa þig .
Til að gera langa sögu stutta endaði ég á að stoppa hana af, já ég gerði það. Hún var ógeðslega lengi og hárið varð bara ljótara og ljótara . Ég endaði með því að segja henni að ég þyrfti að fara að sækja dóttur mína í leikskólann (sem var satt því hún var svo lengi að rugla í hárinu á mér) og ég lét það alveg í ljós að ég væri ekki ánægð með þetta..fékk afslátt.Fór út með matt og ljótt hár..hver fer út af hárgreiðslustofu með matt hár?? Ég fór samt ekkert að grenja þó ég hafi nú alveg haft ástæðu til þess og fann fyrir furðulega lítillar eftirsjá eftir hárkollunni sem lá nú á gólfinu á hárgreiðslustofunni. Hugsaði bara sjitt hvað þetta er ljót klipping og vá hvað ég ætla að látla laga þetta hjá þeim sem hefði átt að klippa mig til að byrja með. Svo þroskuð.

Salka hefur farið tvisvar í klippingu á hárgreiðslustofu. Í fyrra skiptið var hún rétt rúmlega tveggja ára og við fórum á sér barnahárgreiðslustofu þar sem hún fékk að sitja í bíl og horfa á Söngvaborg á meðan hún var klippt. Hún var hæstánægð...ekki ég. Toppurinn var klipptur rosa stutt og restin af honum átti að síkka með í hárið, af því hann byrjaði of aftarlega. Hver samdi regluna um hvað toppar mega vera þykkir? Sú hárgreiðslukona ætti þá að sjá toppinn á Sölku núna, já eða minn. Með þessu áframhaldi byrjar hann aftan á hnakka og það verða svona þunnar lýjur að aftan og svo bara hnausþykkur hrossatoppurinn.

Svo liðu nokkur ár þar til Salka fór aftur í klippingu á stofu og hún þurfti það sætta sig við að mamman tæki verkið að sér og finndi upp á verðlaunum. Loks kom þó sá dagur að ég ákvað að leyfa öðrum að taka verkið að sér. Það var í dótabúð. Ókei ég veit það hljómar illa en þetta er rosa krakkahárgreiðslustofa á neðri hæð dótabúðar hér í Baxe. Klippingin tók um 7 mínútur og Salka fékk sleikjó...ég klippti hann aftur þegar hún kom heim. Ég held ég sé ekki að velja réttu staðina.

Funi greyið fær engu ráðið og þarf að lifa með því að fá klippingu frá mér..eða ekki klippingu. Hann var kominn með hár niður á bak um daginn, ég tók mynd af því þegar ég var búin að greiða það slétt en tókst að eyða henni út. Klippti hann svo ekkert spes og er á leiðinni að laga það.

Það er ekki hægt að vorkenna Bjarka því hann biður um þetta sjálfur. Hann er til dæmis að biðja mig um að klippa sig akkúrat núna. Samt hef ég oft klippt skallabletti og eitthvað rugl... hvenær ætlar hann að læra?

Eini fjölskyldumeðlimurinn sem fer nokkuð reglulega (sirka 6 mánaða fresti) í klippingu á hárgreiðslustofu er ég. Var einmitt að koma þaðan áðan og var bara nokkuð sátt. Ég fékk geðugan en skjálfhentan ástrala til að klippa mig og stóð nú eiginlega ekki á sama þegar hann klippti toppinn blautannn og tók svo upp rakvélina til að eiga við restina af honum. Allt fór þó vel á endanum og ég fór í það minnsta út með glansandi hár.

Þá er þessari heillöngu hárfjölskyldusögu lokið og tími til að snúa sér að öðru, nefninlega góðum gestum.

Við eigum von á svo góðri fjölskyldu í heimsókn á morgun sem á örugglega ekki við nein hárgreiðsluvandamál að stríða. Við erum mjög svo spennt og tókum lokaæfingu af þrifum svona áður en aðalþrifin fara fram þegar við skilum íbúðinni eftir ekki svo langan tíma. Ætlum nefninlega að reyna að láta gestina halda að það sé alltaf ýkt fínt hjá okkur og ótrúlega glansandi..þangað til annað kemur í ljós múhahaha.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Verkefni dagsins

Nýjar myndir vinir, gjöriði svo vel...takið ykkur nokkra daga í þetta verkefni ;)

laugardagur, 5. júlí 2008

Slumma


Salka fann pínulitla pöddu í gær.

Hún var svo spennt, veiddi hana í glas og sýndi okkur sigri hrósandi. Funi var líka voða spenntur, svo spenntur að hann blés á hana og hún týndist. Systir hans var ekki ánægð með þetta uppátæki og skammaði bróður sinn, þangað til ég fann pödduna aftur, Salka varð glöð og sagði hæstánægð: "Hún heitir Slumma og ég ætla að eiga hana"..þangað til hún týndist aftur en þá varð Salka ekkert svakalega reið af því það var hún sem týndi henni. Ég sagði henni líka að við myndum örugglega finna nýja, sem við og gerðum. Salka reyndi að veiða hana í glas en kom rosalega leið og áhyggjufull út úr eldhúsinu og tilkynnti okkur að hún héldi að paddan væri dáin...hún hafi óvart kramið hana. Við reyndum að hughreysta hana og segja að paddan hafi örugglega verið orðin rosalega gömul og alveg að fara að deyja hvort sem er (eitthvað verður maður að segja). Hún trúði því en bað mig samt að fara inn í eldhús og sækja pödduna af því að hún var svo hrædd um að hún yrði reið ef hún vissi að Salka hefði óvart kramið hana. Ég náði að sannfæra hana um að paddan yrði ekkert reið og Salka róaðist og sagði svo í léttum tóni: "Kannski er þetta bara amma þín sem er núna búin að breytast í flugu"... Uuu vonandi ekki.

Við skelltum okkur svo í síðdegisferð á ströndina sem var gaman. Á leiðinni þangað fann ég svo fína safnarabúð þar sem ég lét mér nægja að taka myndir í þetta skiptið en ég veit hvar hún er.

Þegar við fengum okkur kvöldmat trúði Salka okkur fyrir því að hún væri hrædd við trúða (sem við vissum) og stundum leikara eins og á rósadaginn, Sant Jordi þá kom fólk í skólann hennar að leika leikrit og þá hafi hún verið svolítið hrædd. Viðkvæmt blóm ;)

Síðan fór hún að hafa áhyggjur af því þegar hún eignast barn og svo eignast barnið hennar barn og svo koll af kolli..."hvað verðum við þá eiginlega mörg"? Spurði hún áhyggjufullri röddu.."Mig langar bara að eiga heima hjá ykkur þegar ég verð stór" Ég sagði henni að hún væri ekkert að fara að eignast börn strax svo hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Hún sætti sig við það svar...sem betur fer.

Við fundum svo aðra Slummu sem búið er að passa einstaklega vel upp á.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

"Kjúklingur,þú ert ekki vinur minn"!

Ég hafði ætlað mér að skrifa um eitthvað allt annað..eitthvað skemmtilegt en tiltekinn atburður sem átti sér stað í kvöld gerði þau skrif að engu. Þetta er ekki fallegt svo viðkvæmar sálir snúið annað.

Ég hafði keypt kjúklingabringur sem Bjarki ætlaði að elda í kvöldmat. Ég er mjög hrædd við óeldaðar kjúklingabringur svo ekki sé minnst á heilann kjúkling og finnst þetta mjög svo ógirnilegt (eins og reyndar allt óeldað kjöt)...já,já ég veit auli og ég elda ekkert oft eða eiginlega bara aldrei en nú veit ég afhverju.

Þegar kokkurinn var búin að brasa í matnum og ég búin að gera eitthvað rosalega mikilvægt á meðan, átti ég leið inn í eldhús. Á elhúsborðinu stóð skál með afgangi af jógúrtdressingu sem matmaðurinn hafði útbúið. Ég greip gaffalinn sem stóð í skálinni, stakk honum upp í mig, kjammsaði á og tók út úr mér nokkur ómöluð piparkorn meðan ég spáði í þessu fína bragði.
Það var þá sem Bjarki kom og sagði: Ertu að borða þetta?..ekki borða þetta! Ég alveg: "Ha, nei einmitt þetta var soldið sterkt eða þú veist piparkornin" Hann: "Nei Kolla ég var að marinera kjúklinginn upp úr þessu" (hráa kjúklinginn) Ég: nei,nei,nei,sjitt,sjitt,sjitt (af því ég verð að segja allt þrisvar þegar ég panikka).."hvað á ég að gera"? "Verð ég ekki að reyna að gubba"? Svo hljóp ég inn á bað og reyndi að pína mig til að gubba upp dressingunni en það er ekkert grín að reyna að gubba ef maður þarf þess ekki. Ég sótti vatnsflösku og þambaði örugglega 5 risaglös af vatni í einum rykk og reyndi þangað til svitinn bogaði af mér, tárin láku og ég heyrði suð fyrir eyrunum á mér...já og smá gubb. Þetta gekk svona í dágóða stund þar til ég gafst upp og gat ekki meir.

Fór fram og settist við matarborðið þar sem djöfsi sjálfur var á boðstólnum. Ég var með brjóstsviða og illt í öllu andlitinu, kjálkunum og hálsinum af áreynslunni. Fyrir utan það var ég öll bólgin og þrútin í framan eins og ég hefði grátið í 3 daga samfleytt. Ég var samt svöng og Bjarki bauð mér hrísgrjón og grænmeti á meðan ég lét sem ég sæi ekki sökudólg þessa alls, sem starði á mig í smáum bitum af fatinu við hliðina á mér. Mér fannst ég finna Salmonelluna hreiðra um sig.

Ég fletti svo upp salmonellu á netinu og komst að því að nú væri það eina að gera að bíða, því að einkennin gætu tekið allt frá 6 og upp í 72 klst. að gera vart við sig. Ég panikkaði aftur og hugsaði um allt sem ég þyrfti að gera áður en ég yrði viðbjóðurinn skylli á. Hringdi svo í Lyfju en þar vildi konan meina að maður finni einkennin strax . Ég held ég þurfi að gubba...ég hef engan tíma í þetta , það eru að koma gestir, ég á margt ógert eftir að ég fer heim og, og,og,og ...ég ætla EKKI að eyða síðustu vikunum í að jafna mig eftir salmonellusýkingu. Ég held ég þurfi að gubba.

Nú er bara að bíða og vona það besta...sjit,sjit,sit!!!!!!!!