fimmtudagur, 29. maí 2008

Litlu hlutirnir

Einu sinni sátum við á veitingastað, ókei pizzastað og gæddum okkur á dýrindis pizzum.
Þegar ég lyfti glasinu mínu til að fá mér kóksopa rak mig í rogastans.

"Nei ert ekki að djóka"? sagði ég með áheyrslu og undrun í senn.

Bjarki: Nú hvað?

Ég: "Það er eins og það sé andlit á borðinu, þú veist í bleytunni undan glasinu "sagði ég áköf um leið og ég skoðaði brosandi andlitið á borðinu.

Bjarki :"Vá, ég hélt í alvöru að eitthvað rosalegt hefði gerst".

Já það gerðist eitthvað rosalegt..ég sá andlit úr vatni horfa á mig brosandi. Ég hef reyndar oft séð andlit út um allt, alveg frá því að ég var lítil eins og flestir hafa eflaust gert. Bílar eru mismunandi á svipin og hús líka auk fjölda annara andlita hér og þar í umhverfinu.

Héðan í frá ætla ég að taka myndir af öllum óvæntum andlitum í umhverfinu og búa til sér albúm á myndasíðunni okkar, ójá ég ætla sko að gera það.

þriðjudagur, 27. maí 2008

Uppljómun

Ég vann einu sinni með skemmtilegri konu sem stóð á sextugu. Hún leit sátt yfir farinn veg en það var eitt sem hún sá svolítið eftir. Það var að hafa aldrei búið í útlöndum en það hafði hana alltaf langað að prófa. Hún skildi ekki afhverju hún hafði aldrei látið verða af því, hún kynntist manninum sínum frekar seint og eignaðist börn seint miðað við hennar kynslóð svo að hennar sögn var það ekkert sem hefði getað "stoppað" hana. Í staðinn útskrifaðist hún úr háskóla og sökkti sér í vinnu, vinnu sem hún vinnur en þann dag í dag.Ekki að það þurfi endilega að vera slæmt.
Ég hlustaði á hana af miklum áhuga, mig hafði einmitt alltaf dreymt um að prófa að búa annarsstaðar en á Íslandi þó ekki væri nema í smástund. Ég tók því orð hennar mjög alvarlega og sannfærðist enn frekar um að það sem ég hefði í huga væri rétt. Tímasetningin var fín. Við þurftum einmitt að skipta um íbúð og stækka við okkur en í staðin fyrir að kaupa nýja ákváðum við að prófa bara að búa í útlöndum í smástund...bara til að prófa.
Það sem ég er að reyna að segja er að allir eiga sér draum eða drauma...þeir eru misjafnir eins og þeir eru margir en ég trúi því að sé betra að sjá eftir því sem þú hefur gert en að sjá eftir því sem þú hefur ekki gert draumlega séð.Best er að sjá ekki eftir neinu en það er óraunhæft.

Ég á mér allavega nokkra drauma sem en eiga eftir að rætast, sumir stórir en aðrir smáir og ég er að reyna að temja mér þann hugsunarhátt að láta bara vaða. Hvað er það versta sem getur gerst? Það virkar ekki en þú reyndir, en það besta? Það virkar.
Ég krossa fingur.

Tilfinningablogg frá útlöndum? Uuu já,já en það verður bara að hafa það.

sunnudagur, 25. maí 2008

Vegaferð?

Það er einhver stemmning í orðinu "roadtrip" það segir eitthvað svo margt, kanski af því að í öllum bíómyndum eru þær ávísun á eitthvað óendanlega spennandi og skemmtilegt. Hvað er íslensa orðið yfir roadtrip?..vegaferð minnir eitthvað aðeins of mikið á útferð. Allar tillögur vel þegnar því við fórum einmitt í 3 daga ökuferðalag sem minnti ekkert á útferð.

Við byrjuðum á því að skreppa í dagsferð til Sitges með lest en leigðum svo 9 manna bíl í 3 daga til að keyra um Costa Brava strandlengjuna. Okkur langaði að skoða bæi sem væru ekki undirlagðir af búðum sem seldu derhúfur, handklæði og stuttermaboli með nafni staðarins...bara svona litla krúttlega og ekta.Við fundum þá og mikið sem þeir voru fallegir, rólegir fiskimannabæir með pínulitlum ströndum, marglitum bátum.
Við fundum auðvitað líka sveitta ferðamannastaði með neonskiltum, diskótekum þar sem þú færð bol við innganginn og kokteilbar á ströndinni þar sem hattur fylgði með stærsta kokteilnum..það voru allflestir á barnum með hatt. Það var reyndar bara einn svona ýktur staður en hann tók þetta líka alla leið.
Það sem kom okkur hvað mest á óvart var náttúran á leiðinni þegar við keyrðum fjallsvegina...allt svo grænt og fallegt. Í sumum bæjunum skoðuðum við okkur um, dýfðum tánum í sjóinn, fengum okkur að borða eða gæddum okkur á ís á meðan við létum okkur nægja að renna í gegnum aðra. Enduðum ferðina svo á að fara í vatnsrennibrautagarð sem er kanski túristalegt en alltaf gaman...Nema þegar maður er óléttur eða tábrotinn með umbúðir sem mega alls ekki blotna en við Bjarki vorum eitt sinn svo hress að fara í rennibrautargarð einmitt svoleiðis á okkur komin.
Vel heppnuð ferð að baki og þónokkrir staðir sem vert væri að staldra lengur við á og skoða aðeins betur.

Ég gæti skrifað heilmikið um allskyns upplifanir úr ferðalaginu en ég er að spá í að sleppa því í þetta skiptið, finn ekki alveg réttu orðin í dag..læt myndirnar bara tala sínu máli þegar ég læt þær inn seinna ;)

sunnudagur, 18. maí 2008

Allt í sleik

Ég kemst ekki hjá þvi að taka eftir því að fólkið hér er aðeins meira fyrir líkamlega snertingu á förnum vegi en maður á að venjast komandi frá landi elds og íss..aðallega íss ef marka má gegnumgangandi snertifóbíuna. Hér í Baxe ertu ekki ástfanginn nema vera í sleik..alltaf. Ef þú ert ekki í sleik þá er það ekkert að marka.

Það er sama hvar þú ert staddur, allsstaðar finnurðu fólk á öllum aldri í sleik. Ég hef staðið í Metroinu öxl við öxl við dömu sem var í svo innilegum atlotum við manninn sinn að mér fannst ég eiginlega eiga að vera að gera eitthvað..við vorum bara svo náin. Þau kipptu sér ekkert upp við tilvist mína og voru eins og flestir aðrir í þeirra sporum í sínum eigin heimi. Daginn eftir sá ég svo ungan strák gráta svo sárt í lestinni. Fyrst hélt ég að hann væri bara kvefaður, stóð þarna með vasadiskóið (eða eitthvað sem heitir aðeins töffaðra nafni) í eyrunum og saug sífellt uppi nefið. Ég tók svo eftir að tárin trilluðu niður kinnarnar hans og hakan titraði. Hann hafði ekki undan að þurrka tárin og ég fann svo til með honum, fékk alveg sting í magann. Stóð þarna einn og grét svo sárt. Kanski var hann í ástarsorg hver veit en hann var allavega ekki í sleik.

Það er líka rosa fyndið að fylgjast með dramatíska fólkinu...þau eru bara svooo ástfangin að við hin gætum aldrei skilið það. Þau halda þéttingsfast utan um hvort annað í lestinni eða hvar sem er, sárþjáð á svip því það er jú ekki auðvelt að vera svona ógó ástfangin. Á bekkjum , á kaffihúsum, á skólasamkomum, á barnum, í lestinni í garðinum já sérstaklega í görðunum... allstaðar er staður og stund fyrir dramatísk faðmlög og eldheita kossa..

Einu sinni var ég að rölta um hverfið í siestunni og sá nokkra vini vera koma út af veitingastað þeir klöppuðu sér á magann glaðir á svip og kvöddust svo allir með kossi á báðar kinnar og faðmlagi. Þegar þú hittir einhvern í fyrsta skiptið þá heilsar þú honum með kossi á báðar kinnar en ekki handabandi. Það er heljarinnar athöfn þegar hópur fólks hittist og það þarf að byrja á því að kyssa alla þvers og kurs en skemmtilegt finnst mér. Ég hef líka tekið eftir því í skólanum hennar Sölku að börnin eru miklu meira að faðmast og kyssast, tala hátt og tjá sig frjálslega. Hlaupa í fangið á hvort öðru, reka rembingskoss um leið og þau hrópa "bon dia"! (góðan daginn á katalónsku).

Um daginn í eitt af þeim skiptum sem við Bjarki fengum að bregða okkur út þegar amman tók að sér pössun, settumst við á úti kaffihús/bar eftir tékk á miðvikudagskvöldstemmingunni sem er heilmikil. Við sátum þarna í góðu yfirlæti þegar við heyrðum fólkið á næsta borði spjalla saman ...eða meira svona einn gaur vera að halda einræðu um alla skapaða hluti sem upp kom yfir hausamótunum á hinum. Allt saman á ensku eða svona smámæltri amerísku ..svona svipað og Seth Cohen í O.C. talar og margir fleiri í amerískum sjónvarpsþáttum... ég veit ekki hvort þið fattið hvað ég er að meina en þetta er vinsælt. Allavega, gaurinn lét dæluna ganga og við komust ekki hjá því að heyra hvert orð eða allavega annaðhvert orð þar sem við spjölluðum líka sjálf, jú,jú alveg satt. Þetta var svona ekta náungi sem kann alltaf betri útgáfu af sögunni sem þú ert að segja og allt sem hann gerði var svona hundraðsinnum flottara. Fólk byrjar að reyna að taka þátt en gefst svo fljótlega upp því það finnur að það á ekki séns að komast nokkurn tíman að.

Ég fattaði það náttúrulega eftir á að í staðinn fyrir að hlusta á manninn hefði ég bara átt að fara í sleik (ekki við hann samt heldur þið vitið hinn manninn;) Þá hefði ég ekkert þurft að skipta mér af fólkinu á næsta borði og dundað mér greina það eins og einhver týpa sem mig langar ekkert að þekkja. Við hefðum þá líka sloppið við að rugla Sölku í ríminu með því að kyssast fyrir framan hana þar sem að hún heldur að þegar fólk kyssist þá sé það að gifta sig. Við komumst að því þegar hún sá okkur kyssast einhverntíman og sagði brosandi: "Uuu bíddu eru þið að gifta ykkur eða"? Ég: "ég veit það ekki ..erum við að því"? Salka :"Já svona giftir maður sig þannig þá eru þið að því".

Við erum semsagt harðgift og höfum ekki kysst síðan..ég meina hvað á barnið að halda, að foreldrar hennar séu marg giftir hvort öðru?

Hún minnist samt ekkert á öll brúðkaupin sem eiga sér stað úti á götu á hverjum degi.

miðvikudagur, 14. maí 2008

Face!

Þegar ég var að kenna voru ýmsir frasar í gangi hjá krökkunum. Sá sem fór einna mest fyrir var að segja: "face!" í tíma og ótíma við hvort annað (ekki kennarann það mátti ekki). Þetta átti eiginlega að vera svona "in your face" dæmi en þegar krakkar frá 6 ára aldri og upp úr fara að nota þetta á það til að missa marks auk þess sem þau sögðu þetta eiginlega bara við öllu. Stundum komu svo upp miklar rökræður um hvort þú vissir hvað það þýddi að segja "face" (eða meira svona feis) og hvenær ætti að segja það . Einn alveg:"Þú getur ekkert sagt bara feis við mig út af þessu ,veistu einu sinni hvað það þýðir"?...Hinn alveg:"uuu já "Einn alveg:..nú hvað ? Hinn alveg..."uuu ég ætla ekkert að segja þér það ef þú veist það ekki' "Feis"!

Ég er annars í klemmu með svolítið sem á kanski skilt við feis nema það heitir feisbúkk. Ég hef aldrei skilið nákvæmlega hvað þetta gengur út á alveg sama hvað fólk reynir að útskýra það fyrir mér og ekki heldur hitt dótið sem fyrir mér er alveg eins nema sumum finnst það svoo ekki. Þetta er svona hálfgerð gömlukonuklemma, ég held nefnilega stundum að ég ég sé fædd á vitlausum tíma. Er algjör afturhaldsseggur þegar kemur að tækninýjungum...ætlaði eins og ég hef sagt áður aldrei að fá mér gsm, , finnst gaman að gömlu "drasli", elska heklað, prjónað og gamalt handverk, handgerðum hlutum, planta blómum og taka myndir af þeim á meðan flatskjár, króm og tæki með skammstöfunum sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýða gera ekkert fyrir mig. Ég er líka svolítið lengi að treysta fólki og kalla það vini mína. Ég elska samt að dansa og fá mér hvítvín í góðra vina hópi en allt gamalt fólk þarf að lyfta sér upp endrum og eins til að upplifa sig ungt í anda svo það er ekkert að marka.

Þrátt fyrir allar yfirlýsingar mínar um þessi mál ákvað ég kvöld eitt fyrir nokkru að hætta þessu væli og prófa þetta bara...þetta getur ekki verið svo slæmt, ekki lýgur fjöldinn? Ég pikkaði mig hikandi í gegnum þetta með hjálp tölvunarfræðingssins og búmm allt komið í gang ég fékk kjánahroll og þurrkaði svitadropa af enninu um leið og ég setti mynd af sjálri mér á prófælinn. Ég veit þetta hljómar dramatískt en í mínum augum er þetta bara stórmál ef þú trúir einhverju statt og stöðugt og svíkur svo eigin sannfæringu si svona þá má alveg svitna smá en er asnalegt að pæla í því áður en maður fer að sofa? Ég gerði það að minnsta kosti og á tímabili langaði mér mest að hætta með sjálfri mér fyrir að svíkja svona lit. En í staðinn hætti ég með feisbúkk og líður ó svo miklu betur. Við vorum bara ekki að vinna hvort annað upp. Vildi alltaf að ég væri að horfa á sig sig sig og láta mig samþykkja hluti sem ég var engan vegin tilbúin að taka þátt í. Ég fékk bara köfnunartilfinningu og sleit sambandinu í huganum..nú er bara að finna út hvernig ég eyði þessu..örugglega ekki hægt því ég hef hakað í einhverja kassa og þetta er dulbúinn sértrúarsöfnuður.
Það mætti þá spyrja sig að því af hverju ég geti þá skrifað blogg og satt best að segja fannst mér það ekki létt en ég réttlæti það með því að fáir lesi það.

Ég geri mér grein fyrir því að þessi ákvörðun gæti kostað mig vini....ég gæti endað gömul og vinalaus bíðandi eftir því að einhver hringi, komi í heimsókn eða tali við mig í raunheimum þegar partýið verður hjá þeim í hinum heiminum og allir alveg: "feis"! "Þú mátt ekki vera með".


mánudagur, 12. maí 2008

Þá sjaldan maður lyftir sér upp

Mamma fór heim á föstudagskvöld eftir 3 vikna dvöl hjá okkur. Hún kom að sjálfsögðu með ýmislegt góss í farteskinu og 8 kíló í yfirvigt. Hún var orðin svaka klár að rata um borgina og gekk hana þvera og endilanga alla daga með eða án okkar, fór í búðir gerði verðkannanir og keypti allskyns góðgæti sem við nutum góðs af á milli þess sem hún naut sólarinnar og fór kaffibrún heim eins og henni einni er lagið.

Eitt sinn þegar mamma sat úti á palli að sóla sig sagði hún við Sölku í hálfkæringi að kanski ætti hún bara að kaupa sér íbúð í Barcelona. Salka var ekki lengi að bregðast við, spurði fyrst hvort það kostaði ekki marga peninga og þegar amman jánkaði því hljóp Salka inn og kom aftur að vörmu spori með sparibaukinn sinn (hnetudós sem við límdum glanskisumynd á og skárum rauf á lokið) með öllum peningunum sem hún hafði ætlað að nota til að kaupa sér hest. Hún kom sigri hrósandi með þetta út til ömmu sinnar alveg tilbúin að gefa upp drauma sína um hestinn til að amma hennar gæti eignast íbúð á Spáni. Það fannst mér fallegt. Hesturinn er samt enþá á dagskrá þar sem amma tók ekki peninginn ;)

Við vorum einnig svo heppin að fá að prófa nokkra veitingastaði á meðan mamma tók að sér að passa. Það úir allt og grúir af veitingastöðum í hverfinu okkar og auðvitað borginni allri. Japanskt, tælenskt,indverskt,palestínskt er meðal þess sem við gæddum okkur á og vá hvað það var gaman. Alls konar ilmur, krydd og stemmning. Á palestínska staðnum var ótrúlega afslappað andrúmsloft. Ég hef stundum spáð í því af hverju sumt virkar en annað ekki. Oftast eru það litlu kósý staðirnir sem eiga vinninginn með heimilislegri og huggulegri stemmningu á meðan aðrir staðir koma og fara og eiga það margir sameiginlegt að reyna aðeins of mikið. Nýjasta lúkkið í einu og öllu og maður hefur á tilfinningunni að það megi alls ekki setjast á ofurhönnuðu stólana eða færa glösin af hættu við að káma út nýpússað glerborðið. Mér finnst það ekki góð tilfinning og þess vegna var ég að fíla palestínska staðinn extra vel... þjónustan eins og við værum bara í heimsókn, þjónninn í sínum heimafötum og leit ekki út fyrir að vera spá allt of mikið í þeim, maturinn vel úti látin..ekkert fansí framsettur en ótrúlega bragðgóður með allskyns nýjum kryddum og ilmi. Það var nóg að gera á litla staðnum og fólk ýmist borðaði, spjallaði og drakk með bros á vör en flestir allt í bland. Hinir staðirnir voru ekki síðri og áttu allir sameiginlegt að ná þessari góðu stemmningu án þess að reyna of mikið. Skemmtilegast var samt að fara aðeins út saman tvö...það er alltaf gaman.

Hér kom annars mesta rigning
í manna minnum um helgina ...allan föstudag og laugardaginn líka. Maður sem hefur búið hér í 8 ár sagðist aldrei hafa séð annað eins. Við gerðum bara það sem sannir Íslendingar gera í vondu veðri og fórum í mollið aðallega til að leyfa krökkunum að valsa um en komumst að því að það voru fleiri en Íslendingum sem datt þetta ráð í hug þannig að við slepptum því alfarið að reyna að versla. Í metróinu á leiðinni heim blasti við hálfgerður regnhlífakirkjugarður. Þær lágu þarna út um allt skakkar, skældar, berstípaðar og ónýtar eftir veðurbarninginn því það var líka vindur svo þetta minnti einna helst á ekta íslenska haustlægð. Fréttatíminn var svo undirlagður af fréttum af þessum ósköpum en við vonum að þetta hafi bara verið smá djók og sólin og hlýjan komi aftur innan skamms.

Nú bíðum við hinsvegar spennt eftir Frissa bró og fjölskyldu sem koma bara á eftir og ætla að stoppa í 2 vikur jííhaaaa!

Kíkiði endilega á nýjar myndir ;)

föstudagur, 9. maí 2008

Þú mátt það ekki!

Netið datt út hjá okkur í nokkra daga og það var eins og við manninn mælt, mér hafði aldrei dottið eins margt sniðugt í hug til að skrifa og skoða á netinu.
Svona eins og þegar ég var í prófum og fann upp á öllu því sem mig langaði að gera í staðinn fyrir að lesa, meðal annars að taka ógeðslega vel til í ruslaskúffunni í skenknum. Sem ég gerði náttlega ekkert þegar ég var búin í prófum...Þá var allt annað uppi á teningnum. Geymdi ruslaskúffuna bara þangað til ég var ólétt af Funa í bullandi hreiðurgerð á milli þess sem ég þreif gluggana að utan, flokkaði föt í lítil hólf og annað bráðnauðsynlegt til að dregnum ofbiði nú örugglega ekki nýja heimilið.

Þetta kallast öfug sálfræði og ætti að vera flestum kunnug, sérstaklega þegar sniðugir foreldrar nota hana á börnin sín..."þú mátt ekki borða þetta grænmeti"..."jú víst ég ætla að borða það" ."Nú jæja þá en þú mátt alls ekki borða það allt."

Ég hef reyndar ekki verið að nota þetta á Sölku af því að hún á það til að kafa ansi djúpt í hlutina. Hún mundi vilja vita í smáatriðum hversvegna í ósköpunum hún mætti ekki borða þetta grænmeti..eitthvað sem er ekki þess virði að fara út í svo aðferðin kolfélli um sjálfa sig. Funi gæti samt orðið fórnalamb aðferðarinnar því þegar við bönnum honum eitthvað færist hann allur í aukana og reynir að gera sem mestan skaða áður en hann er fjarlægður af vettvangi.Virkar líka á mig, eins og þegar Bjarki er að fara að sofa þá tilkynnir hann það og spyr um leið hvort ég sé ekki að koma...jú,jú alveg að koma, en um leið fer eitthvað af stað í hausnum á mér og ég fer að hugsa um alla hlutina sem ég þarf að gera áður en ég fer að sofa. Ég segi að ég sé að koma en kem svo ekki fyrr en miklu seinna. Bjarki veit þetta en samt segir hann aldrei:"Ég er að fara að sofa og þú mátt það ekki"! Þó svo að hann hljóti að vita að það er það eina sem virkar.
Ég er samt með ó svo svo sterka kenningu um að ég sé B manneskja.. eiginlega B - þannig að ég virka einstaklega vel seint á kvöldin og jafnvel inn í nóttina en þeim mun verr á morgnanna. Ég hef tekið eftir að það er einn nágranni hér á móti sem er á sama máli. Það er alltaf kveikt hjá honum þegar allir hafa slökkt og sofa svo þegar það er slökkt hjá honum þá veit ég að ég þarf að fara að sofa.

Á þeim tíma sem netið var ekki tengt komst ég að því hversu mikill tímaþjófur það er..ekkert nýtt en ég kláraði næstum að prjóna peysu sem ég byrjaði á í september. Ég segi næstum því af því að ég rakti smá upp því ég var komin í svo gott sjálfstraust að mér fannst ég hlyti að geta prjónað hnappagatastykkið betur.Get reyndar ekki kennt netinu um það .Frekar ég sem þurfti kennslu í að gera hnappagöt og fleira prjónatengt sem ég kann ekkert. Kláraði líka að flokka myndir og setti inn. Þær ættu að koma innan skamms.

Loksins þegar ég komst á netið gleymdi ég öllu því skemmtilega sem ég ætlaði að segja og gera. Það er alltaf svoleiðis, um leið og þú mátt það þá verður það einhvernvegin minna spennandi.
Ég ætla að biðja Bjarka um að segja mér að ég megi alls ekki skrifa á þessa síðu..þá fyrst fer eitthvað að gerast!

mánudagur, 5. maí 2008

Einu sinni var...

Það var einu sinni strákur....
Sem fermdist fyrir 18 árum.
Sem elskaði að borða
Sem var með sítt hár í tagli og greiddi sér ekki.
Sem hlustaði á Stone Roses og Happy Mondays.
Sem borðaði yfir sig af slátri þegar hann var tveggja ára, gubbaði og borðaði það aldrei aftur.
Sem stelpu fannst töff af því hann var með skegg og sítt hár.
Sem eldaði svo góðan mat að stelpunni fannst engin ástæða til að keppa við hann.
Sem hefur átt sömu kærustuna í að verða 12 ár!
Sem hefur átt sömu börnin í að verða 5 ár og 1 og hálft ár.
Sem afmæli í dag (eða gær ef ég náði ekki að skrifa fyrir miðnætti ) og fór á ströndina í 26 stiga hita...sorrí en hann gerði það og við öll ;)

Til hamingju með afmælið elsku Bjarki , þú ert hetjan okkar!

fimmtudagur, 1. maí 2008

Góður draumur?

Draumar eru eitt það skrýtnasta sem ég veit. Draumar og dejavu. Undarlegt að finnast eins og þú sért að endurtaka einhvern atburð og hugsa á meðan: "þetta hefur gerst áður". Jafnvel þótt það gæti ekki hafa gerst áður? Ég var einu sinni í leikhúsi og fékk dejavu, hvernig getur það verið?
Draumar eru svona líka, allt í einu getur mann dreymt einhverja manneskju sem maður hefur ekki séð eða hugsað um í mörg ár og oft gerir maður svo steikta hluti að maður skilur ekki að þetta geti verið heilinn á manni sem er að gera þessar æfingar. Þegar ég var lítil og ekki svo lítil óskaði ég mér oft að ég fengi videóspólu í pósti á hverjum morgni
og á spólunni væru draumar mínir þá nóttina.

Stundum eru draumar ótrúlega skýrir og stundum samansull af algjöru rugli. Hver kannast líka ekki við að vera fara gera eitthvað ótrúlega skemmtilegt, fara í rússíbana, skella sér til útlanda, fara í risarennibraut og vakna akkúrat áður en draumurinn varð að "veruleika. Mig dreymdi allavega oft svoleiðis þegar ég var lítil og var alltaf jafn svekkt þegar ég vaknaði, stundum reyndi maður að halda áfram að sofa en fór þá náttúrulega að dreyma eitthvað allt annað!
Ég man oft hvað mig dreymdi strax og ég vakna en svo þegar ég fer á fætur og huga að öðru þá gleymi ég þeim yfirleitt að mestu. Stundum man ég brot og brot. Eina nóttina nýlega, dreymdi mig að ég væri rosalega þyrst og ég drakk fullt af mjólk og svo þambaði ég vatn. Þegar ég vaknaði mundi ég þetta svo skýrt og vegna þess að hægra heilahvelið virðist virkara hjá mér, ég er ekki sérstaklega vísindalega sinnuð og trúi því að hlutirnir séu annað og meira en bara svart og hvítt og annaðhvort eða, þá fletti ég þessu upp. Þar stóð : "Að drekka mjólk er fyrir fagnaðarfréttum." annarsstaðar sóð samt : "Að drekka mjólk er fyrir sviptingum og stormasömum viðburðum í einkalífinu" Nú er bara spurning hvort verður úr..kanski bara bæði? Enfremur las ég : "Svalandi og kaldur drykkur er fyrir meðlæti og velgengni. Dreymi þig að þig þyrsti og þú drekkur hreint vatn er það fyrir góðu" Vatnið í draumnum var sannarlega bæði hreint og svalandi .

Aðra nótt dreymdi mig að við Bjarki rifumst alveg svakalega og ég grét úr mér augun. Þegar ég vaknaði um morguninn þurfti ég smá stund til að átta mig á því að þetta hefði ekki gerst í alvörunni. Ótrúlega óþægilegt. Ég varð að leita að skýringu og fletti þessu upp þar sem Bjarki kannaðist ekkert við málið. Þar stóð: "Oft er talað um að draumar þar sem mikið er um rifrildi séu af hinu góða, þar sé dreymandinn að fá útrás sem hann fær ekki í vöku. Að rífast í draumi er merkir að þú eigir trausta vini. Sá sem þú rífst við í draumi er þinn tryggasti vinur". En sætt! Las svo meira: "grátur boðar mikla gleði". Húrra fyrir því! Að lokum fletti ég upp draumi sem ég mundi óljóst að ég hefði verið að pakka niður og tíndi ýmislegt til ofan í ferðatösku. Fletti og þar stóð: "Opin ferðataska með einhverjum hlutum er fyrir kærkomnum nýjungum. Fullar ferðatöskur eru mjög gott tákn, þær boða uppfyllingu óska þinna ".

Þannig að nú bíð ég bara eftir fagnaðarfréttum, sviptingum, uppfyllingu óska minna, meðlæti, velgegni og allt hvaðeina, en ef mig dreymir eitthvað sem túlkast illa þá dæmi ég þetta sem kerlingabækur og kukl þegar í stað!

1. maí var annars laus við kröfugöngur að okkar hálfu en þess í stað héldum við í Parc de la Ciutadella, fórum á árabát,nutum góða veðursins og fallega umhverfisins, sáum andapar með 10 andarunga og 2 skjaldbökur, hlupum á eftir krökkunum sem voru dugleg að fara í sitthvora áttina, dilluðum okkur við músik frá síðari heimstyrjöldinni og dáðumst að fólkinu sem virkilega kunni að dansa við hana og fékk mann til að langa að skrá sig á námskeið þegar í stað.

Í þessum skrifuðu orðum barst mér símtal frá Petru vinkonu minni sem tilkynnti mér að hún hafi verið að eignast yndislegan strák..sko draumarnir strax farnir að rætast því þetta kalla ég sko fagnaðarfrétt í lagi.
Hjartans hamingjuóskir og þúsund kossar frá okkur nýbakaða fjölskylda!