þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Kræst hús

Amma Kolfinna komst heilu og höldnu yfir hafið til okkar með yfirvigt og saumavél í farteskinu.
Í töskunni leyndist ýmiskonar glaðningur bæði frá henni og öðrum ættingjum, sem vakti að sjálfsögðu mikla lukku!

Eftirfarandi samræður áttu sér stað við morgunverðarborðið.
Salka : "Amma er þetta ekki kræst hús" ?
Amma : "Hmm.. kræst hús" ?
Salka : "Já ,finnst þér þetta ekki kræst hús"?
Amma : Ha?
Salka : "Já þegar Tóta mamma hennar Soffíu Petru kom í heimsókn þá sagði hún bara : KRÆST hvað þetta er flott hús" !

Það fer ekkert framhjá þessu barni.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Sunnudagur til sælu

Sumir dagar eru eitthvað svo ljúfir...þessi var einn af þeim.
Við ákváðum að kíkja á sýningu í Fira Barcelona sem er risastór sýningarsalur hér í borg. Það sem ég skildi á auglýsingaspjaldinu var creativity og mynd af stelpu að prjóna...ég er stelpa , ég prjóna og flest sem er "creative" finnst mér skemmtilegt. Þetta hlaut því að vera eitthvað fyrir mig og hinir verða bara að fylgja mér. Ég fór út á pall í morgun og fannst frekar svalt. Við kappklæddum okkur en engan vegin í takt við veðrið sem var bara mjög gott þegar við komum út. Innan skamms var ég alveg að stikna í gammósíum og buxum yfir, ullarnærbol, kjól, hettupeysu og þykkri kápu til að kóróna allt saman. Funi var í svipuðum málum og ég (þar sem ég klæddi hann) í flísbuxum, og ullarpeysu og með ullarhúfu svo ekki sé minnst á hnéháa ullarsokkana. Hann lognaðist líka út af í hitakófi fljótlega eftir að við stigum út úr Metróinu.

Þegar á sýninguna var komið kom í ljós að þetta var algjört himnaríki fyrir "scrappara" og bútasaumara og þar sem ég er hvorugt þá gátum við strollað í gegnum básana án þess að þurfa stoppa of oft. Það var að vísu ýmislegt annað að sjá, meðal annars leikfangasölusýning og þar þurfti að stoppa aðeins oftar. Í einum salnum voru bara leikfangalestir og líkan þeim tengd...svona eins og maður sér í jólabíómyndunum og krakkinn fær svoleiðis í jólagjöf og svo er pabbinn spenntastur af öllum og situr fram á kvöld að stýra lestinni. Þetta var einmitt svoleiðis...svona svolítið safnaradót og einmitt mikið af eldri mönnum að skoða herlegheitin. Í öðrum sal voru svo fjarstýrðir bílar, brautir og allt sem þeim viðkemur en þar var allt annar markhópur á ferðinni ég ætla ekkert að reyna að lýsa honum frekar...það gætu einhverjir móðgast.

Þegar höfðum skoðað nóg kíktum við niður á höfn á antikmarkað (mætti halda að ég hefði planað þennan dag). Þar skoðuðum við í dágóða stund og ég vakti hrifningu Bjarka með því að sýna honum blöð frá 1942 með ýmsum sniðum og myndum af kjólum og fleiru í þessum dúr og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hann var uppveðraður hann bara heimtaði að kaupa öll blöðin og spurði manninn hvort hann ætti ekki líka Marie Clare frá 1951. Svo valdi hann blómaskreytt kökubox til að setja þau í og vildi svo endilega að ég tæki annan hring um markaðinn til að finna mér eitthvað fleira sem gæti glatt mig þann daginn.

Í sjónum við höfnina syntu stærðarinnar fiskar sem biðu eftir að vera gefið æti...Börn á bakkanum gáfu þeim regnbogalitað popp og þeir virtust vera himinsælir með það og mávarnir líka. Funi var svo glaður að sjá mávana og hermdi óspart eftir þeim enda mikil aðdáandi hljóða og stundum óhljóða.
Nú er að komast svolítil jólamynd á borgina..sumstaðar hefur verið kveikt á jólaljósum og gluggarnir á kaffihúsunum og búðunum eru orðnir örlítið jólalegri. Á leiðinni heim var allskyns gómsæt lykt í loftinu... nýbakaðar vöfflur, crepes, ristaðar möndlur, ilmandi kaffi, allskonar ljúffeng matarlykt og örugglega eitraður útblástur frá bílum en ég tók ekkert eftir honum í þetta skiptið, ég var bara svo sæl! Það eina sem gat skyggt á gleði mína þann daginn var batteríislaus myndavél sem ég var óvart með kveikt á í alla nótt þegar ég hafði verið að hreinsa út af henni. Kanski einmitt vegna þess að ég var ekki með myndavél fann ég hvert kódakmómentið á fætur öðru vera að birtast fyrir framan augun á mér en ég verð bara að sjá þau fyrir mér í huganum í staðin...alveg eins og Salka
(og við hin) sér fjölskylduna og vinina á Íslandi bara fyrir sér í huganum þessa stundina.
Funi bauð svo öllum sem litu í átt til hans í Metróinu upp á poppkex...otaði því í áttina að fólki og uppskar bros og kátínu að launum en skildi örugglega ekkert í því hversvegna enginn þáði boðið.

Í þessum töluðu orðum er ég með hunang á andlitinu sem ég má til með að skola af með volgu vatni ég bið ykkur því vel að lifa þangað til næst ..Hasta luego

föstudagur, 23. nóvember 2007

Aðlögunarhæfni

Allt frá því að við tilkynntum Sölku að við hyggðumst flytja til Barcelona lét hún eins og það væri sjálfsagðasti hlutur í heimi. Hún sagði öllum sem vildu heyra að hún væri að flytja til Baxelona og væri sko að byrja í skóla þar. Þar tala krakkarnir spænsku en það er allt í lagi af því að hún lærir hana bara..þangað til ætlaði hún bara að segja "hola" (halló) og "mira" (sjáðu) við krakkana. Þegar við komum svo í fyrri íbúðina sem okkur þótti miður góð þá dásamaði Salka hana og fannst allt svo huggulegt. Þegar við fórum á hina ýmsu leikvelli borgarinnar ljómaði Salka ef hún náði sambandi við eitthvert barnið og fékk það kanski með sér í eltingaleik eða hermileik..orð voru óþörf. Hún saknar allra en sagðist bara geta séð þá í huganum. Um daginn talaði hún um að hún vildi endilega kíkja í heimsókn á leikskólann sinn þegar hún væri enþá 4 ára og enþá íslensk...ég reyndi að útskýra fyrir henni að hún hætti ekkert að vera íslensk þó hún búi á Spáni en hún virðist þess fullviss að hún breytist í spánverja hvað úr hverju.
Nú er Salka búin að vera í skólanum í viku og dagurinn í dag var sá besti hingað til, Salka var glöð og kát og sagði stolt frá því að hún hefði farið á klósettið í skólanum í fyrsta skiptið sem var mikill sigur (klósettið er staðsett úti og börnin þurfa að fara út úr stofunni til þess að komast þangað). Salka sagði að hún hefði ekki alveg þorað fyrst af því að það var piss í báðum klósettunum en svo sturtaði kennarinn niður og þá var allt í góðu ; ) Síðasta föstudag var smá misskilningur af minni hálfu og ég tók nestið hennar Sölku upp úr töskunni hennar þegar hún fór í seinna skiptið..ég hélt semsagt að þau borðuðu bara nesti einu sinni á dag. Hún var því ekki með nesti í seinni kaffitímanum. Sem betur fer er hún dugleg að segja frá því sem gerist í skólanum svo ég frétti af þessu..."Og hvað fékstu þá ekkert að borða"? "Nei bara vatn en ég var ekkert þyrst" "En hvað voru krakkarnir með að borða"? "Brauð með súkkulaði, möffins...en ég smakkaði muffinsmolana hjá stelpunni sem situr á borðinu mínu og þeir voru góðir" Jæks ég fór beint út í búð að kaupa brauðform! Eins og það sé ekki nóg á barnið lagt að byrja í nýjum skóla þar sem hún skilur varla hvað fer fram ,þá er hún látin svelta líka!Um daginn bakaði ég bananabrauð og eplamuffins fyrir klukkan 11!..Staðráðin í því að Salka þyrfti aldrei aftur að borða afgangs muffinsmola frá hinum börnunum.
Adios þangað til næst.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Upphafið

Hvar skal byrja ...nú höfum við verið búsett í Baxelona í rúmar 6 vikur sem hljómar kanski ekki langur tími en það hefur óneitanlega margt á daga á daga okkar drifið á þessum tíma. Ég ætla ekki að lýsa þessum vikum í löngu máli en stikla á stóru.
  • Íbúðin sem við fengum í byrjun var frekar sóðaleg og hverfið engan veginn það sem við höfðum í huga. Það gekk einstaklega brösulega að finna íbúð og við vorum fram á síðustu stundu að reyna að finna hentugt húsnæði. Við vorum staðráðin í því að stoppa stutt í "slömminu" og tókum ekki einu sinni upp úr töskunum. Það varð okkur til happs að við vorum ekki búin að skrifa undir leigusamninginn og gátum því skipt um íbúð einni og hálfri viku síðar því hlutirnir gerast jú ekkert allt of hratt hér á Spáni. Á þessum tíma reyndum við að vera sem mest úti og komum eiginlega bara heim til að sofa og stundum borða en Bjarki var orðinn einstaklega leikinn við að búa til mat úr nánast engu eða eins og hann orðaði það ekkert úr engu. 'Eg myndi nú ekki taka svo sterkt til orða..pasta með brúnni piparpakkasósu er prýðilegur matur.
  • Íbúðin sem við erum í núna hentar okkur fullkomlega. Hún er í hverfinu sem við höfðum óskað okkur, með palli og svölum, Bjarki er með skrifstofu ,Salka er með sérherbergi og það sem meira er ...við erum með uppþvottavél en það er lúxus sem við höfum ekki lifað við hingað til. Ég varð eiginlega hálf feimin þegar ég kom inn í íbúðina hún var eitthvað svo miklu fínni en hin.
  • Við erum búin að prófa alla rólóa borgarinnar sem við komumst í návígi við og þeir eru ófáir.
  • Salka er byrjuð í skóla. Ég segi skóla en ekki leikskóla því að hér byrja börnin í skóla 3 ára. Salka er í 4 ára bekk sem kallast stjörnurnar sem er svolítið fyndið því að hópurinn hennar á Sælukoti hét líka stjörnurnar. Hún mætir í skólann kl. 9 og við sækjum hana kl. 1 þá er hádegismatur sem þú getur valið hvort að barnið borði í skólanum eða heima. Hún mætir svo aftur kl. 3 og er til kl. 5. Kennarinn hennar er vingjarnleg ung kona sem heitir Vanessa. Fyrsti dagurinn gekk vonum framar og Salka kvaddi okkur með bros á vör. Annan daginn fóru að renna á hana tvær grímur og þriðja daginn skildum við hana eftir grátandi. Í gær neitaði hún alfarið að fara í skólann og þegar ég sagðist vera farin í skólann sagði hún bara : " ókei ,en þú ert þá ekki með neitt barn með þér" . Okkur tókst þó að tala hana til á endanum og hún fór þó hún værri ekkert sérstaklega sátt við það. Í dag gekk allt vonum framar og Salka grét ekki þegar við skildum hana eftir. Ég skil hana samt alveg og mest langaði mig bara að segja henni að hún þyrfti ekkert að fara en ég trúi því að hún hafi gott af því að umgangast jafnaldra sína og læra tungumálið.
  • Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur. Bjarma gisti hjá okkur um daginn og móðurbróðir hans Bjarka og hans fjölskylda komu frá suður Spáni í helgarferð. Sigga var að fara í dag og hún var hjá okkur í 10 daga sem voru svo ótrúlega fljótir að líða. Von er á mömmu í 4 daga heimsókn á mánudaginn og aftur í 2 vikur yfir jól og áramót. Það stefnir allt í að öll fjölskyldan hans Bjarka komi í heimsókn í mars svo okkur þarf alls ekki að leiðast og bíðum bara spennt eftir fleiri bókunum!
  • Við Bjarki erum á spænskunámskeiði tvisvar í viku. Ég á byrjendanámskeiði á morgnanna og hann fyrir lengra komna á kvöldin. Ég tala eins og vélmenni, raða bara saman orðum sem ég kann og hljóma því dálítið furðulega en sem komið er. Fyrir nokkru síðan bað Bjarki um eina tösku af pistasíuís en átti við kúlu. En það er reyndar ekki lýsandi dæmi um spænskukunáttu hans.
  • Salka er ótrúlega dugleg að læra spænsku, telur og segir litina og laumar inn spænskum orðum þegar það á við t.d. abuela Kolfinna og Ásbjörg og abuelo Doron. Fyrir nokkru síðan var ég að tala ensku við konu og sagði helst til of mikið "ókei" að Sölku mati..."Maaamma þú átt að segja vale á spænsku ekki ókei á íslensku". Strax farin að skammast sín fyrir spænskuókunnáttuna mína.
  • Salka æfir sig samviskusamlega í að skrifa stafina og litar og málar fallegar myndir veggjunum okkar og okkur hinum til mikillar gleði.
  • Funi er sáttur ef hann fær nóg að borða, leika með bolta, glugga í bók og sjá nokkra hunda á dag sem er auðsótt mál með tilliti til þess að hér er varla þverfótað fyrir hundum. Hann er líka farin að sýna mikla tilburði við að blanda geði við börn á svipuðum aldri á leikvellinum.
  • Ég var að uppgötva að á sinni 1 árs ævi hefur Funi farið þrisvar í flugvél og flutt jafnoft.
  • Mér finnst tíminn líða ótrúlega hratt á Spáni.
  • Þetta er orðin alltof langur listi og ég læt staðar numið í bili.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Ég veit ekki.....

Nú er svo komið að þessi bloggsíða hefur staðið óhreyfð síðan ég stofnaði hana og ég hef ekki einu sinni sagt sálu frá henni. Ég hélt kanski að skrifin myndu koma að sjálfu sér en raunin er önnur , við höfum haft í nógu að snúast... veit ekki hvort þetta er góð hugmynd en ég ætla að láta reyna á þetta og sjá hvað setur.

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Feliz cumpleaños!!!!!


Hingað til hefði verið líklegra að fá póst með bréfdúfu frá mér en að ég skrifaði staf inn á veraldarvefinn. Tölvur og tækni hafa ekki verið sérstakar vinkonur mínar í gegnum tíðina...ég ætlaði aldrei að fá mér gsm síma, ég svara sjaldan sms-um, sendi varla tölvupóst og í mínum huga er msn ávísun á misskilning. Mér finnst erfitt að heyra ekki röddina eða sjá ekki svipbrigðin á þeim sem ég tala við en það er eitthvað svo ótrúlega heillandi við það að fá sendibréf í umslagi.

Í menntaskóla fékk ég leyfi til að skila handskrifuðum ritgerðum og ef ég skilaði þeim útprentuðum þurfti ég iðulega að vekja tölvunarfræðinginn á heimilinu upp um miðjar nætur til að hjálpa mér að ýta á print eða bjarga gögnum sem höfðu bara "gufað upp".
Þegar við höfðum verið ótengt netinu hér í Baxe í nokkrar vikur fann ég hversu ómissandi mér fannst það. Þess vegna hef ég sent og svarað fleiri tölvupóstum síðustu vikur en ég hef gert alla mína ævi og ég hef farið inn á msn allavegana einu sinni....til að vera misskilin!
Dömur mínar og herrar það er því komið að því ...í fyrsta skipti á Íslandi ; apakettir blogga um bax í Baxelona!!!..Og nú þarf ég að finna tölvunarfræðinginn til þess að vita á hvaða takka ég ýti til þess að birta þetta.

Ég ætla að láta heimilisfangið okkar fylgja með ef einhver skildi finna sig knúinn til að senda fjölskyldumeðlimum bréf og vona jafnframt að ég verði ekki kúkur í lauginni sem fær aldrei bréf.

Carrer de Sant Luis 78 (attico nr. 2)
Gracia
08024 Barcelona
Spain

Þess má geta að þessi dagur er fyrst og fremst stórmerkilegur fyrir þær sakir að litli (stóri) eldfuglinn okkar hélt upp á fyrsta afmælisdaginn sinn í dag! Til hamingju með daginn elsku besti Funi Hrafn eða öllu heldur
Feliz cumpleaños!!!!