Sumir dagar eru eitthvað svo ljúfir...þessi var einn af þeim.
Við ákváðum að kíkja á sýningu í Fira Barcelona sem er risastór sýningarsalur hér í borg. Það sem ég skildi á auglýsingaspjaldinu var creativity og mynd af stelpu að prjóna...ég er stelpa , ég prjóna og flest sem er "creative" finnst mér skemmtilegt. Þetta hlaut því að vera eitthvað fyrir mig og hinir verða bara að fylgja mér. Ég fór út á pall í morgun og fannst frekar svalt. Við kappklæddum okkur en engan vegin í takt við veðrið sem var bara mjög gott þegar við komum út. Innan skamms var ég alveg að stikna í gammósíum og buxum yfir, ullarnærbol, kjól, hettupeysu og þykkri kápu til að kóróna allt saman. Funi var í svipuðum málum og ég (þar sem ég klæddi hann) í flísbuxum, og ullarpeysu og með ullarhúfu svo ekki sé minnst á hnéháa ullarsokkana. Hann lognaðist líka út af í hitakófi fljótlega eftir að við stigum út úr Metróinu.
Þegar á sýninguna var komið kom í ljós að þetta var algjört himnaríki fyrir "scrappara" og bútasaumara og þar sem ég er hvorugt þá gátum við strollað í gegnum básana án þess að þurfa stoppa of oft. Það var að vísu ýmislegt annað að sjá, meðal annars leikfangasölusýning og þar þurfti að stoppa aðeins oftar. Í einum salnum voru bara leikfangalestir og líkan þeim tengd...svona eins og maður sér í jólabíómyndunum og krakkinn fær svoleiðis í jólagjöf og svo er pabbinn spenntastur af öllum og situr fram á kvöld að stýra lestinni. Þetta var einmitt svoleiðis...svona svolítið safnaradót og einmitt mikið af eldri mönnum að skoða herlegheitin. Í öðrum sal voru svo fjarstýrðir bílar, brautir og allt sem þeim viðkemur en þar var allt annar markhópur á ferðinni ég ætla ekkert að reyna að lýsa honum frekar...það gætu einhverjir móðgast.
Þegar höfðum skoðað nóg kíktum við niður á höfn á antikmarkað (mætti halda að ég hefði planað þennan dag). Þar skoðuðum við í dágóða stund og ég vakti hrifningu Bjarka með því að sýna honum blöð frá 1942 með ýmsum sniðum og myndum af kjólum og fleiru í þessum dúr og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hann var uppveðraður hann bara heimtaði að kaupa öll blöðin og spurði manninn hvort hann ætti ekki líka Marie Clare frá 1951. Svo valdi hann blómaskreytt kökubox til að setja þau í og vildi svo endilega að ég tæki annan hring um markaðinn til að finna mér eitthvað fleira sem gæti glatt mig þann daginn.
Í sjónum við höfnina syntu stærðarinnar fiskar sem biðu eftir að vera gefið æti...Börn á bakkanum gáfu þeim regnbogalitað popp og þeir virtust vera himinsælir með það og mávarnir líka. Funi var svo glaður að sjá mávana og hermdi óspart eftir þeim enda mikil aðdáandi hljóða og stundum óhljóða.
Nú er að komast svolítil jólamynd á borgina..sumstaðar hefur verið kveikt á jólaljósum og gluggarnir á kaffihúsunum og búðunum eru orðnir örlítið jólalegri. Á leiðinni heim var allskyns gómsæt lykt í loftinu... nýbakaðar vöfflur, crepes, ristaðar möndlur, ilmandi kaffi, allskonar ljúffeng matarlykt og örugglega eitraður útblástur frá bílum en ég tók ekkert eftir honum í þetta skiptið, ég var bara svo sæl! Það eina sem gat skyggt á gleði mína þann daginn var batteríislaus myndavél sem ég var óvart með kveikt á í alla nótt þegar ég hafði verið að hreinsa út af henni. Kanski einmitt vegna þess að ég var ekki með myndavél fann ég hvert kódakmómentið á fætur öðru vera að birtast fyrir framan augun á mér en ég verð bara að sjá þau fyrir mér í huganum í staðin...alveg eins og Salka
(og við hin) sér fjölskylduna og vinina á Íslandi bara fyrir sér í huganum þessa stundina.
Funi bauð svo öllum sem litu í átt til hans í Metróinu upp á poppkex...otaði því í áttina að fólki og uppskar bros og kátínu að launum en skildi örugglega ekkert í því hversvegna enginn þáði boðið.
Í þessum töluðu orðum er ég með hunang á andlitinu sem ég má til með að skola af með volgu vatni ég bið ykkur því vel að lifa þangað til næst ..Hasta luego
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Þetta var bara eins og kafli í bók um framandi og áhugaverð lönd. Þú aljörlega seldi mér Barcelona með þessari lýsingu :D Við erum bara rétt ókomin ;)
Hérna í gær var rok og rigning þannig að við bara fórum ekki út úr húsi. Hnoðuðumst í fótbolta, grípuleik, playmo, berju og kyrkjuleik að hætti Mikaels, sem er orðinn frekar mikið þreyttur á að hanga heima með þessu liði (okkur). En bara vika í leikskóla, júhú :D
Hafið það ávallt sem best.
Fjóla og co.
Oh, draumur í dós! (Hm.. hljómar kunnuglega þessi setning).
Þú ert líka búin að selja mér Barcelona. Reyndar er ekki sama hver er. Þú ert svo jákvæð Kolla og átt svo auðvelt með að grípa alla með þér í hamingju lífsins.
Knús,
Bryndís Ýr
Þú ert frábær sögukona. Mér líður eins og ég hafi verið álfur á öxlinni á þér þennan daginn, sá þetta svo ljóslifandi fyrir mér! En af hverju hunang á andlitinu?! Er þetta eitthvert fegurðuartrix?
Í kvöld erum við aparnir að fara í afmælisafganga til Töru Spóa. Þar verður þín sárt saknað, eins og alltaf!
Fríða blíða
Já ég er að sjálfsögðu að reyna að selja sem flestum ferðir til mín....en hunangið jú það er fegrunartrix sem við Sigga uppgötvuðum þegar við blöðuðum í gegnum bók sem ég á..svei mér ef þetta svínvirkar ekki bara!Dúnmjúkur og sykursætur að innan sem utan, allir að prófa!
Ég skelli mér í líki hunangsflugu og mæti í afmælið..ekki láta ykkur bregða ;)
Hey hey hey I say ho ho ho
Gaman að fá fréttir af ykkur. Nú er húslestur á Bugðulæk hverju sinni sem ný færsla birtist á Baxelonablogginu.
Allavega. Við sendum með Kolfinnu eldri út smá pakka fyrir Funa og minni pakka fyrir Sölku. Held þið getið fattað sjálf hver á að fá hvað.
Nýjustu fréttir eru þær að á morgun verður haldinn ferðafundur hjá Eliasenfjölskyldunni. Þá verða allar dagsetningar negldar niður og ferðaáform sett í fastar skorður.
Afsakið. Held ég verði bara að opna eigið blogg ef ég hef svona mikla tjáningarþörf. Eða bara senda póst.
Hafið það massa gott
hæ hæ
Rosalega er gaman að lesa um hvað þið eruð að bralla þarna úti, Rakel Lilja talar ekki um annað en að fara til Barcelona um páskana núna, hún er orðin frekar mikið spennt.
En allavega biðjum við Wheeler fjölskyldan rosalega vel að heilsa.
Bæjó
Kæru Eliasenar, Wheelerar, synir og dætur! Ég bíð með öndina í hálsinum eftir að fá dagsetninguna staðfesta.
Þá er hægt að útbúa dagatal og telja niður dagana xxx vúbbvúbb ; )
p.s. Harpa og fjölskylda, þúsund þakkir fyrir sendinguna fallegu og það er sko ekkert að því að tjá sig.
Halló sætu.
Gaman gaman að lesa... ég er ennþá smá að venjast því að það er komin áhugavert blogg í favorites hjá mér sem ég á það til að gleyma. Held að þú sért þó alveg búin að stimpla þig inn núna.
Hafið það mjög svo gott.
kv. lvk og gengið
Skrifa ummæli