laugardagur, 5. júlí 2008

Slumma


Salka fann pínulitla pöddu í gær.

Hún var svo spennt, veiddi hana í glas og sýndi okkur sigri hrósandi. Funi var líka voða spenntur, svo spenntur að hann blés á hana og hún týndist. Systir hans var ekki ánægð með þetta uppátæki og skammaði bróður sinn, þangað til ég fann pödduna aftur, Salka varð glöð og sagði hæstánægð: "Hún heitir Slumma og ég ætla að eiga hana"..þangað til hún týndist aftur en þá varð Salka ekkert svakalega reið af því það var hún sem týndi henni. Ég sagði henni líka að við myndum örugglega finna nýja, sem við og gerðum. Salka reyndi að veiða hana í glas en kom rosalega leið og áhyggjufull út úr eldhúsinu og tilkynnti okkur að hún héldi að paddan væri dáin...hún hafi óvart kramið hana. Við reyndum að hughreysta hana og segja að paddan hafi örugglega verið orðin rosalega gömul og alveg að fara að deyja hvort sem er (eitthvað verður maður að segja). Hún trúði því en bað mig samt að fara inn í eldhús og sækja pödduna af því að hún var svo hrædd um að hún yrði reið ef hún vissi að Salka hefði óvart kramið hana. Ég náði að sannfæra hana um að paddan yrði ekkert reið og Salka róaðist og sagði svo í léttum tóni: "Kannski er þetta bara amma þín sem er núna búin að breytast í flugu"... Uuu vonandi ekki.

Við skelltum okkur svo í síðdegisferð á ströndina sem var gaman. Á leiðinni þangað fann ég svo fína safnarabúð þar sem ég lét mér nægja að taka myndir í þetta skiptið en ég veit hvar hún er.

Þegar við fengum okkur kvöldmat trúði Salka okkur fyrir því að hún væri hrædd við trúða (sem við vissum) og stundum leikara eins og á rósadaginn, Sant Jordi þá kom fólk í skólann hennar að leika leikrit og þá hafi hún verið svolítið hrædd. Viðkvæmt blóm ;)

Síðan fór hún að hafa áhyggjur af því þegar hún eignast barn og svo eignast barnið hennar barn og svo koll af kolli..."hvað verðum við þá eiginlega mörg"? Spurði hún áhyggjufullri röddu.."Mig langar bara að eiga heima hjá ykkur þegar ég verð stór" Ég sagði henni að hún væri ekkert að fara að eignast börn strax svo hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Hún sætti sig við það svar...sem betur fer.

Við fundum svo aðra Slummu sem búið er að passa einstaklega vel upp á.

4 ummæli:

Bryndís Ýr sagði...

Guðdómleg þessi stelpa! Gaman að skrásetja svona hluti og lesa svo upp í brúðkaupi, þrítugsafmæli eða við útskrift :).

Hlökkum til að sjá ykkur í lok ágúst.

Kv. Bryndís

Nafnlaus sagði...

Já það er sniðugt,haha ég las fyrst eins og það væri góð hugmynd að lesa svona upp í sínu eigin brúðkaupi eða þrítugsafmæli..varstu kannski að meina það eða meira svona hennar;)?
Ég á annars fullt í fangi að skrásetja alla gullmolana og pælingarnar,ó allar pælingarnar hjá þessum mola.

Ég hlakka líka svo til að hitta ykkur..við erum nánast nágrannar.
xxx

Nafnlaus sagði...

Litli snillingur.

Mér finnst nafnavalið fyrir nýjasta meðlim fjölskyldunnar mjög flott.

Og þessar áhyggjur af fjölskyldustærðinni frábærar. Þetta er bara svo mikilvægt! Að hugsa nokkrar kynslóðir fram í tímann!

Með tilhlökkun í hjarta

Augnablik sagði...

Nafnaval hefur lengi verið hennar sterkasta hlið þó svo mér finnist hún aðeins vera að smitast af spænsku nöfnunum núna,úr því að vera með heimatilbúin frá grunni;)

Það er svoo mikilvægt að hugsa yfirleitt.. og bara alltaf,já og spyrja mikið.

Ást,sakn og stórkostleg tilhlökkun!