miðvikudagur, 19. desember 2007

"Christmas whithout you"

Ég var að skrifa jólakort um daginn og ákvað að reyna að búa til huggulega stemmningu.
Ég kveikti á allskonar kertum. Kertum með kanellykt, kertum í laginu eins og epli, sprittkertum og líka stórum hlunka kertum. Ég hafði keypt mér grenigrein sem ég klippti bút af og reyndi að hafa sem næst mér til þess að finna ilminn ..ég opnaði líka piparkökudunk og reyndi að láta lyktina og bragðið koma mér í jólaskap. Allt kom fyrir ekki...jú, jú allt saman var þetta mjög huggulegt en það vantaði eitthvað? Tónlist! Ég var að spá í að sækja jóladiskinn með klassísku gömlu jólalögunum með Louis Armstrong og félögum en langaði bara að heyra í Pálma, Svölu og öllum hinum eigtís jólaslögurum. Ég ákvað að eina ráðið væri að finna jólastöðina í tölvunni sem ég ferjaði yfir í stofu og stillti fyrir framan mig. Þá byrjaði það ...endalaust af auglýsingum sem sögðu mér að kaupa,kaupa,kaupa...farðu þangað..hver að verða síðastur..90% afsláttur!..viltu vera smart!?..skipun frá seðlabankastjóra!..kaupið leikföng! Ég fann hvernig jólaandinn helltist yfir mig..það hefur engin sagt mér að kaupa neitt sérstakt hér nema kanski ég sjálf og oftast á ekkert sérstaklega sannfærandi hátt. Þarna kom það! Ég kaupi mér bara jólaandann..eða hvað? Næsta lag á fóninn var "christmas whithout you "með Dolly Parton og viðlagið endurtekið angurvært í sífellu með hækkun eftir hækkun "whithout youuuu" (allir saman nú) og þá rann hann upp fyrir mér blákaldur veruleikinn..fyrstu jólin án Íslands og allra á því. Vissulega er litla fjölskyldan hjá mér sem er yndislegt eeen hinir skipta bara svo miklu máli líka. Ég ætlaði að reyna að vera rosa töff og segja bara iss piss skiptir ekki máli þetta eru nú bara jól , það er ekki eins og séu ekki haldin jól á Spáni (Katalóníu) líka, hver þarf hamborgarhrygg?, Malt og appelsín? Nói og Siríus? pfff!.. Allt í einu var ég ekkert svo brött og hafði bara ekkert á móti því að hitta nokkra vini og ættingja yfir jólaöli og hangikjötsbita. Maður verður meyr um jólin.. ekki töff !

Allt í einu vaknaði ég úr hugrenningum mínum við að kynnirinn var að afkynna síðasta lag nefmæltri og tilgerðarlega djúpri röddu..."Jááá og þetta voru Frostrósir með sitt dásamlega lag blablablaa ooog mér var nú hugsað til þess áðan að ef einhver fengi sér ís með einni af þessum dömum, þaáá væri sá hinn sami að fá sér ís með dýfu" (dívu)..whaat,er mig að dreyma?!!Ég fann hvernig aulahrollurinn hríslaðist um mig alla og ég roðnaði fyrir hans hönd en svo hætti ég við og grenjaði úr hlátri, tárin láku niður kinnarnar á mér..þetta var of mikið..heilinn hlýtur að hafa sagt honum að hætta en munnurinn hélt bara áfram að riðja út úr sér steypu!! Ég veit ekki hvort það var tilfinningasemin eða hvort þú þurftir að vera á staðnum til þess að finnast þetta fyndið...ég hlæ allavegana enþá bara við tilhugsunina!

Takk kæri herra jólastöð þú kættir mig þegar ég var meyr ; )
Mamma kemur á morgun!

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kolli minn.. ég horfði einmitt yfir hópinn áðan á B5 og fannst við svo fáar mættar... það var þó ekki svo að við værum fáar heldur vantaði þig..
Sendi þér íslenskar og rennblautar jólakveðjur frá stresslandinu sem er u.þ.b. að setja lægðarmet og örugglega löngu búið að setja rigningarmet en samt er þetta alltaf gamla góða ísland.
Risaknús og gangi þér vel að viðhalda jólaandanum.
kv. lára

Nafnlaus sagði...

Kolla mín.

Þú hefur verið send á þessa jörð til að hressa okkur hin við:-) Gvuði sé lof fyrir netsamskipti á degi sem þessum því að þessi frábæra hugrenning um ís með dívu verður að fá að fljúga lengra en upp í hugann á þér.

Takk fyrir gott glens

Harpíta, viviendo la vida loca!

Nafnlaus sagði...

Ég get svo svarið fyrir það að mér finnst þessi brandari bara eitthvað svo kunnulegur, bara alveg eins og ég hefði sagt hann, sem segir kannski meira um mig :S Það koma Jól eftir þessi og þá verður bara skemmtilegra fyrir ykkur að vera að kringum fjölskylduna, þú færð góðann tíma til að sakna hennar :)
Bið að heilsa kjellinum, og krökkunum.
6. nóv er besti dagur ársins, spurðu bara Funa ...

Nafnlaus sagði...

úff já, síðustu daga hef ég ekki óskað mér neins frekar en að komast burt af klakanum og frá þessu jólastressi og lægðar-rigningar sulli. En þú hefur sýnt mér að maður á að vera varkár í því sem maður óskar sér ;)
vona að þú náir að fanga jólaandann. jólaskröggs kveðjur og risaknús, Tóta

Augnablik sagði...

Hey, þið eruð best!
Það yljar mér um hjartarætur að lesa skemmtileg comment. Lára takk fyrir falleg orð, ég held ég hafi fengið jólakortið þitt áðan og þá var ég nú ekki lítið glöð!!
Harpa takk fyrir peppið ;)
Maggi þú ert alltaf fyndin :D Engar áhyggjur enginn aulahrollur þar.Við gáfum þér auðvitað fallegustu afmælisgjöfina í fyrra og hún endist líka svo vel ;)
Tóta risaknús til baka og já maður verður að fara varlega í óskhyggjunni ; )

Bryndís Ýr sagði...

Hæ elsku Kolla mín og þið öll...

ég segi eins og einhver hér að ofan... það koma jól eftir þessi jól. Það er frábært að upplifa jól í öðru landi, held að allir Íslendingar mættu prófa það, bæði til að sjá hversu ótrúlega hátíðleg íslensk jól eru, en líka til að læra að hægt er að halda jól án þess að deyja úr stressi. Það lærði ég í Þýskalandi t.a.m. Það er ekkert gaman að drepa sig á aðventunni á því að "þurfa" að baka 10 sortir, frekar njóta þess að baka eina, eða þrífa inni í eldhússkápum og allt hitt sem mæður okkar gerðu(þegar þær voru heimavinnandi, en samt með magasár... eða hálsríg... hahah :D). ÉG lærði að njóta aðventunnar, fara á tónleika, drekka Glühwein á jólamarkaði og svoleiðis huggulega hluti. Allt hitt sem maður gerði heima var bara bónus. Núna leggur maður sig frekar fram við að baka piparkökur með krökkunum eftir leikskóla, án þess að líta nokkurn tímann á draslið í stofunni eða lengst inn í eldhússkápa! :) Helgina fyrir jóla lagar maður til, þurrkar af og ryksugar og kveikir svo á kerti. Svo borðar maður konfekt. Nammi namm.

Njótið þessara síðustu daga aðventunnar og jólanna og sogið í ykkur allt það nýja sem þið kynnist. ÉG veit þið gerið það því þið kunnið sko að njóta og gleðjast.

Þú ert frábær KOlla og mikill gleðigjafi í þessari ógeðslegu rigningu og roki.

Jólakortið fór ekki af stað fyrr en í kvöld, þannig að það kemur ábyggilega ekki fyrir mánudag... en kannski á milli jóla og nýárs. Vonandi.

KNús Bryndís

Augnablik sagði...

Já Bryndís þetta er ótrúlegt.
Maður er einhvernvegin ekki vanur því að jólin komi án þess að maður sé helst á síðustu stundu með allt og ætli sér einhver ósköp viðbót að þvi að það er bara svo "lítið mál" og heldur að jólaandinn sé hálsrígurinn og oföndunin yfir því að allir séu örugglega glaðir og sáttir.
Nú öndum við djúpt og njótum þess að eiga gleeeði og friiðar jól eins og Pálmi söng svo eftirminnilega ;)

Nafnlaus sagði...

Kolla! hefur e-r sagt þér hvað þú ert frábær penni :)
bara gaman að lesa þessa pistla þína. Ég skil þig ofsalega vel með þennan söknuð, maður veit ekki hvað maður á fyrr en maður fer a.m.k. aðeins frá því ;) Ég var einmitt að henda upp jólatrénu mínu áðan og hugsaði með mér að núna myndi nú Kolla mín vera stolt af mér ef hún sæi það! Tonn af litum og formum og glansi og glitri og MERGÐ af kúlum og punti (ein í jólakúluvímu hehe). Hafiði það sem allra best yfir hátíðarnar dúllan mín ...vonandi að kortið hafi náðst í tæka tíð

knús og jólastuuuuuuuð
Selurinn Selmundur og family

Augnablik sagði...

Vá Selma ég sé tréð fyrir mér í Bollywood þema...sem er mjög gott nammi namm!Við viljum liti glans og glimmer í bland við allt þetta klassíska, gamla og góða ; )
Kortið þitt náðist í tæka tíð því það var það sem kom um daginn..Láru kort kom í dag ég var aðeins að rugla skriftinni, plús það að Láru kort var í semí glæru umslagi svo sykursætir bræðurnir brostu í gegn ; )
Kortið okkar skilar sér vonandi fyrr eða síðar.
Hafðið það huggulegt og ljúft um jólinog takk fyrir að skrifa því þá verð ég svo glöð!!