sunnudagur, 30. desember 2007

Sinn er siðurinn..

Jólin í Baxe hafa verið örlítið frábrugðin hefðbundnu jólahaldi að okkar hálfu. Munurinn er aðallega fólgin í minna stressi, færri jólaljósum og engum jólaboðum með ættingjum eða vinum.

Aðfangadagur var afar notalegur. Við Bjarki kíktum í bæinn og fórum svo á matarmarkaðinn að kaupa jólakalkúninn. Það var að vísu ekki notaleg reynsla og ég færist nær þeirri hugmynd að gerast grænmetisæta í hvert skipti sem ég sé heila grísi, fláðar kanínur, og hana hangandi á hausnum á krókum allt í kringum mig svo ekki sé minnst á hófana, klærnar, kambana og hvað þetta nú allt saman heitir sem borðað er með bestu lyst hér í borg. Það var ekki auðsótt mál að finna kalkún þar sem framboðið af hönum er mun meira?..Þeir hengu þarna á krók eftir krók og á bás eftir bás...Við treystum okkur þó ekki í alltof mikla tilraunamennsku og héldum ótrauð áfram í leit okkar að kalkúninum sem við fundum að lokum hjá vasklegum mæðgum. Ég horfði skelfingu lostin á jólamatinn minn hanga á hausnum og minna mig allt of mikið á mennska veru með lærin sín og "handleggina". Ég varð að líta undan meðan kjötkonan snyrti fuglinn af mikilli röggsemi..."Er þetta búið" ? Spurði ég hikandi á meðan ég horfði á brakandi ferskt grænmetið á næsta bás og sæta og safaríka ávextina þar við hliðina á...allir þessir litir og enginn dó fyrir málstaðinn. (dramatískt ég veit) "Já þetta er búið" sagði Bjarki um leið og hann vippaði pokanum með tilvonandi jólasteik yfir afgreiðsluborðið. Ég leit á pokann og sá smá slettu af innyflum á honum ...ókei þetta er orðið gott! Maturinn smakkaðist semsagt guðdómlega eins og við var að búast og allar hugleiðingar um grænmetisát að eilífu fuku út í veður og vind á meðan ég naut matarins til hins ýtrasta. Humar í forrétt, klakúnn með fyllingu og gómsætu meðlæti í aðalrétt og möndlugrautur með kirsuberjasósu og ferskum kirsuberjuummmm. Kokkarnir mamma og Bjarki stóðu vaktina..Bjarki hafði yfirumsjón með kalkúninum og forréttinum, sósan var samstarfsverkefni en mamma sá alfarið um möndlugrautinn magnaða. Salka fékk möndluna og var að sjálfsögðu himinsæl ; ) Við opnuðum síðan alla fallegu pakkana sem við fengum senda bæði með mömmu og Adam og settum líka nokkra sjálf. Salka hefur aldrei sýnt þeim eins mikinn áhuga og nú og vildi að sjálfsögðu ólm fá að hjálpa Funa og auðvitað leika með dótið hans líka. Hann fær kanski meira um þetta að segja á næsta ári . Allir fengu eitthvað fallegt og ég verð að hrósa öllum gefurum fyrir einstaka smekksemi.
Takk fyrir okkur ; )

Þegar við höfðum ákveðið að eyða jólunum í ókunnri borg er allt eins gott að reyna að kynna sér hefðir og siði heimamanna tengda jólahaldi í leiðinni.

Sá siður sem ég tók einna fyrst eftir er tengdur trjáboli sem málað er andlit á. Trjábolurinn er kallaður "caga tio". Krakkarnir syngja svo sérstakt lag fyrir caga tio og lemja hann með priki um leið en þá "kúkar" hann gjöfum eða góðgæti að launum. Caga þýðir kúkur og tio þýðir frændi og gæti þetta því útlagst sem kúkandi frændinn? Trjádrumburinn fæst í öllum stærðum og margir eru með einn slíkan heima hjá sér. Það er hugsað vel um hann, honum gefin mjólk að drekka og teppi breytt yfir hann, og börnin hvísla svo síðustu óskum sínum í "eyru" hans. Að morgni 25. desember syngja þau lagið góða og slá í hann með priki um leið...Þegar þau kíkja svo undir teppið leynast gjafirnar þar!

Önnur hefð tengd sömu frumþörf er stytta af manni, eins konar hirði sem sit
ur á hækjum sér með buxurnar á hælunum og fyrir neðan hann er hið myndarlegasta fjall af uuu..kúk. Ég hef ekki nógu góða skýringu á þessari styttu aðra en þá að þetta sé eitthvað sem allir gera og sameini því fólk af öllum stéttum ; ) Hefðin er líka að fela einn svona karl við fjárhúsið sem svo margir útbúa heima hjá sér og þá er það gert að leik að reyna að koma auga á kúkakauða. Hann fæst í öllum stærðum og gerðum..fótboltakarlar, leikarar,stjórnmálamenn og meira að segja páfinn sjálfur!... ekkert er heilagt í þessum efnum.

Mér finnst líka vert að minnast á sérstakan náunga sem við hittum fyrir á jólamarkaðnum en hann spýtti út úr sér brjóstsykrum í allar áttir með hjálp góðra manna sem dældu honum aftan í hann...þennan mann má sjá á myndinni efst á síðunni.

Aðalhátíðin hjá heimamönnum er svo 6. janúar en þá koma vitringarnir með gjafirnar..ekki jólasveinninn. Þetta er aðalgjafadagurinn hjá þeim en mér skilst að það séu líka smá gjafir 25. des.

Á gamlárskvöld er siður að borða eitt vínber með sopa af cava við hvert slag á miðnætti (semsagt 12 vínber)...þá ætti komandi ár að verða manni hamingjuríkt og heilladrjúgt. Sem minnir mig á að þakka fyrir einstaklega falleg og skemmtileg jólakort þetta árið..planið svínvirkaði og okkur hefur verið boðið í vínberjaát á miðnætti til nágranna okkar. Ekki þó Taniu Heinz heldur þeirra Johonnu og Michaels sem eru finnsk og írsk ættuð ofurviðkunnaleg hjón sem stefna að því að bjóða yfir til sín nokkrum írskum og spænskum vinum... og okkur! Þetta verður áhugavert. Meira um það síðar.

Gleðilegt nýtt ár!!!!!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hljómar vel. Þið verðið búin að eignast fullt af æðislegum vinum þegar við mætum á svæðið og njótum góðs af tengslunum. Þá segjum við bara: "Bróðir Bjarka" og allir opna dyr og bjóða okkur frítt inn og alls kyns fríðindi. Við verðum skyldmenni vinsælasta fólksins í Barsa. Ó ó hvað það verður frábært.

Fengum jólakortið í dag sem er vinningskort í ár. Ótrúlega flott. Það gladdi mig mikið að Orri man eftir frændsystkinum sínum og sagði : Hakka og Huni þegar hann sá myndirnar. Þau eru ekkert að tapa hlutverki sínu nema síður sé.

JÆja... hringjum til ykkar í kvöld. Þið svarið ef þið verðið ekki of upptekin í vinaheimsóknum:)

adams family

Nafnlaus sagði...

Halló kæra fjölskylda... gleðileg jól og núna, gleðilegt ár. Ég hugsaði svo mikið til ykkar í gær þegar ég var að undirbúa gamlársboðið árlega því þið voruð ekki að koma.. ég vil þó meina að þetta hefi verið einstaklega táknrænt því rétt áður en gestirnir mættu þá "mættuð" þið sem jólakort og það var æði. Yndislegar myndir af yndislega fallegum börnum. Boðið hafðist þó og var margt um manninn en allir mættu nema þá náttúrulega þið og jóna prjóna en vá hvað það hefði verið fínt að hafa ykkur öll því nóóóg var af veitingum. Nú vona ég að nýja árið í nýju landi verði ykkur gott og biðjum við hér úr Laufásnum kærlega að heilsa ykkur..
Risaknús.
lvk og co
p.s. Kolla mín, skil ekki afhverju þú varst ekki löngu byrjuð að blogga því það er alveg gaman að lesa færslurnar þínar.

Nafnlaus sagði...

Sælar elskurnar og Gleðileg jólin og Gleðilegt nýja árið.
Hvernig var svo á nýju ári með nýjum vinum á gamlárskvöld ? Við erum svo ótrúlega heppin að hann frændi minn býr hérna í DK svo við vorum með kunnulegum andlitum á gær. Ekki svo mikið sprengt hérna, eða kannski er þetta bara svona normallinn, Íslendingar eru náttúrulega bara crazy þegar kemur að flugeldum. Hlakka til að heyra hvernig var í partýinu :D
En þetta mep pakkana og auknan áhuga fyrir þeim. Ég hef bara aldrei séð hann Mikael svona, hann hefur aldrei verið neinn pakkamaður en núna, fjúff, hann vara reif upp hvern á fætur öðrum og einmitt fékk systir hans mjög góða hjálp við sínar gjafir :D HAnn bara reif upp allt saman. Í fyrra þá opnaði hann tvær gjafir og við neiddum hann til að opna tvær í viðbót seinna um kvöldið en svo bara stóðu þær við jólatréð og hann var bara að dunda sér í að opna restina nokkrum dögum eftir jóla, smá munur :D
En jæja, ekki nema 30 daga í arrival of the Verdisvej famelí, bara tilhlökkun. gætum kannski farið á eins og einn eða tvo róló, hérna eru ENGIR ! Takk fyrir það, eða allavega höfum við ekki séð neinn og þeir sem við h-fum spurt vita ekkert. Held ég að Mikael eigi eftir að vera glaður að hitta krakka sem eru á íslensku, honum fannst frábært á jólaballinu sem við fórum á því þar voru allir á íslensku :D Bara krúttaralegur.
Nóg um það, við bara biðjum að heilsa í bili og verðum svo í bandi þegar nær dregur komu okkar.
kv. Fjóla og viðhengin á Verdisvej.
p.s. takk svo mikið fyrir fallega jólakortið ykkar, vel hannað og stíliserað :D

Bryndís Ýr sagði...

Gleðilegt ár elsku fjölskylda. Megi nýja árið verða ykkur einstaklega gleðilegt og skemmtilegt í Barcelona og vonandi að þið hafið kvatt gamla árið með stæl og vínberjum.

Knús Bryndís vinkona

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár sömuleiðis kæru vinir og takk fyrir skemmtileg komment, ég elska að lesa þau.
Það er aldeilis gott að jólakortin hafi komist til skila og endað sem hálfgerð nýárskort.
Harpa ég verð að hrósa ykkur sömuleiðis fyrir fallegt kort og æðislega mynd af strákunum..við verðum að kenna Funa að segja nöfnin þeirra áður en þið komið í heimsókn.
Til hinna ætla ég að skrifa skilaboð inn á síður þeirra svo þetta endi ekki sem heljarinnar bloggfærsla hjá mér ;)
Hafið það ávallt sem allra best!

Nafnlaus sagði...

Elsku Besta Kolla mín og Famelí. Gleðilegt ár og takk æðislega fyrir jólakortið ;) Takk fyrir allar gömlu og góðu stundirnar okkar og vona ég innilega að ég komsit í heimsókn til ykkar einhvern tímann...Langar svooooooo!!!! Ég og Elli vorum einmitt með kalkún á gamlárs sem tókst svona líka vel, ekki biti eftir og allir pakksaddir og sælir. Have fun in Baxelona...Þangað til næst bæjó ;)

Ása Tása

Nafnlaus sagði...

Vá Ása! Það er ekki að spyrja að metnaðnum í eldhúsinu nammm...Ég vildi að ég væri sjúklega góður kokkur en það vantar heilmikið upp á það, ég myndi örugglega bara borða seríós í matinn ef ég fengi að ráða og kanski grjónagraut,hafragraut eða eggjahræru svona spari ;)En mér finnst gaman að borða matinn sem Bjarki eldar og gera eftirrétti og baka..það er þó eitthvað ;)
Ást frá Baxe xxx