þriðjudagur, 15. janúar 2008

Snilldarpælari,húmoristi,labbakútur og dillibossi!

Ég fékk smá samviskubit yfir að hafa varla sagt fréttir af smáfólkinu.
Nú verða semsagt sagðar fréttir af börnum...ekki bara einhverjum heldur mínum (jú og Bjarka ;)

Salka:
Er ótrúlegur pælari. Hún tekur eftir öllu í kringum sig og minnir oft á einna helst á rassálf..akkuru,akkuru,akkuru?? Ég held að þetta sé ekki aldurstengt því hún hefur verið svona frá því að hún byrjaði að tala í setningum.

Hún vill fá að vita allt um hlutina sérstaklega ef einhver meiðir sig eða eitthvað álíka "spennandi". Henni finnst endalaust gaman að heyra reynslusögur og sjúkrasögur af okkur Bjarka og fleirum. Hún talar til dæmis enþá um Hinrik sem sagaði í puttann sinn (nemandi í skólanum þar sem ég kenndi). Hvað hana dreymdi um að fá að hitta hann, sjá myndir af honum og heimsækja hann...Og hvernig gerði hann?..og hvað gerðu krakkarnir þá?..og hvað sagðir þú?.. og hvað sagði hann þá?..fór hann að gráta?..var mikið blóð?..stór plástur?Hún þarf að fá allar upplýsingar til þess að geta séð þetta ljóslifandi fyrir sér.

Hefur aldrei verið sérstaklega mikið fyrir mat og borðar aðeins ef brýn nauðsyn krefur.

Sölku finnst ekkert sérstaklega gaman í skólanum á Spáni (sérstaklega eftir langt jólafrí) en lætur sig hafa það og er alltaf rosa glöð þegar við komum að sækja hana og þá kjaftar á henni hver tuska. Hvaða krakki nennir svo sem að sitja við borð lungað úr deginum, gera verkefni, læra skrautskrift og skilja takmarkað það sem fer fram. Henni finnst skemmtilegast í nestistímunum og þegar einhver á afmæli! Við viljum auðvitað að hún hitti jafnaldra sína og læri tungumálið um leið en erum að athuga hvort hún geti ekki verið hálfan daginn.

Fékk þrisvar sinnum kartöflu í skóinn sem er mjög ólíkt henni en við kennum álaginu við allar breytingarnar um. Það er heldur ekkert gaman af of stilltum krökkum ..þá væru líklega engar bækur til eftir Astrid Lindgren.

Sölku dreymir um að eignast hund en mundi alveg sætta sig við kisu. Hún segist hugsa mikið um það áður en hún fer að sofa. Salka: "Allir hundar og kisur brosa til mín og veistu hvað þau eru að meina með því"?.."Þau eru að meina að þau vilji eiga mig og eiga heima hjá mér"!

Sefur ótrúlega fast...eins og ég.

Heyrir sko alveg munin á ensku og spænsku. Salka :"Þessi stelpa er að tala ensku" Ég: "nú, hvernig veistu"? Salka: "ég bara heyri það"...uuu já auðvitað

Var boðin í heimsókn til einnar bekkjasystur sinnar sem er frá Bandaríkjunum..það var gaman og við stefnum á að bjóða henni heim móti.

Elskar að klæðast flísgallanum hans Funa og tók tímabil þar sem hún fór í hann á hverjum degi eftir leikskóla.

Finnst gaman að teikna og föndra.

Er dugleg að skíra bangsana sína og dúkkurnar og stundum steinana og annað sem hún finnur. Mjaltalá, Krolta, Múli, Ingó Pingó, Geltarelli og Faxi Baxi eru nú þegar orðin klassík auk nokkurra hefðbundnari í bland.

Salka er sniðugur krakki (finnst okkur) og kemur með ódauðleg gullkorn og spekúleringar á færibandi. Ég hef engan veginn undan að skrifa það hjá mér sem er synd.

Núna talar hún stundum svolítið hátíðlega og reynir að nota ný orð og orðatiltæki óspart.Ég var til dæmis að gefa Funa að borða um daginn og sagði : "Jæja nú er Funi að verða búinn að borða".
Salka : "þá kárnar nú gamanið"! Hún vissi kanski ekki nákvæmlega hvað það þýddi en það var nokkuð til í því...Funa finnst ekki gaman þegar matartímanum lýkur og verður þá leiður og stundum líka reiður.

Um daginn sat Funi í dótakassanum og hristi hristu. Salka : "Mamma sjáðu hann spilar á eigin spýtur og freistar gæfunnar"!

Dag einn var Salka að leika úti á palli en kom svo inn og sagði "Ekkert að óttast, ég er komin inn" ..svona ef við skildum hafa haft áhyggjur.

Á jóladag gengum við niður götu þar sem fáir voru á ferli. Salka: "Mamma það virðist allt svo hljótt hérna".

Stundum getur maður líka ruglast. Salka : "Mamma verð ég unglingur ef ég held svona á gaflinum"? Var að meina örvhent.

Salka: "Mamma viltu kenna Björmu að skipta um skoðun"? Var að meina skipta um stöð en ég meina það er ekki svo mikill munur.

Salka er snör í snúningum og mér finnst hún hún ótrúlega fljót að hlaupa.

Getur alveg gleymt sér í "fjársjóðsleit"..týna steina skeljar og annað "gull" sem hún finnur í kringum sig

Funi:

Eeelskar að borða..þú skalt ekki reyna að borða fyrir framan þetta barn án þess að bjóða honum með. Matur er grafalvarlegt mál.

Finnst ótrúlega gaman að skoða bækur en er jafnframt mikill bókaböðull. Honum hefur nú þegar tekist að gera nokkrar harðspjaldabækur að einblöðungum. Þegar við lesum fyrir hann fylgist hann með af miklum áhuga og hefur alltaf gert, situr alveg kjurr fyrir utan það að reyna stundum að hjálpa til við að fletta.

Um jólin uppgötvaði hann enn eina af dásemdum lífsins...mandarínur. Þegar við minnunst á eina slíka hrópar hann upp yfir sig... mandaaa!!!

Hann borðar nánast allt...meira að segja sítrónu. Við ætluðum að stríða honum en féllum á eigin bragði þegar hann borðaði sítrónusneiðina með bestu lyst..þó með súrum geiflum okkur til mikillar gleði.

Fyrir utan að borða veit Funi fátt skemmtilegra en að dansa! Hann má ekki heyra bút úr lagi , takt eða eitthvað sem líkist lagi án þess að dilla sér við..be
ygir sig í hnjánum og sveiflar eða "dillar"höndunum ofur krúttlega með. Meðal þess sem Funi hefur dillað sér við síðustu daga er : Pískurinn þegar amma var að þeyta rjóma og hjartalínurit í læknaþætti auk fjölda annara takta, hljóða og laga.
Sefur ótrúlega laust...eins og pabbi sinn.

Þegar Funi er á staðnum þá fer það yfirleitt ekki framhjá nokkrum manni...hann gæti flokkast undir fyrirferðarmikið barn sem finnst gaman að láta í sér heyra. Hann er líka mikill áhugamaður um hljóð og hermir óspart eftir hljóðum í kringum sig.

Þrátt fyrir að vera frekar fyrirferðamikill gaur sem elskar hávaða og læti á hann líka sínar ofurmjúku hliðar. Hann smellir kossum í allar áttir eftir pöntunum og splæsir oft í knús með.

Funi ákvað loks að læra að labba að vel hugsuðu
máli...ekkert að ana út í hlutina. Það er heillangt síðan hann tók fyrstu skrefin en við fengum hann ekki til þess að labba bara af stað. um nokkurt skeið virtist hann ætla að ganga eins og barn sem hefur verið alið upp hjá úlfum...labbaði en studdi sig með höndunum í gólfið.

Það var svo um daginn að ég kom að honum inn í stofu vera að æfa sig í einrúmi...rölti í rólegheitunum stofuna þvera og endilanga með dót í hendinni sem hann lét detta í tíma og ótíma til að æfa sig svo að beygja sig eftir því. Þegar hann varð var við mig skellti hann sér á hnén aftur og æddi til mín á fjórum fótum ..eins og þetta væri algjört leyndarmál!

Nú labbar hann um allt og veit fátt eins skemmtilegt...við erum ekki frá því að hann hafi róast við það að öðlast þetta aukna sjálfstæði .
Er mjög mikið fyrir booolta og leggur mikið á sig til að ná einum slíkum ef hann er í augsýn. Eins eru hin ýmsu farartæki vinsæl..sérstaklega ef það eru læti í þeim og hundar og dúfur sem hann eltir ef hann fær tækifæri til þess.

Funi kann einstaklega vel við sig úti undir berum himni og vill helst alltaf vera úti á palli, róló eða hvar sem úti er að finna...helst vill hann samt fá að vera frjáls og ekki bundin við kerruna. Hann getur til dæmis dundað sér heillengi úti á palli við það að endurraða steinum, hræra með skóflunni í blómapottunum, fylgjast með vinnumönnunum og stóra krananum eða líkja eftir hljóðum sem hann heyrir í umhverfinu.

Honum finnst tússlitir mjög spennandi og einstaklega gaman að teikna á blað ...eina vandamálið er að honum finnst þeir líka svo góðir á bragðið. Daginn sem hann ákvað að læra að labba kom hann röltandi með tússlit í hendinni..."gefa mömmu" mér fannst vissara að taka tússlitinn úr umferð en var samt í miðju kafi að gera eitthvað. Nokkru síðar heyrði ég Funa segja:"Vvvááááávááá" ,greinilega mjög ánægður með sig. Ég leit til að sjá hvað væri svona flott og sá mér til skelfingar að hann var búin tússa þessa fínu mynd á vegginn!!Ég þurfti reyndar að halda í mér til að springa ekki úr hlátri, hann var svo ótrúlega ánægður með þetta.

Hann er vanur að klifra upp á sófaborðið (mjög svo lágt sófaborð) og fá sér sæti þar en nú er það nýjasta að klifra upp á það og standa upp, labba alveg fram að brúninni, aftur til baka og setjast aftur niður..endurtekið eftir þörfum.

Okkur finnst hann duglegur að læra ný orð og finnst hann skilja okkur mjög vel...einnig er hann góður í að sýna með látbragði hvað hann vill hverju sinni....Eins og ég er nú hrædd við látbragðsleikara! ; )


Þar hafiði það!
Svona eru þau þessa dagana og miklu meira til.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá skemmtilegur pistill. Maður hugsar til ykkar með söknuði að geta ekki fylgst með börnunum ykkar koma fram með hvert skemmtiatriðið á fætur öðru. Maður huggar sig þó við það að sá tími mun koma þó hann sé ekki akkurat núna. Ekkert af þessum skemmtilegu atriðum afkvæma þinna ætti að koma þér á óvart því börn sem eiga ykkur sem foreldra hjóta bara að verða hressileg eins og foreldrarnir. Skilaðu kveðju til Sölku frá mér og segðu henni að mér finnist hún ótrúlega dugleg að mæta í svona útlenskan skóla þar sem hún þekkir engan. Algjör hetja. Knús og kossar héðan úr snjólandinu Íslandi.
p.s. takk fyrir gestabókarfærslu.. sem ég svona bara hálfpartinn svaraði back to you á barnalandi ;-)

Nafnlaus sagði...

hihi og þetta var sem sagt ég.. Lára klára

Nafnlaus sagði...

Takk Lára! Mér finnst líka sjúklega gaman að fylgjast með ykkur fjölskyldunni þó það sé aðeins í fjarska þessa stundina..svo kemur að því að við hittumst í raunheimum og þá verður nú gaman! Þangað til notumst við við tæknina..hver hefði trúað því að ég segði það?..þetta er sko eiginlega mitt msn hehe.
Ástarstraumar og ljúfir draumar beint til ykkar frá okkur xxx

Nafnlaus sagði...

Æðisleg börn. Og frábær eftirtektarsöm mamma með húmor. Þær gerast heldur ekki betri.

"Kenna Björmu að skipta um skoðun" er nú eitt það fyndnasta :D