Skólaferð á sunnudegi kl. 9... virkar það? Þótt ótrúlegt megi virðast, já!
Salka fékk miða heim á katalónsku þar sem tilkynnt var um þessa ferð og eftir að hafa fengið lauslega þýðingu ákváðum við að sjálfsögðu að fara með. Það var að vísu tekið fram að ef það yrði rigning yrði ferðinni aflýst!? Hvern hefði grunað að spænsk börn væru ekki vatnsheld? Ef það rignir er ekki farið út í skólanum þann daginn og ég hef aldrei séð spænskt barn í regngalla. Íslensk kona sem bjó hérna sagðist eitt sinn hafa farið með dóttur sína út að hoppa í pollunum og drullumalla á róló í regngalla og stígvélum og aðrar mæður (sem áttu leið hjá með börnin sín , því það er ekkert hægt að leika sér í rigningu) horfðu á hana eins og hún hefði girt niður um sig fyrir framan nefið á þeim. Menningarmunur.
Við lögðum af stað í rútuna á sunnudagsmorgninum óvenjuvel undirbúin með fullt af nesti. Smurðar samlokur, ávaxtasafi, kex og núðlur með grænmeti og kjúklingi var meðal þess sem rataði í töskuna. Mér hafði verið sagt af einni mömmunni (hollenskri og þar af leiðandi enskumælandi) að þau legðu mikið upp úr nestinu sínu, kæmu með fullt af mat og auk þess vín til að skola honum niður. Við ákváðum því að leggja svolítið upp úr nestinu okkar en slepptum reyndar víninu..vorum ekki alveg viss svona í skólaferð? Eins og okkur grunaði þó hefðum við alveg geta sleppt því að spá í því þar sem sumir foreldrarnir sötruðu bjór kl. rétt rúmlega 10 úti í skóginum. Með matnum var ekkert eðlilegra en að fá sér hvítvín eða bjór en auðvitað sást ekki vín á nokkrum manni..aftur menningarmunur.
Ferðin var í alla staði vel heppnuð, góð mæting og það var gaman að fara aðeins út fyrir borgina og hitta krakkana í bekknum og foreldra þeirra. Salka fór í þrautabraut í skóginum á meðan Funi brasaði í moldinni, klifraði upp á steina, týndi sprek og fann ýmislegt sem þurfti að kanna nánar. Að þrautabrautinni lokinni breiddum við út teppi (ég sagði að við hefðum verið vel undirbúin) á grasinu og gæddum okkur á fína nestinu...vantaði bara hvítvín. Við vorum hæstánægð með veðrið, sól, örlítinn vind og 17 stiga hita, semsagt fínasta íslenskt sumarveður. Salka endaði á nærbolnum að leika, við flatmöguðum á teppi, nörtuðum í nesti, fylgdumst með krökkunum og blönduðum geði við fólkið. Þegar leið á daginn kom ein af foreldrunum og tilkynnti okkur að þau ætluðu að leggja örlítið fyrr af stað heim vegna þess að sumum væri orðið svo kalt!? Við kinkuðum kolli og brostum þótt við skildum auðvitað ekkert um hvað hún væri að tala...kalt já satt segiru ,17 stig eru náttúrulega ekki manni bjóðandi. Hvorki vatns né vindheldir?
Þeir kunna kanski gott að eta en spurning hvort þeir kunni gott að meta?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
En ótrúlega nice og skemmtileg fjölskylduskólaferð...
Nú er svo komið hjá mínum dreng að hann er að fara í skólaferð í mai..en fjöldkylduferð er það eigi. Hann mun vera að fara í tveggja nátta ferð í Vatnaskóg með kennurunum sínum. Hann er jú orðinn 5 ára og ekki seinna vænna en að drífa sig í slíka ferð. Ég hlakka nú mikið til fyrir hans hönd en ég neita því ekki að maður á eftir að hugsa mikið til hans svona fjarri heimahögum.
Njótiði 17 stigana en hér er hitinn loksins að nálgast 5 stig.
kv. lvk
Já það er einmitt skólaferð í maí hjá Sölku líka og gist í að ég held 2 nætur...held við sleppum því, er ekki viss um að hún myndi höndla það að vera í burtu svona "lengi" og auk þess skilja takmarkað hvað fer fram enda verða líklega gestir hjá okkur á þeim tíma ;)
Vatnaskógur hljómar þó vel enda Dagur náttúrulega orðinn 5 að verða 6, öllum hnútum kunnugur í skólanum sínum og skilur alveg hvað allir segja ;)
Sakn og koss
Leitt að heyra að spænsk börn séu ekki vatnsheld hehe :D
Ein frænka mín býr á Spáni og það er nú bara alltaf frí í skólanum hjá strákunum hennar þegar það er rignin, og í hvert skipti sem er rigning, alveg sama þó það sé í marga daga í röð ! Alveg spes.
Ég er einmitt ennþá alltaf að bíða eftir "farameðteppiútíalmenningsgar" veðri, liggja í hitanum og sólinni meðan þau dingla sér hehe. Veit ekki alveg hvenær ég má eiga von á því þar sem það er ennþá stöku sinnum næturfrost hérna og það er komin apríl !!!! Frekar glatað sko :D
knús og kossar :*
Hehe.. já spáðu í því ef það væri alltaf frí í skólanum og skólaferðalögum aflýst ef það rigndi eða kæmi smá vindur..þá kynni líklega enginn að lesa á Íslandi;)
Vona að sólin og hlýjan komi í stað næturfrosts hjá ykkur sem fyrst.
Kossar til ykkar
Skrifa ummæli