Mamma er komin og farin...kom með fullar töskur af allskyns dóti fyrir okkur, fötum, saumadóti, gjöfum frá sér og öðrum fjölskyldumeðlimum (sem slóu alveg í gegn) og skinkuhornum! Mamma hefur nefninlega þann sið að baka skinkuhorn í afmæli og veislur og Funi átti einmitt afmæli um daginn. Fyrst eftir að við komum hingað var Salka alltaf að spyrja ömmu sína um skinkuhorn í símann .Það þarf nú varla að taka fram hvað fjölskyldumeðlimir voru kátir með sendinguna. Mamma fór svo aftur heim á föstudaginn með fullar töskur af jólapökkum...farin að hafa það á tilfinningunni að hún sé eingöngu burðardýr.
Við áttum annars mjög góða daga hér í borginni þrátt fyrir að ég hafi á stundum bókstaflega gengið fram af henni eða fram úr henni með löngum og ströngum göngum en óvenjulitlum ógöngum. Ef þið sjáið kappklædda konu á kraftgöngu í Fossvoginum þá eru miklar líkur á að það sé móðir mín að æfa sig fyrir næstu ferð til Baxe sem er eftir ekki nema rúmlega 2 vikur. Funi var himinlifandi að fá ömmu sína sem kom með leiktjald, nennti að vera með honum úti á palli að leika daginn út og inn og passaði að hann borðaði ekki of mikið af laufblöðum, steinum og trjágreinum. Salka var bara glöð að endurheimta ömmu sína sem hún hafði saknað svo mikið. Hún fékk að vera í fríi einn dag í skólanum til að vera með ömmu og þá fórum við í tveggja hæða strætóinn sem henni hafði verið lofað svo lengi (bus turistic). Funa var líka boðið með en honum var skilað heim eftir nokkrar stoppustöðvar sökum dólgsláta.
4 dagar er ekki langur tími en við skoðuðum þónokkuð, löbbuðum heimikið og slökuðum smá og við huggum okkur svo við að amma Kolfinna kemur aftur um jólin í 2 vikur og þá er nú hægt að gera ýmislegt en líka tjilla fullt!
Salka er nú búin að vera í skóla í 2 vikur og hún er alveg ótrúlega dugleg . Alla síðustu viku kvaddi hún okkur án tára og var glöð og kát þegar við sóttum hana. Hún er dugleg að segja okkur frá því sem fer fram í skólanum sem er svo ótrúlega ólíkur Sælukoti á Íslandi. Börnin sitja fjögur og fjögur saman á hringborði og það er ekkert dót í stofunni. Þau gera verkefnablöð, lita, mála stundum og leira. Þau syngja líka og Salka er farin að reyna að herma eftir hreyfingunum og textanum. Einu sinni söng Salka allt lagið um Klóa kattarskrækir á "spænsku" fyrir okkur Siggu..það hefði ég vilja eiga á video.Einhverntíman komu eldri krakkar og spiluðu á hljóðfæri og þau yngri fengu líka að prófa. Samkvæmt skólastjóranum er farið í vettvangsferðir og börnin fara líka í tölvutíma. Útisvæðið er steinsteypt plan þar sem börnin hlaupa og leika sér í engum leiktækjum.Þeir sem ekki eru í mat í skólanum koma heim í 2 klukkutíma yfir daginn og fara svo aftur í 2 klukkutíma. Allir koma með með nesti ..tvisvar á dag. Þetta eru miklar breytingar en Salka tekur þessu ótrúlega vel enda alltaf verið gædd ríkri aðlögunarhæfni.
Helgin var ljúf og einkenndist af rölti og bæjarferðum.Salka gaf dúfunum korn að borða og kom okkur á óvart með því að gefa þeim beint úr lófanum sínum og svo leyfði hún þeim líka að setjast á hendina sína og borða kornið úr lófanum...við vorum alveg hissa á þessum æfingum. Við settumst á útikaffihús og það vildi svo vel til að þar var róló sem krakkarnir gátu leikið á meðan við fengum okkur hressingu. Á leiðinni á matarmarkaðinn gaf maður nokkur Sölku tvær mandarínur. Á matarmarkaðnum iðaði allt af lífi og litum og við gæddum okkur á ananas, sveskjum,apríkósum og ávaxtahristingum. Við röltum Römbluna og virtum fyrir okkur allar fígúrurnar sem skemmta fólki þar. Salka var alveg búin að ákveða að gefa boltakalli smá pening..(sumir búningarnir eru nefninlega svolítið hræðilegir og henni fannst boltakallinn líta sakleysislega út) en hann var farinn svo að kisa nokkur naut góðs af góðmennsku Sölku og gaf henni lítinn brjóstsykur að launum. Kisan var voða almennileg og gaf sig á tal við okkur, sagði okkur að hún (hann) kæmi frá Brasilíu og hefði mikinn áhuga að koma til Íslands. Salka vildi vita hvort hún kæmi í búningnum..það er góð spurning.
Niðri í bæ var kröfuganga þar sem þess var krafist að Katalónía yrði sjálfstætt ríki í Evrópu.."Catalonia is not Spain"...Það var múgur og margmenni allir rosa glaðir hrópandi slagorð, klæddust katalónska fánanum og veifuðu spjöldum og undirskriftarlistum. Sum slagorðin voru á ensku. Kanski til þess að hræða ekki útlendinga og túrista sem gætu haldið að það hefðu brotist út óeirðir.Á sunnudaginn héldum við á ströndina..ekki á sundfötunum þó að hitamælirinn sýndi 18c. Á leiðinni benti Bjarki mér á að þarna væri par sem sat við hliðina á okkur á kaffihúsinu daginn áður. Við komumst að því að þetta væru lesbíutvífarar okkar..önnur var með alveg eins hár og Bjarki en hin var með alveg eins og ég og þær virðast gera svipaða hluti á daginn líka. Skemmtileg hljómsveit spilaði við ströndina og við keyptum meira að segja diskinn...það á eftir að koma í ljós hvort að harmonika,blásturshljóðfæri,gítar og trommur hljóma eins vel innan veggja heimilisins eða hvort það var bara staður og stund sem heillaði okkur.
Allt sem tengist jólunum á hug okkar allan og þá sérstaklega Sölku...henni finnst til dæmis ótrúlega merkilegt að spænsku krakkarnir fái ekki í skóinn og vel gert af jólasveinunum að koma alla leið frá Íslandi með glaðning. Emilía frænka hennar var svo góð að senda henni súkkulaðidagatal sem hún bíður spennt eftir að fá að opna eftir skóla.
Næsta mál á dagskrá eru svo jólakortin þar sem mamma fór með jólagjafirnar til Íslands í töskunni sinni góðu! Ég bendi þeim sem vilja gleðja okkar hjörtu að senda okkur kort á heimilsfangið neðst á síðunni.
Nú þurfum við að huga að þvottavélinni sem við komum ekki í gang með nokkrum ráðum og liggur einn fjölskyldumeðlimur undir sterkum grun. Ef allt bregst og við finnum ekki út úr þessu þá gætum við brugðið á það ráð að þvo fötin í hinu nýuppgötvaða undri...uppþvottavélinni!
Deo í bili
12 ummæli:
Ji hvað ég hlakka til að koma til ykkar í "hitann" :D Hérna er bara kalt, kalt og svo aðeins meira kalt.
Greinilega alltaf nóg um að vera hjá ykkur. Enda alveg í hjarta bæjarins bara. Ekki alveg sú staðsetning hjá okkur :D En það mun allt lagast með tilkomu bílsins.
Ég er alveg farin að telja bara niður í komu okkar. Ég er að fara til Íslands 6 jan og verð til svona 22 þannig að maður verður bara stutt hérna í henni Danmörku áður en maður heldur á vit ævintýranna til ykkar íbúa í suðrinu.
kv. Fjóla og co.
Mér finnst mjööög smart að setja myndir inn með blogginu. Ótrúlega fagmannlegt og kúl.
Krakkarnir þroskast og dafna og hann Funi er bara búinn að breytast heilmikið síðan hann varð eins árs. Eða allavega frá því hann fór frá Íslandi.
Baman (Orri segir gaman)
Harpa, Adam og strákarnir
Halló kæra fjölskylda. Það er greinilega aldrei lognmolla í kringum ykkur og nóg að gera. Ég ætla að hafa hraðann á þegar ég kem heim frá ameríkunni og gera jólakortin svo kortið ykkar komist nú til spánalands í tæka tíð....
knús og kossar
kv.lvk
Jú jú það er alveg lognmolla hjá okkur líka en stundum gustur og alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera! Mér líst stórvel á þetta með jólakortið ég sendi þér líka eitt um hæl..spurning hvað það tekur marga daga að komast til skila?
Jæja kæru vinir. Mikið er gaman að lesa bloggið ykkar, Kolla er svo skemmtilegur penni ;) Þegar ég las heimilisfangið ykkar neðst var mér hugsað til Skugga Vindsins, búin að lesa? Hehehe. Við Elís verðum í Svíþjóð um jólin. Mamma hans býður okkur út þar sem við hittum systur hans, mann og tvö kríli sem eru 4 og 6 ára. Það verður ekki leiðinlegt. Komum heim 27. des svo áramót verða haldin hátíðleg hér með tilheyrandi skaupi og flugeldum. Jæja þá ætla ég ekki að babbla meir, enda ekki mitt blogg. Tístandi fuglinn kveður að sinni. Bless bless- Ása
úpps gleymdi einu, hafið það gott elsku fjölskylda. Ykkar er sárt saknað frá Íslandinu góða.
xxx
Gaman að geta fylgst með ykkur hér. Ég fór til Fanneyjar í Sverige í nóvember og svo er stefnan tekin til þín næst...annars eru prófin framundan, ný vinna og nýr staður til að búa á svona það helsta fram að jólum held ég.....já Sæjónara,
þinn vinur Fili-Foly.
Skuggi vindsins var búin að stara á mig úr bókahillunni í þónokkurn tíma en nú er ég loksins byrjuð á henni þökk sé áminningunn ; )
Svíþjóð er greinilega alveg málið hjá systrum og hljómar ótrúlega vel yfir jólin.
Ég held ég verði svo að slá á þráðinn til Timmy litla og fá frekari útlistingar á nýjustu upplýsingum!
Sætustu stelpurnar á Spáni í blaðinu í dag :D gaman að lesa.. og eins bloggið!
Mikið hljóta jólin að verða sniðug í Baxe. Maður veit ekkert um spænsk jól. ... nema að það eru þrír vitringar (eða jólasveinar) sem er aðal á Spáni er það ekki? Svo er spurning hvað þeir borða. Einu sinni fékk ég fjölskyldumat á sunnudegi sem hét Pasta í salsa rossa. Það voru pastaskrúfur á kafi í risastórri skál af kokteilsósu :þ kannski þið prófið eitthvað svoleiðis á jólunum... nei djók ;)
knús á sætu börnin
arna
Æðislega gaman að sjá ykkur sætu mæðgur í Blaðinu í gær (eða 24stundum!). Augljóst að ekki væsir um ykkur fjölskylduna.
KNús
Bryndís
Já Arna ég tek þess uppástungu til alvarlegrar athugunar og ber hana undir kokkinn eða kem honum kanski bara á óvart á jóladag!
Annars er aðaldagurinn hér víst 6. jan og þá koma vitringarnir með pakkana og börnin segja einhverskonar "trjáboli" óskir sínar og daginn eftir hefur hann kúkað gjöfunum..þeir eru voða uppteknir af þessu kúka dæmi og það eru til endalaust af styttum af manni með buxurnar á hælunum og að kúka?Veit ekki alveg hvort sú stytta tengist jólunum eeen hún er allavegana til í öllum stærðum fyrir áhugasama ;)
Nei það væsir svo sannarlega ekki um okkur og ég bíð spennt eftir að fá að kynnast fleiri jólasiðum hér í Baxe...meira um það síðar...
whut? tré sem kúkar gjöfum, þetta er nú ...spes siður og fyndinn :)
Skrifa ummæli