sunnudagur, 6. janúar 2008

Upphaf og endir

2007 var gott ár og 2008 byrjar vel.

Eftir dýrindis máltíð að hætti okkar allra, Bjarki sá um aðalréttinn, mamma um forréttinn og ég eftirréttinn á gamlárskvöld... rækjukokteill, nautasteik með búrgúndísósu (fínna orð yfir rauðvínssósu) og öllu tilheyrandi og súkkulaðisúfflei með ís í eftirrétt, fórum við semsagt yfir til nágrannanna og gleyptum vínber á slaginu 12 og skoluðum því niður með cava. Við heyrðum reyndar ekki alveg þegar klukkan byrjaði að slá svo það var ekki akkúrat eitt vínber á hverju slagi en við náðum að klára þau á slaginu 12..það hlýtur að teljast með og árið verður okkur heilladrjúgt?. Fólk tekur þessa hefð annars mjög alvarlega og það eru alltaf einhverjir sem nánast kafna í öllum hamaganginum. Að loknu vínberjaátinu horfðum við á alla 4 flugeldana bjóða nýja árið velkomið...ég er ekki að ýkja! Ég var búin að spyrja spænskukennarann hvort það væri venjulega mikið um flugelda á gamlárskvöld og hann hélt það nú ; ) Ég reyndi hvað ég gat að finna stjörnuljós í bakaríinu? sem ég keypti þau í um daginn en afgreiðslukonan vildi ekkert kannast við það. Ég fór á nokkra staði í viðbót en enginn seldi stjörnuljós. Þetta voru því flugelda og stjörnuljósalaus áramót en þeim mun meira af vínberjum og cava !

Það var gaman að fagna nýju ári með fleirum en sjálfum okkur og við nutum góðs af einstakri gestrisni Roche hjónanna. Salka fékk að koma með í partý en sofnaði fljótlega og Funi svaf vært í sínu rúmi enda engir flugeldar til að raska ró þeirra. Michael er mikill áhugamaður um vín og þá sérstaklega eftirréttavín og leyfði okkur að smakka hinar ýmsu tegundir og auk þeirra virtist hann eiga allar tegundir af vínum..."hvað drekkur þú venjulega"? "Jamm ,gin og tonik minnsta mál...og þú, já hvítvín". Svo kynnti hann hvers kyns hvítvín þetta væri nú og passaði alltaf að allir væru með nóg í glösunum...hann er einmitt íri ef við ætlum að fara út í staðalímyndir ; ) Við spjölluðum frameftir um hitt og þetta og fólkið var til dæmis mjög hissa á skólanum hennar Sölku og fannst skóladagurinn skelfilega langur (6 klst.) "Af hverju valdiru þennan skóla"? Spurði ein konan. Ég vissi ekki að ég hefði mikið val auk þess sem mér finndist hann nú ekki alslæmur. Hún sagði mér jafnframt að hún vissi um góðan Waldorf leikskóla og ég er mjög spennt fyrir þeim kosti, ætla að athuga það betur. Ég ræddi ekkert hvað leikskóladagur sumra barna á Íslandi væri langur, ég er ekki viss um að þau hefðu skilning á því .Þau búa í sveitasælunni á Írlandi, hann er leirkerasmiður og hún sér um sölu og markaðssetningu. Ég held þau séu bara að gera það gott og selja leirvörur út um allt Írland og víðar. Börnin þeirra hafa kanski bara leikið lausum hala í sveitinni og hjálpað pabba sínum við leirkerasmíðina þess á milli og þar af leiðandi ekki þurft á leikskóla að halda.

Okkur Bjarka fannst ótækt að fara bara heim að sofa eftir heimsóknina og mamma var svo almennileg að passaði börnin á meðan við kíktum á hvað hverfið okkar hefði upp á að bjóða eftir miðnætti á gamlárskvöld. Það var nú heilmikið..allir staðir stappaðir en við fundum bar sem okkur leist vel á og sátum þar í góðu yfirlæti með freyðivín í boði hússins og þar sem ekki var hægt að panta léttvín þá pantaði Bjarki Manhattan handa mér og bjór handa sér? Við skiptum á sléttu. Þegar við höfðum skemmt okkur dágóða stund fórum við heim og borðum restar af eftirrétti og horfðum skaupið.

Mamma fór heim í fyrradag eftir tveggja vikna huggulega dvöl. Við brölluðum ýmislegt en ekkert mjög mikið túristalegt. Fórum í göngutúra og mömmu var meira að segja treystandi að fara ein út í göngutúr þegar á leið ; ) Í hnotskurn: kósí jól, 10 manna hádegisverðarboð, Næturvaktin, jólalög , góður matur, áhugaverð áramót, afslappelsi og sirkus.

Ég minntist á að vitringarnir kæmu með gjafirnar en mér datt ekki í hug hversu mikið væri lagt í það atriði. 5. janúar komu Konungarnir 3 þeir Melchior, Caspar og Balthasar með skipi að höfninni og þar tók fólksfjöldi á móti þeim ásamt borgarstjóra og fríðu föruneyti hans. Borgarstjórinn afhendir konungunum svo lykla af öllum húsum borgarinnar (til þess að þeir komist með gjafirnar á leiðarenda) og jafnframt gefur hann þeim salt og brauð til að sýna vinsemd og þakklæti borgarbúa. Konungarnir halda svo í skrúðgöngu ásamt fylgdarliði hver á sínum vagni um borgina. Þetta er ótrúlega sérstakur viðburður og nú í ár var áætlað að dreifa um 15 tonnum af sælgæti sem konungarnir eða aðallega fylgdarlið þeirra á allskyns litskrúðugum og fagurlega skreyttum vögnum dreifir yfir mannfjöldann. Götuljósin voru dempuð til þess að vagnarnir og öll ljósadýrðin fengi að njóta sín sem best. Með konungunum eru allskyns listamenn ásamt almenningi og sjálfboðaliðum sem hjálpa til við að gera skrúðgönguna ógleymanlega í augum áhorfenda. Rúmlega 1000 manns auk 21 dans og leiklistarskóla í Barcelona taka þátt.

Við létum okkur ekki vanta við höfnina og sáum konungana koma siglandi við mikla viðhöfn. Við röltum svo aðeins um bæinn og stilltum okkur síðan upp ásamt fjölda fólks til að bíða eftir að skrúðgangan liðaðist framhjá...þvílík sýning!!! Allskyns fígúrur, glimmer, bumbusláttur, hestar, álfar, arabar og alvöru kameldýr voru meðal þess sem fyrir augu bar! Það rigndi nammi og þeir sem stóðu fremstir voru sumir hverir með regnhlífar og poka til að safna í en aðrir eins og við létu sér nægja að grípa eitt og eitt eða tína upp úr götunni ; ) Sumir höfðu komið með stiga að heiman til að sjá sem best og mörg börn voru með bréf til konunganna sem innihéldu óskir þeirra...það voru hundruðir "konunglegra" póstburðarmanna sem tóku á móti bréfunum með loforði um að koma þeim í réttar hendur.

Þetta var alveg ótrúlega íburðarmikil og flott sýning og stemmingin alveg frábær..börn og fullorðnir veifuðu, klöppuðu og kölluðu til konunganna og allir reyndu sem mest þeir máttu að grípa þó ekki væri nema eina karamellu.. en helst fleiri. Salka var til dæmis ekkert sérstaklega sátt við að ná bara þremur molum og þegar skrúðgangan fór framhjá okkur aftur á leið okkar heim þá náðum við fleirum . Þá varð Salka glöð og þó að hún hafi ekki einu sinni borðað nema 2 þá gildir það einu...hún náði fleirum en 3! Að skrúðgöngunni lokinni áttu öll börn að fara snemma að sofa til að fá eitthvað fallegt frá konungunum 6. janúar.

Það væri ekki vitlaust að reyna að innleiða þessa hefð á Íslandi.. og sleppa kanski Coca cola lestinni á næsta ári?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt árið Kolla mín og co :) Það hefur aldeilis verið skemmtilegt hjá ykkur á gamlárskvöldi, alltaf gaman að upplifa e-ð nýtt!
Við söknuðum ykkar sko í hádegisboðinu, en hittumst bara spræk á þessu ári.
jááááá og Litli HófíKlóason er ógó sætur :) alveg eins og pabbi sinn hihi.
knús
Selma og gríslingar

Arna Ösp Guðbrandsdóttir sagði...

Gleðilegt ár elsku Kolla og fjörskylda! Takk fyrir æðislega fallegt jólakort (Arngrímur varð alveg sérstaklega glaður) og heimboð - við verðum kannski á ferðinni hver veit ;) Sjálf skrópuðum við í jólakortabisnesnum - en eftir að hafa fengið ótal æðisleg kort lofaði ég mér því að það yrði í síðasta skipti sem ég yrði ekki með.

Það er æðislegt að lesa um ævintýrin ykkar. Haldið áfram að vera svona glöð og góð í útlandinu og njótið alls þess sem þetta góða ár hefur upp á að bjóða.

Ástarkveðja frá okkur

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár öll.

Það er svo gaman að lesa hvað þið eruð búin að vera að bralla úti.
En ég heimta fleiri myndir til að skoða.
En við söknum ykkar endalaust mikið og hlökkum til að koma til ykkar um páskana.
María, Adam, Rakel, Eiríkur og Eva María