mánudagur, 12. maí 2008

Þá sjaldan maður lyftir sér upp

Mamma fór heim á föstudagskvöld eftir 3 vikna dvöl hjá okkur. Hún kom að sjálfsögðu með ýmislegt góss í farteskinu og 8 kíló í yfirvigt. Hún var orðin svaka klár að rata um borgina og gekk hana þvera og endilanga alla daga með eða án okkar, fór í búðir gerði verðkannanir og keypti allskyns góðgæti sem við nutum góðs af á milli þess sem hún naut sólarinnar og fór kaffibrún heim eins og henni einni er lagið.

Eitt sinn þegar mamma sat úti á palli að sóla sig sagði hún við Sölku í hálfkæringi að kanski ætti hún bara að kaupa sér íbúð í Barcelona. Salka var ekki lengi að bregðast við, spurði fyrst hvort það kostaði ekki marga peninga og þegar amman jánkaði því hljóp Salka inn og kom aftur að vörmu spori með sparibaukinn sinn (hnetudós sem við límdum glanskisumynd á og skárum rauf á lokið) með öllum peningunum sem hún hafði ætlað að nota til að kaupa sér hest. Hún kom sigri hrósandi með þetta út til ömmu sinnar alveg tilbúin að gefa upp drauma sína um hestinn til að amma hennar gæti eignast íbúð á Spáni. Það fannst mér fallegt. Hesturinn er samt enþá á dagskrá þar sem amma tók ekki peninginn ;)

Við vorum einnig svo heppin að fá að prófa nokkra veitingastaði á meðan mamma tók að sér að passa. Það úir allt og grúir af veitingastöðum í hverfinu okkar og auðvitað borginni allri. Japanskt, tælenskt,indverskt,palestínskt er meðal þess sem við gæddum okkur á og vá hvað það var gaman. Alls konar ilmur, krydd og stemmning. Á palestínska staðnum var ótrúlega afslappað andrúmsloft. Ég hef stundum spáð í því af hverju sumt virkar en annað ekki. Oftast eru það litlu kósý staðirnir sem eiga vinninginn með heimilislegri og huggulegri stemmningu á meðan aðrir staðir koma og fara og eiga það margir sameiginlegt að reyna aðeins of mikið. Nýjasta lúkkið í einu og öllu og maður hefur á tilfinningunni að það megi alls ekki setjast á ofurhönnuðu stólana eða færa glösin af hættu við að káma út nýpússað glerborðið. Mér finnst það ekki góð tilfinning og þess vegna var ég að fíla palestínska staðinn extra vel... þjónustan eins og við værum bara í heimsókn, þjónninn í sínum heimafötum og leit ekki út fyrir að vera spá allt of mikið í þeim, maturinn vel úti látin..ekkert fansí framsettur en ótrúlega bragðgóður með allskyns nýjum kryddum og ilmi. Það var nóg að gera á litla staðnum og fólk ýmist borðaði, spjallaði og drakk með bros á vör en flestir allt í bland. Hinir staðirnir voru ekki síðri og áttu allir sameiginlegt að ná þessari góðu stemmningu án þess að reyna of mikið. Skemmtilegast var samt að fara aðeins út saman tvö...það er alltaf gaman.

Hér kom annars mesta rigning
í manna minnum um helgina ...allan föstudag og laugardaginn líka. Maður sem hefur búið hér í 8 ár sagðist aldrei hafa séð annað eins. Við gerðum bara það sem sannir Íslendingar gera í vondu veðri og fórum í mollið aðallega til að leyfa krökkunum að valsa um en komumst að því að það voru fleiri en Íslendingum sem datt þetta ráð í hug þannig að við slepptum því alfarið að reyna að versla. Í metróinu á leiðinni heim blasti við hálfgerður regnhlífakirkjugarður. Þær lágu þarna út um allt skakkar, skældar, berstípaðar og ónýtar eftir veðurbarninginn því það var líka vindur svo þetta minnti einna helst á ekta íslenska haustlægð. Fréttatíminn var svo undirlagður af fréttum af þessum ósköpum en við vonum að þetta hafi bara verið smá djók og sólin og hlýjan komi aftur innan skamms.

Nú bíðum við hinsvegar spennt eftir Frissa bró og fjölskyldu sem koma bara á eftir og ætla að stoppa í 2 vikur jííhaaaa!

Kíkiði endilega á nýjar myndir ;)

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það hefur örugglega verið ótrúlega nice að geta farið á nokkur "deit" á meðan mamma þín var hjá ykkur og auðvitað líka bara frábært að hafa mömmsu sína á svæðinu.... jú nó svona óver all...
Ég er nú alveg sammála þér með ofurhönnuðu staðina sem maður finnst maður hreinlega þurfa að vera svarthvítur til að passa inn í og auðvitað alveg sérlega dannaður og formlegur... ekki nógu hressandi...
Knús í rigninguna.. sem breytist eflaust í mikla sól mjög fljótlega..
kv.lvk

Nafnlaus sagði...

ómæ...
var að skoða myndirnar þínar..
vúhú og váhá... en meira um það seinna....just hold on..
kv. lári aftur

Nafnlaus sagði...

úff ég hlakka svooo til að eyða næstu 3 klst í að skoða myndirnar af apaköttunum (allt frekar en að vinna) ;)

Nafnlaus sagði...

Já Lára(góð að skrifa tvisvar)það var sko næs að fara á stefnumót!Já og hafa mömmu sína auðvitað ;)
Ég hef líka verið að spá í hvort það sama eigi við um ofurhönnuðu heimilin..hvort fólk geti eitthvað chillað af áhyggjum yfir öllu fíneríinu,raðandi sítrónunum, pússandi glerborð og háglansandi innréttingar, já og í hverju á maður eiginlega að vera til að passa við herlegheitin?...eflaust er þetta ekki til vandræða hjá fólki upp til hópa en maður er bara svona að hugsa, alltaf að hugsa rosa djúpt og miikið ;)

Tóta ef þú nennir ekki að vinna þá verðuru víst að koma í heimsókn og það er ekki leiðinlegt ég loofa!;)

Kossar á ykkur englabossar

Nafnlaus sagði...

Er búin að sitja hérna og fletta öllum myndum fram og til baka ! Elska að skoða myndirnar þína :D Mig langar alveg bara að koma og vera hjá ykkur í sumar, ekki á Íslandi hehe :D
Já ji minn, hvað á maður að gera ef maður á nú ekkert til að vera í við herlegheitin heima hjá sér, sítrónurnar og stálið ? Vá, þá byrja fyrst vandamálin ! Það er þá bara um tvennt að vejla, ofurhanna heimilið upp á nýtt eða ofurhanna fataskápinn upp á nýtt. Og það er sko e-ð til að fá kvíðakast yfir hahaha.
Er að kreista alla sólargeislana úr sólinni hérna áður en við förum til Íslands. Skil ekki hvað maður er að pæla :D En stóri bónusinn er náttúrulega að maður fær að vera með fjölskyldu og vinum í 2 mánuði og það er það besta :D
kæmpeknus að norðan :D

oslo_dust sagði...

Hæ hæ.. rosa mikið að gerast á blogginu. Maður er alveg dottin aftur úr. Ert það þú Kolla sem ert að "graffa" út um allar trissur í Baxe og taka myndir af því? Afmæliskveðjur til Bjarka.
kv. fæðingarorlofspabbinn í L.A.

Nafnlaus sagði...

Já Fjóla þetta er örugglega mega dillema eða vera svona smart, eins gott að þurfa ekkert að pæla í þessu ;)Já komiði bara til okkar júní er laus hehe.Ég skil samt vel að þið viljið skella ykkur heim til fjölskyldu og vina það er nú einu sinni það sem togar hvað mest í mann.

Ívar það er allt að gerast svo það þýðir nú lítið að detta út, bara vera á tánum..alltaf ;)Já við Funi dundum okkur við graffið á daginn og svo geri ég flóknari myndir ein í skjóli nætur.
Takk segi ég bara frá Bjarka og koss segi ég frá okkur öllum

xxx Við