fimmtudagur, 19. júní 2008

2 dagar



































17. og 18. júní voru viðburðarríkir dagar.

Að morgni 17. júní flaug Bjarki til Mílanó á Radioheadtónleika sem ég hefði svo gjarnan viljað fara á, ó já. Ég sé það núna að ég hefði ekki geta sleppt síðustu tveimur dögum í lífi tveggja krakkalakka, það var einfaldlega of mikið á seyði.

17. júní fórum við Funi að horfa á Sölku í síðasta sundtímanum hennar. Það var svo gaman að sjá hvað hún var glöð og örugg. Fyrr um morgunin hafði sagt við mig að ef að Funi yrði eitthvað hræddur(man ekki af hverju) þá myndi hún bara segja honum frá því þegar hún byrjaði í sundi. Fyrst var það erfitt og hún grét stundum en núna var það bara gaman. Henni fannst alls ekki auðvelt að fara í sund fyrst og vildi helst hætta og stundum hugsaði ég með mér að kannski væri það réttast. Þess vegna fannst mér sérstaklega gaman að sjá hvað hún naut sín vel í síðasta tímanum og hvað hún var stolt. Hún ljómaði þegar hún sá okkur. Hoppaði óhrædd út í, svamlaði um og dýfði höfðinu nokkrum sinnum í kaf til að sýna okkur hvað hún kynni (henni hefur alltaf verið mjög illa við að fá vatn í andlitið).
Funi vildi helst af öllu taka þátt í fjörinu og hoppa út í til hennar. Ég mátti hafa mig alla við að halda honum á mottunni meðan ég tók myndir og dáðist að hvað Sölku hafði farið fram. Í eitt skiptið náði hann meira að segja að komast að bakkanum án þess að ég tæki eftir því og það mátti engu muna að honum tækist ætlunarverk sitt og stykki ofan í. Eftir það varð hann að láta sér nægja að hrópa til hennar af bekknum hátt og snjallt: "Sakkaaa, Sakkaaa"!!

Eftir skóla löbbuðum við í mat til vina og lékum langt fram á kvöld í góðum félagsskap.

18. júní sýndu börnin í skólanum hennar Sölku söng og dansatriði sem var svo fínt að ég táraðist (svo meyr, ég táraðist líka þegar yngri krakkarnir voru með atriði og ég á ekkert þeirra ). Ég náði ekki alveg nógu góðum myndum, þurfti aðeins að passa upp á apaköttinn sem vildi auðvitað taka þátt í þessu atriði eins og sundinu ;) Ég náði samt fínu videó sem er ennþá betra.

Öll börnin voru í hvítu að ofan og gallabuxum að neðan. Fyrst sungu þau lag um allskyns hjóðfæri með mjög leikrænum tilburðum sem allir tóku fullan þátt í. Svo dönsuðu þau svo fallega, dans sem Salka hafði sýnt mér að þau væru að æfa, já og líka kennt mér hann.
Þetta var svooo fínt.

Eftir sýninguna léku krakkarnir sér aðeins í skólanum, þá fékk Funi að vera með og það var eitthvað sem hann kunni vel að meta. Hann leyfði stelpunum að dröslast með sig um allt, fór í eltingaleik, skoðaði dótið og fann fullt af flottum bílum sem reyndist erfitt að slíta hann frá. Ég held hann sé tilbúin að fara á leikskóla.

Til að toppa gleðina skelltum við okkur á bílaróló (eins og Salka kallar hann) og hittum þar fullt af krökkum úr skólanum. Salka hljóp og ærslaðist nánast allan tímann, fór í eltingaleik, klifraði upp á borðtennisborð, hoppaði niður og klifraði svo hærra en nokkru sinni fyrr í klifurtrénu, þar sem hún róaðist og sat dágóða stund. Funi skemmti sér líka konunglega, mokaði með krökkunum og kynntist svo 6 ára stelpu sem hét Anna og lék svo fallega við hann. Það var frábært að fylgjast með þeim og heyra hann kalla á hana og kynna hana svo fyrir Sölku sinni: De Sakka, me blomm (þetta er Salka) og svo benti hann á blómin í hárinu hennar eins og til að sýna vinkonunni hvað systir hans væri fín.
Grjónagrautur í matinn og allir glaðir.
Mikið var ég samt glöð þegar Bjarki kom heim um kvöldið eftir frábæra ferð. Það er eitthvað öðruvísi að vera einn heima í öðru landi og helstu áhyggjur mínar meðan hann var í burtu voru að læsa mig úti. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að ég hafi tékkað á lyklunum svona... 205 sinnum á dag og það getur verið ansi stressandi.

Nú eru áhyggjur mínar mun dreifðari ;)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ ég er búin að reyna að laga þennan 17. og 18. júní sem eru þarna uppi en mér tekst það bara ekki...þessi færsla er ekki búin að vera góð við mig svo ég nenni henni ekki meir.

Bæjó í bili

Nafnlaus sagði...

Æðislegt að heyra hvað hún Salka er orðin dugleg í sundi. Það eru nú ekki margir 4 ára krakkar sem fara á sundnámskeið og það er ótrúlegt að ná svona miklum framförum á stuttum tíma (og gera sér grein fyrir því líka).

Við þökkum mikið mikið fyrir undurfagra afmælisgjöf Orra. Hann var sætastur á 17. júní í fötunum og þessi bolur er einhvern veginn bara eins og Orri. Tindur var líka ofurglaður og fær núna til spari að setja límmiða í bókina. Finnst það rosa gaman.

Adam er búinn að reyna að hringja í Bjarka. Mílanóferðin gæti verið skýring á að það hefur ekki gengið.

Hlökkum ýkt mikið til að fá ykkur heim.

Ástarkveðjur

Nafnlaus sagði...

Já það var svo frábært að fylgjast með henni hún var svo stolt og ánægð, bæði í sundinu og á sýningunni í skólanum.Sjálfstraustið uppmálað og þá verð ég auðvitað svo stolt og glöð í hjartanu ;)

Mikið er ég ánægð að heyra að gjöfin hafi fallið í góðan jarðveg. Mér fannst þetta svo mikið hann.Ég varð svo auðvitað að kaupa eins á Funa..gat ekki sleppt því.

Bjarki hringir í Adam á eftir.

Okkur er líka farið að hlakka til að koma heim..svona þegar dagsetningin er komin þá fer maður ósjálfrátt að hugsa meira heim.

Ást og hlýja..eða meira svona steikjandi hiti ;)

Nafnlaus sagði...

Hæhæ..
Ég las þessa sundlýsingu upphátt fyrir Bennann enda á þessi lýsing svo nákvæmlega við einn sem ég þekki... a.k.a. Dag Björn.
Hann kláraði tveggja vikna sundnámskeiðið sitt á föstudaginn var og vá ég bara spurði sjálfa mig.. á ég þetta barn? Hann var alveg mesta músin af öllum hópnum í upphafi námskeiðs enda er honum einstaklega illa við að fá vatn í andlitið.. en nú er allt annað. Nú verður maður bara að vera duglegur að halda þessu við..
Annars er ég kominn á Reyðarfjörðin og ætla að vera þar út mánuðinn.
Hafið það gasa fínt..
knús
lvk

Nafnlaus sagði...

Það er svo gaman þegar þau sigrast á því sem þeim þykir erfitt og verða svoo uppveðruð og við náttúrulega líka.
Fimmuna til duglega Dags og hafið það yndislegt á Reyðó..kallar maður hann kannski aldrei Reyðó, er ég bara glató?;)

Kossar til ykkar