miðvikudagur, 25. júní 2008

Spes!

Fyrir nokkru áttum við Salka leið í bakaríið.

Hér eru bakarí á hverju horni en við ákváðum að fara í bakarí sem var aðeins úr leið fyrir okkur og selur svo sérstaklega góð brauð og kökur. Brauð með allskyns fræum og fíneríi og kökur og sætabrauð sem maður sér ekki annarsstaðar. Ég sá meira að segja spirulinasmáköku..hún var að vísu þanggræn á litin og ekkert rosalega girnileg en örugglega þeim mun hollari og kannski góð? Flest bakarí hér eiga það nefninlega sameiginlegt að selja nær eingöngu hvít brauð og smjördeigssætindi af ýmsu tagi.

Bakaríið er pínulitið en þar er alltaf nóg að gera og starfsstúlkurnar einstaklega indælar (sem er alls ekki sjálfgefið). Þær brosa svo vingjarnlega og gefa óþreyjufullum börnum nær alltaf smá góðgæti eins og til dæmis litla kexköku eða brauðstöng á meðan þau bíða..en aldrei án þess að spyrja foreldrana fyrst.

Þegar ég hafði borgað og við vorum á leiðinni út missti ég smápening og sá hann rúlla eftir gólfinu. Ég bað Sölku um að rétta mér hann en sá um leið að maður sem stóð í bakaríisröðinni steig ofan á peninginn og dró svo fótinn að sér. Hann hélt að hann væri að gera þetta voða laumulega en ég horfði á hann allan tímann. Hann horfði svo stíft fram fyrir sig á meðan ég velti fyrir mér þessari undarlegu hegðun hjá þessum mjög svo venjulega útlítandi manni (aldrei að dæma fólk af útlitinu). Nokkrum sinnum skáskaut hann augunum til mín eins og til að tékka hvort ég væri ekki að fara en hann hreyfði ekki höfuðið með, bara augun. Það er alltaf svolítið krípí þegar einhver fylgist með bara með augunum, án þess að hreyfa höfuðið og heldur að enginn taki eftir þessu "trixi".

Salka vandræðaðist eitthvað í kringum hann en sagði mér svo að hann stæði ofan á peningnum okkar. Þessi gjörningur mannsins varð ennþá vandræðalegri þegar Salka reyndi að beygja sig eftir peningnum en hann gaf sig ekki. Var ég búin að minnast á hvað þetta var pínkulítið bakarí og það var fullt af öðru fólki?

Ég var svo rasandi hissa að ég sagði Sölku bara að koma..."já en peningurinn"? Skiptir engu...við vonum bara að hann geti keypt sér eins og hálfa möffins, hún hrökkvi ofan í hann og rétt áður en einhver slær í bakið á honum (ég er enginn viðbjóður sem óskar fólki dauða) þá verði honum hugsað til litlu stelpunnar sem hann stal peningnum af og skammist sín!...tja ég sagði það kannski ekki fyrir framan barnið en ég hugsaði það, eða hugsaði ég það ekki? Kannski hugsaði ég bara ekkert af því að ég var svo upptekin við að vera hissa, svo hissa að mér datt ekki í hug að biðja manninn um peninginn.

Karma ég treysti á þig.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oj ekkert smá sick gaur hann hefði kanski bara tryllst ef þið hefðuð beðið hann um peninginn ótrúlegt hvað er til mikið af skrítnu fólki sem maður verður bara að passa sig á.
kv Petra

Nafnlaus sagði...

Hehe já það er aldrei að vita hvað hefði gerst ef ég hefði beðið hann um klinkið...ég var nú samt ekkert hrædd við hann, bara rosa hissa..ég meina til hvers að hafa fyrir þessu? Bull og vitleysa ;)

Ást og söknuður til ykkar fallega fjölskylda

Nafnlaus sagði...

Vá en spes, fólk getur gert mann alveg gapandi af undrun. Ohh hvað það er örugglega yndislegt hjá ykkur í sólinni og komin næstum öll í frí. Minns er bara alltaf úti að vinna í garðinum, orðin að garðálfi og nýkomin heim frá Kuapmannahöfn með Kötlu, mikið verslað jibbíjei. Koss á línuna, Kv. Ábba

Nafnlaus sagði...

Mhmm ég veit það er víst nóg af spes fólki sem gefur lífinu lit, sem er í góðu lagi..á meðan það er ekki hættulegt.
Já hér er algjör steik og nóg að gera við að hafa ofan af fyrir öllum og bralla eitthvað skemmtó.
Það er svo mikið yndi að vinna í garðinum. Garðavinna er svo frábær á sumrin svona eins og hugleiðsla eða spa svei mér þá, enda valdi ég mér garðavinnu mörg sumur. Skemmtilegust er hún samt í eigin garði.
Kaupmannahöfn hljómar svooo vel og að versla mikið en betur ;)

Margir kossar og kjamms yfir hafið