sunnudagur, 24. febrúar 2008

Luftballon

Ég sótti Sölku í skólann á föstudaginn, ekki í skólann hennar heldur unglingaskólann eins og hún
kallar hann. Það var nefninlega hátíð í skólanum (en ekki hvað?) og yngri krakkarnir fengu að heimsækja þá eldri og fagna með þeim..hverju veit ég ekki en það er alltaf gaman að fagna.
Þegar ég gekk niður götuna að skólanum var það fyrsta sem ég hugsaði... "af hverju er ég ekki með myndavél"? Það var svo flott að sjá fullt af krökkum og fullorðnum standa fyrir utan skólann með hvítar gasblöðrur. Krakkarnir komu svo eitt af öðru út um skólahliðið máluð í framan með bros á vör og með hvíta blöðru bundna utan um hendina. Auk þess var Salka með stjörnubangsa bekkjarins sem heitir Stells og krakkarnir í bekknum skiptast á að passa um helgar. Nú var komið að henni að passa og hún var auðvitað yfir sig ánægð með það.

Á leiðinni heim vildi Salka losa blöðruna af hendinni og stakk svo upp á því að sleppa henni upp í himininn. Mér leist nú ekkert á þá hugmynd og reyndi að telja hana ofan af henni. Salka var hinsvegar alveg ákveðin að prófa þetta og taldi einn,tveir og þrír og sleppti svo bara blöðrunni. Ég rétt náði að grípa í bandið og "bjargaði" blöðrunni við lítinn fögnuð Sölku sem var ekki sátt við þessa afskiptasemi. Hún ákvað að prófa aftur og ég sagði henni að nú mundi ég ekki bjarga blöðrunni og til að leggja en frekari áherslu á orð mín setti ég hendur í vasa. Salka taldi aftur einn, tveir og þrííír og sleppti blöðrunni. Í þetta skiptið sveif hún upp í bláan himininn og við fyldumst með henni minka og minnka eftir því sem hún sveif hærra og hærra og aftur óskaði ég að ég væri með myndavélina...það var bara svo fínt að sjá hvíta blöðruna fljúga í rólegheitunum og himininn svona fáránlega fallega bláan í bakgrunn. Salka sagði með spenningi í röddinni:" svo kanski kemur fugl og tekur í bandið á blöðrunni í munninn sinn og flýgur með hana aftur til mín! "Já ,kanski sagði ég en mér finnst samt líklegra að við sjáum blöðruna aldrei aftur". Salka breytti um svip, varð þungt hugsi og við héldum áfram að ganga heim. Ég var dálítið leið yfir að hafa skemmt drauminn hennar og benti henni á hvað blaðran væri komin hátt. Hún var ekkert ánægð með það og sagði bara með fýlusvip að þetta væri hundleiðinlegt. Ég stakk þá upp á að kanski væri blaðran á leiðinni til Íslands. Það leist henni betur á og bætti við að þá myndi Emilía kanski finna hana og koma með hana til hennar þegar hún kæmi í heimsókn. Við lýsum því eftir hvítri gasblöðru sem á stendur Patufeit og Pau.. ef þið sjáið hana á sveimi þá endilega kippið henni með ykkur. Við fórum svo á leikvöllinn þar sem Salka hitti nokkra bekkjarfélaga. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með henni leika við spænska krakka...þau spegla hegðun hvors annars, fara í eltingaleik og hlæja mikið. Um daginn fórum við á bílaróló eins og Salka kallar hann og hún hitti tvo skólafélaga sína. Þeir kepptust við að skemmta henni og vera fyndnir, létu sig detta, hoppuðu og klifruðu fyrir hana. Kölluðu hvor í kapp við annann Salka mira, mira (sjáðu) og gerðu svo eitthvað ótrúlega flott. Salka skemmti sér konunglega, tók fullan þátt í gríninu og sneri þeim svo í hring í gormadekkinu.En og aftur var mér hugsað til myndavélarinnar sem gleymdist heima..stundum vildi ég óska að ég gæti tekið mynd með því að blikka augunum... þá myndi ég ekki þurfa að dröslast með myndavélahlunkinn með mér hvert sem ég færi auk þess sem ég mundi ná öllum skemmtilegu augnablikunum, því ég er jú svo fljót að blikka.

Á laugardaginn létum við svo verða af því að skella okkur til Tarragona. Ferðin tók tæpan klukkutíma með lest og við vorum betur undirbúin en oft áður, tókum mat drykk og bækur til að stytta systkinunum stundir. Þegar til Tarragona kom röltum við um og skoðuðum það sem fyrir augu bar. Við höfðum reyndar gleymt að fletta upp merkum stöðum til að sjá og vorum ekki með neinskonar kort af staðnum en skoðuðum þá bara það sem varð á vegi okkar og enduðum svo á ströndinni. Þá var reyndar komin smá þoka en það kom ekki að sök og Salka reif sig stax úr sokkabuxunum og boraði tánum á sér í sandinn. Funi gekk um, veltist og skreið eins og ormur allt í bland og hafði sjaldan komist í aðra eins skemmtun. Systkinin blönduðu svo geði við systur á ströndinni sem voru svo góðar að lána þeim skóflur, fötu og allskyns form. Bjarki hafði lagst á teppi sem við höfðum verið svo sniðug að taka með og ég ákvað að gera það sama. Ótrúlega ljúft að liggja og hlusta á öldurnar, mávana og skipsflautu einhverstaðar í fjarska... eða alveg þangað til ég fékk væna gusu af sandi yfir hausinn, inn í eyrað, augað, hársvörðinn og bara allstaðar. Þetta fannst Funa svakalega fyndið og mér reyndar líka þannig að honum fannst óhætt að fara strax að sækja meiri sand. Sandurinn var eins fínn og hveiti og ég varð að gera mér að góðu að vera með hann pikkfastann í hársverðinum....mér var nær að ætla að slaka á. Þegar við höfðum leikið okkur nóg tókum við lestina til Baxe og fórum beint í matarboð til kunningja. 7 fullorðnir, 6 börn, þjóðarréttur Venezúela sem tók sólarhring að malla, mikið spjallað og mikið fjör. Þegar við héldum heim á leið rétt eftir miðnætti voru öll börn sofnuð ,nema okkar sem voru en í fullu fjöri og 13 ára unglingurinn sem furðaði sig á hverskyns börn þetta væru nú eiginlega.

Bjarki og Salka komu mér svo á óvart í dag með því að færa mér túlípana og kökusneiðar sem þau höfðu valið í tilefni af konudeginum. Ég elska túlípana og mér finnst kökur góðar.

Ljúf helgi.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh, en æðisleg helgi hjá ykkur.
Við erum bara hérna í hori og fjöri núna, það er bara hver flensan á fætur annari sem herjar á okkur danina núna, frekar fúllt :(
Engn konudagur hjá mér svo ég keypti mér bara mina túlípana sjálf :D Elska túlípana líka, fallegustu blómin mín í öllum regnbogans litum. Bakaði svo bara pönnslur fyrir mig og börnin. Maggi fór til Köben að sækja bróðir sinn og fara á tónleika. Svo bara hrúgaði ég mér í sófan eftir að börnin sofnuðu og beið eftir óskarnum, sem ég reyndar sofnaði yfir áður en hann byrjaði :D
Hafið það gott í Baxalandi, knús frá okkur í Danalandi :D

Augnablik sagði...

Hor setur alltaf strik í reikninginn..það er víst sama hvar maður er, flensur og kvef eru allstaðar.Við Funi fengum einmitt smáskammt um daginn.
Soðið vatn með hunangi,sítrónu og engifer er málið ;)
Mmmm pönnukökur, mig langar einmitt í svoleiðis núna..nenniru að skella í eina hræru og senda mér?

Batnistraumar til ykkar xxx

Nafnlaus sagði...

það er einmitt búið að vera þjóðardrykkurinn á verdisvej þessa dagana :D
pönnslur eru svo góðar uuummmm....
prufuðum alveg nýtt núna, prufuðum að smyrja pönnsluna með svona súkkulaði, svona eins og kemur í glerkrukkunum til að setja á brauð, settum þannig á og uuuummmmmm, með rjóma og súkkulaði, bara geðveikt ! Býð upp á þannig þegar þið komið við á heimleiðinni ;)

Nafnlaus sagði...

Ég segi nú bara eins og Júróvisjónfararnir: Fullkomið líf!!

Augnablik sagði...

Þessar pönnukökur verð ég að prófa..við gerum okkur sérferð og þá get ég kanski gert súkkulaðið góða sem ég lofaði ykkur en gerði aldrei, bölvaður svikarinn!

Það yrði leiðigjarnt að lifa fullkomnu lífi, þá kynni maður örugglega ekki að meta öll litlu skemmtilegu mómentin sem koma
manni á óvart..hehe djúp,ég veit;)
Kanski þarf ég að fara í brúnkusprautun eins Júróvisjonfararnir.
Lífið er annars frekar ljúft og stundum ekki og það er líka bara allt í lagi.

Kossar til ykkar ástarbossar

Nafnlaus sagði...

bara smá svona innlegg um pönnsurnar... talandi um súkkulaði með pönnsum þá er enn betra að bræða suðusúkkulaði og smyrja á pönnsurnar..
kv.lvk

Augnablik sagði...

Nú er nóg komið, ég er farin að finna pönnukökuuppskrift!;)