miðvikudagur, 6. ágúst 2008

Best í heimi

Íslendingar borða ss pulsur (já ég segi pulsur), eru hamingjusamastir í heimi og alltaf jafn hissa ef einhver veit ekki hvar landið er eða hvort það er til á annað borð.

Tökum andköf ,teljum upp hreina vatnið ,Björk, náttúruna og ef fólk hristir ennþá hausinn gefum við skít í það og bölvum þeim í hljóði fyrir að hafa ekki hundsvit á landafræði já og lífinu sjálfu. Ef fólk hefur hinsvegar eitthvað fallegt um land og þjóð að segja er það umsvifalaust orðið að félaga sem við kunnum eitthvað svo ógeðslega vel við.

Ég var einmitt að tala við mann um daginn og var að reyna að útskýra fyrir honum (á lélegri spænsku) að sjónvarpið á Íslandi væri ekki talsett heldur textað og þess vegna lærði fólk frekar að tala ensku heldur en ef allt væri "döbbað". "Jaaá bara allt á ensku" segir hann. Ég: "já nema myndir séu á öðru tungumáli og fréttirnar eru náttúrulega á íslensku. Ha, íslensku ...eru þið með sér tungumál ...já auðvitað sagði ég hlæjandi af vitleysunni en fattaði svo að auðvitað væri það ekkert ólíklegt að við værum ekki með sér tungumál og töluðum bara ensku eins og hann hélt fram. Hann bað mig svo um að taka dæmi og ætlaði ekki að trúa þessu máli..spurði hvort það væri ekki bara fullt tungl og ég að tala afturábak.

Um daginn fórum við svo á markaðinn þar sem við rákumst fyrir tilviljun á bekkjarsystur hennar Sölku ásamt foreldrum sínum. Þau stóðu við fiskibás sem seldi meðal annars íslenskan saltfisk og voru að spjalla við afgreiðsludömuna. Mamman ,Carol sem er frá Philadelpiu, skellihló þegar hún sá okkur því hún sagði að afgreiðslukonan hafi einmitt verið að segja henni frá Íslandi. Var meira að segja með mynd af sér á á afgreiðsluborðinu þar sem hún var að veiða fisk á Íslandi. Carol sagði okkur að konan hefði sagt henni að það væru mjög fáar konur á Íslandi vegna þess að þær færu allar eitthvað annað og þar væri mikið af konum frá Indónesiu og að á Íslandi væri mjöög kalt. Konan sagði okkur svo sjálf að hún hafi verið í nágrenni við Akureyri ,ég náði ekki nákvæmlega hvar og það hafi verið 2 stiga hiti..í júlí! Getur passað, við Bjarki sváfum einu sinni í tjaldi í Vaglaskógi í 5 stiga hita..gott ef það var ekki júlí . Svo talaði hún um hvað fólkinu finndist erfitt að búa þarna , meðal annars ein kona sem vendist bara ekki kuldanum og sæi heitari lönd í hillingum (satt). Hún minntist ekkert á Björk og Sigurrós, fallega fólkið eða náttúruna? Skrítið.

Erlendur leikari (ókei George Cloney) var eitt sinn í viðtali þar sem íslenskur spyrillinn biður hann glottandi um að segja sér hver höfuðborg Íslands sé. Hann samþykkir það með einu skilyrði...ef hún geti sagt sér hver höfuðborg Kentuky sé, sem er fæðingarbær hans..uuu glott hverfur.
Ég stóð mig svo að því um daginn að gefa kennaranum hennar Sölku litla bók um Ísland (á spænsku) í kveðjugjöf...bara svona til að sýna henni að við værum ekki núll og nix heldur stórmerkilegur pappír.

Talandi um pappír þá rakst ég fyrir nokkru á grein sem hafði birtst í The Observer um hvers vegna það væri best í heimi að búa á Íslandi, þar hafiði það.

Ekki misskilja mér finnst Ísland mjög svo gott, jafnvel best en það þarf ekkert að þýða að öllum í heiminum þurfi að finnast það sama..þó það væri auðvitað voða gott fyrir sjálfstraustið því Ísland er jú land mitt og fjarlægðin gerir fjöllin svo fallega blá.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

aaaaahhhhh, þess vegna er svo gott að búa í landi sem er bara næstum því með sama tungumál og við tölum :D
Það er bara fyndið hvað eru mörg örð líka á dönsku og íslensku. Svo eru Danirnir líka mikið fyrir að taka upp orð á ensku þannig að ef þú veist ekki hvernig á að segja e-ð þá bara prufaru íslensku útgáfuna með dönskum hreim eða hreinlega bara enska orðið og það gengur yfirleitt annað hvort :D
Og það er svo alveg satt hjá þér hvað fjarlægðin gerir fjöllin blá. Ég var alveg á því að flytja bara heim aftur til Íslands eftir þessa tveggja mánaða dvöl okkar þar en þegar maður kom hingað út í hitann og góða veðrið þá snerist mér strax hugur og hef hugsað mér bara að massa þetta, eiga bara heima hérna þanga til ég kemst inn í þennan blessaða skóla. Og auðvitað vil ég fá góða vinnu þá líka ;) En kannski breytist hljóðið í mér þegar fer að hausta og dimma og það verður kalt og hráslagalegt, þá kannski vil ég bara fara heim í mömmufaðm. En er á meðan er og Ísland verður alltaf best í heimi og ég veit að það mun bíða mín þar til minn tími kemur á að flytja aftur heim :D
Sumar og sól og snjókoma um jól, best er að hafa það saman :D Og það fær maður alveg örugglega hérna í DK.
Hlýja, Fjóla.

Nafnlaus sagði...

Já Danmörk er svona hálfgert Ísland og manni finnst voða heimilislegt að koma þanngað;)
Ég las einmitt hjá þér hvað þú ert jákvæð og dugleg að sækja um vinnu og svo kemstu náttúrulega inn í skólann og þá verðuru komin með málið alveg upp á 10,fingrakross í bak og fyrir;)

Það er engin hætta á öðru en að það verði líka kalt og hráslagalegt á Íslandi en ég er tilbúin í það. Ég lofa samt engu um að ég verði ekki endrum og eins óþolandi týpan sem segir.."já sko í Baxe þá var þetta nú svona og svona og blablabla BAxe"

Kossar til ykkar
xxx

Nafnlaus sagði...

Hæ honní
já það er svo skrýtið þegar fer að nálgast heimferðin að þá oft er maður búinn að pakka niður í huganum áður!

jú mér finnst stundum hrikalega klígjulegt þetta þjóðarstolt, en stundum finnst mér það bara e-ð svo krúttlegt og hluti af því hver við erum og hvers vegna við erum svona tjaa frábær ;)

p.s. var að setja inn myndir af svæðinu c.a. 7klst. sunnan við þig ;)

Selms

Nafnlaus sagði...

Hehe það er klígjulega krúttlegt eða kannski krúttlega klígjulegt?

Já ég er sko komin hálfa leiðina heim í huganum og hlakka til að komast hinn helminginn eftir bara nokkra daga ;)
Nú ætla ég að skoða myndirnar ykkar að sunnan veii!

Koss á kinn